Fara yfir á efnisvæði

Google skuldbindur sig til að veita neytendum skýrari og nákvæmari upplýsingar í samræmi við reglugerðir ESB

16.02.2023

Neytendastofa vekur athygli á því að í kjölfar viðræðna við Samstarfsnet neytendayfirvalda í Evrópu (Consumer Protection Cooperation - CPC) hefur Google samþykkt að gera breytingar í samræmi við athugasemdir yfirvaldanna. Áhersla var lögð á skort á gagnsæi og skýrum upplýsingum til neytenda og ætlar Google að kynna breytingar á Google Store, Google Play Store, Google Hotels og Google Flights.

Það helsta sem skuldbindingarnar fela í sér
Google hefur skuldbundið sig til þess að takmarka heimild sína til að gera einhliða breytingar tengdar verði og afpöntunum á rafrænum kaupum. Auk þess mun Google búa til netfang sem verður eingöngu notað fyrir neytendaverndaryfirvöld, svo þau geti með skjótum hætti tilkynnt og óskað eftir að ólöglegt efni sé fjarlægt.
Þar að auki hefur Google samþykkt eftirfarandi:
Google Flights og Google Hotels:
• Skýrt sé fyrir neytendum hvort verið sé að gera samning beint við Google eða hvort Google sé eingöngu milliliður
• Fyrra verð sé skýrt þegar afslættir eru auglýstir og að það komi skýrt fram að umsagnir séu ekki staðfestar af Google Hotels
• Google samþykkir sömu skuldbindingar um gagnsæi og aðrir sambærilegir vettvangar, um það hvernig upplýsingar eru birtar til neytenda t.d. upplýsingar um verð eða hvort þjónustan sé tiltæk.
Google Play Store og Google Store:
• Veittar séu skýrar upplýsingar áður en samningar eru gerðir um sendingakostnað, réttinn til að falla frá samningi og möguleika á viðgerðum og endurnýjunum. Google mun einnig veita skýrari upplýsingar um fyrirtækið (t.d. lögaðili og heimilisfang) og beina tengiliði (t.d. símafulltrúa).
• Skýra frá því hvernig hægt sé að vafra á mismunandi landsútgáfum af Google Play Store og tilkynna þróunaraðilum hverjar skyldur þeirra eru vegna ráðstafana gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð (e. Geo-blocking) til þess að forritin séu aðgengileg innan allra EES landa auk þess að gera neytendum kleift að nota greiðslumiðla frá hvaða EEE-landi sem er.

Næstu skref
Neytendayfirvöld munu fylgjast vel með framkvæmdum þessara skuldbindinga Google og eftirlitsaðilar hvers ríkis munu framfylgja reglulegri eftirfylgni ef þörf verður á. Sérstök áhersla verður lögð á að stöðva óréttmætar landfræðilegar takmarkanir á netumferð, þar sem fyrirtækið hefur beitt tæknilegum takmörkunum fyrir notkun ýmissa forrita eftir staðsetningu notenda. Google hefur réttlætt þetta með því að notendur geti skipt um búsetuland einu sinni á ári til þess að hafa aðgang að staðbundnum forritum og leikjum annars ríkis. Hins vegar getur sú breyting leitt til þess að notandinn tapar efni og inneignum sem telst brot gegn Geo-blocking reglugerð.

Fyrir frekari upplýsingar (á ensku)
Frétt Framkvæmdastjórnar ESB
Sameiginleg afstaða landsyfirvalda CPC um neytendavernd, er kemur að viðskiptaháttum og skilmálum Google.com
Heildarlisti yfir breytingar
Frekari upplýsingar um aðgerðir vegna neytendaverndar 

TIL BAKA