Fara yfir á efnisvæði

Dekk1 sektað

17.04.2023

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Dekkja- og bílaþjónustunni ehf., rekstraraðila dekk1.is, vegna viðskiptahátta félagsins. Málið sneri að auglýsingum og kynningum á tilboðum á dekkjum í tengslum við Cyberviku félagsins, vísun til svokallaðs „gámatilboðs“ og tilboði á dekkjum sem tóku gildi eftir að Cyberviku félagsins lauk. Í auglýsingum á vefsíðunni dekk1.is kom fram að veittur væri „Allt að 70% afsláttur“ af dekkjum. Við ítarlega athugun Neytendastofu, þar sem um 1.300 vöruliðir voru teknir til skoðunar, kom hins vegar í ljós að einungis var hægt að finna dekk á mun lægri afslætti og þá iðulega einungis á 5% afslætti. Athugun Neytendastofu leiddi í ljós að engin dekk voru fáanleg á auglýstum 70% afslætti. Þá gerði Neytendastofa einnig athugasemd við að auglýst hafi verið að tilboð stæði aðeins í takmarkaðan tíma sem svo var ekki raunin og notkun á orðinu „gámatilboð“ án þess að um tilboð eða raunverulega verðlækkun hafi verið að ræða.

Í svörum félagsins kom fram að félagið hafni því að hafa brotið gegn ákvæðum laga þar sem að á meðan Cyber Monday stóð hafi verið veittur 70% afsláttur af völdum dekkjum. Þá hafi einnig verið ákveðið að hækka afslætti enn frekar eftir að Cyber Monday lauk og hækkaði því afsláttur af dekkjum í svokölluðu „gámatilboði“ úr 5% í 15%. Að lokum tiltók félagið að mikið hafi selst af dekkjum á afslætti umrædda daga en því miður ekki sú stærð sem boðin hafi verið á hæsta afslættinum, þ.e. 70%, og því séu ekki til sölukvittanir vegna slíkra viðskipta.

Í ákvörðun Neytendastofu kom fram að félaginu hafi ekki tekist að sýna fram á að til sölu hafi verið dekk með 70% afslætti á því tímabili sem um ræddi. Stofnunin taldi einnig að notkun orðsins „gámatilboð“ í auglýsingum félagsins, án þessa að um raunverulegt tilboð hafi verið að ræða, væri villandi gagnvart neytendum. Að lokum komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að auglýsing við lok Cyberviku, sem staðhæfði ranglega að einungis nokkrir klukkutímar væru til stefnu til að nýta sér fyrirliggjandi tilboð, teldist óréttmætir viðskiptahættir. Stofnunin taldi framangreint til þess fallið að fá neytendur til að taka skyndiákvörðun svo þeir hafi hvorki tíma né tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun.

Bannaði Neytendastofa rekstraraðila dekk1.is að viðhafa ofangreinda viðskiptahætti og sektaði félagið um 200.000 krónur.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA