Fara yfir á efnisvæði

Ólögmætar auglýsingar Svens á nikótínvörum

25.07.2023

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gegn Svens ehf. vegna auglýsinga á nikótínvörum. Í ákvörðuninni er annars vegar fjallað um auglýsingar framan á verslunum Svens og hins vegar auglýsingar sem voru birtar á samfélagsmiðlum.

Það er niðurstaða stofnunarinnar að stórar dósir framan á verslun félagsins brjóti gegn auglýsingabanni nikótínvara. Þrátt fyrir að dósirnar séu merktar sem „nikótín lausar“ sé letrið svo smátt að vegfarendur sjá það varla en sjá hins vegar greinilega nafn framleiðanda vörunnar sem býður breytt úrval af púðum með nikótíni í sambærilegum umbúðum. Þá taldi stofnunin að tilvísun félagsins til „snus“ í markaðsefni sínu fæli jafnframt í sér beina tilvísun til nikótínpúða.

Á samfélagsmiðlum var annars vegar um að ræða auglýsingu þar sem Sven, fígúra félagsins, dansar um með það sem virðist vera nikótínpúði í vörinni og dós utan af slíkum púðum í annarri hendinni, með yfirskriftinni „með 10.000 kodda í vasanum“, og hins vegar auglýsingu þar sem fram kom: „Meira en 150 tegundir og 11 búðir“. Taldi stofnunin að hafa þyrfti hliðsjón af vöruúrvali félagsins sem samanstendur að nær öllu leiti af nikótínpúðum. Með hliðsjón af því mega neytendur réttilega ganga út frá því að framangreindar auglýsingar feli í sér beina tilvísun til vöruúrvals félagsins, þ.e. nikótínpúða. Tók stofnunin sérstaklega fram, með vísan til markmiðs laganna og eðlis þeirrar vöru sem félagið selur, að bannákvæði laganna myndi missa marks ef gildissvið þess væri takmarkað við einungis beinar auglýsingar á nikótínpúðum eða framleiðendum þeirra.

Þá var það niðurstaða stofnunarinnar að framangreindar auglýsingar feli í sér viðskiptahætti sem eru óhæfilegir gagnvart neytendum, enda um að ræða ávanabindandi vöru sem kann að hafa áhrif á heilsu notenda og er þar að auki bannað að auglýsa lögum samkvæmt.

Bannaði Neytendastofa Svens að viðhafa framangreinda viðskiptahætti og veitti félaginu fjögurra vikna frest til að fjarlægja markaðsefnið sem fjallað er um.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA