Fara yfir á efnisvæði

Fyrra verð og útsala hjá Ormsson

20.12.2022

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Ormsson ehf. vegna kynninga fyrirtækisins á lækkuðu verði ýmissa sjónvarpa. Neytendastofu bárust ábendingar um að sjónvörp á vefsíðunni hafi aldrei verið til sölu á uppgefnu fyrra verði og að auglýstur afsláttur hefði verið umfram sex vikur. Þá hefði skort tilgreiningu prósentuafsláttar á auglýstum TAX FREE afslætti félagsins.

Í svari Ormsson kom m.a. að fram að umræddar vörur hefðu verið á sérstöku tilboði með markaðsstuðningi frá Samsung vegna rýmingar fyrir nýrri vörum auk þess sem stór hluti sölu félagsins færi í gegnum heildsöluviðskipti sem fælu í sér sértækan afslátt. Þá væri búið að laga markaðsefni Ormsson vegna tilgreiningar á prósentuhlutfalli TAX FREE afsláttar.

Í ákvörðun Neytendastofu var m.a. fjallað um að tilgreining á fyrra verði tiltekinna sjónvarpa hafi gefið til kynna að um lækkað verð hafi verið að ræða. Í ljósi þess að félagið hafi ekki geta lagt fram gögn sem færðu sönnur fyrir því að vörurnar hafi verið seldar á því verði var talið að gefnar hafi verið rangar upplýsingar um verðhagræði og að ekki hafi verið sýnt fram á að um raunverulega verðlækkun hafi verið að ræða. Þá benti stofnunin á varðandi auglýstan afslátt lengur en sex vikur að afslátturinn hafi ekki verið kynntur sem rýmingarsala, engin gögn þess efnis lögð fram eða að gildandi reglur um rýmingarsölu hafi verið uppfylltar að neinu leyti. Þá taldi stofnunin félagið ennfremur hafa brotið gegn ákvæðum laga með því að tilgreina ekki prósentuhlutfall á auglýstum TAX FREE afslætti félagsins. Að teknu tilliti til umfangs brotsins, fyrri sektarákvarðana í sambærilegum málum og að teknu tilliti til meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, taldi Neytendastofa rétt að sekta fyrirtækið. Var því lögð stjórnvaldssekt á Ormsson fyrir brotið

Ákvörðunin má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA