Fara yfir á efnisvæði

Auglýsingar Sjóvá-Almennar tryggingar villandi

24.11.2021

Neytendastofu barst kvörtun frá Verði tryggingum hf. vegna vegna auglýsinga og markaðsherferðar Sjóvá-Almennar tryggingar hf. á kaskótryggingu Sjóvá fyrir ökutæki og samanburði sem gerður var á skilmálum trygginga fyrirtækjanna. Taldi Vörður að um villandi viðskiptahætti væri að ræða og ólögmætar samanburðarauglýsingar. Sjóvá gæti ekki fært sönnur á fullyrðingar í auglýsingunum og að upplýsingar í auglýsingunum og markaðsherferðinni væru rangar, villandi og órökstuddar.

Sjóvá benti á að kaskótryggingin væri aláhættutrygging sem hafi verið víðtækari en annarra í landinu en eftir breytingar Varðar á skilmálum hafi hluti af því markaðsefni sem Sjóvá setti fram verið úrelt og ekki falið í sér réttar samanburðarupplýsingar gagnvart Verði. Um mistök hafi verið að ræða sem hafi verið brugðist strax við á viðeigandi hátt og samanburðardæmi fjarlægð sem ekki áttu rétt á sér. Þrátt fyrir það telji félagið meginskilaboðin efnislega rétt, enn í fullu gildi gagnvart öðrum markaðsaðilum og auglýsingarnar innihaldi hvorki röng, villandi eða óviðeigandi skilaboð né ósanngjarna eða óréttmæta viðskiptahætti

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið færðar sönnur fyrir fullyrðingu Sjóvá, auglýsingin fæli því í sér óréttmæta viðskiptahætti, bryti í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum og væri líkleg til að raska verulega fjárhagslegri hegðun þeirra. Þá var það álit Neytendastofu að auglýsingarnar væru rangar og villandi og til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn vara.


Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA