Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðingar Arnarlax um sjálfbærni

15.12.2023

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Arnarlaxi vegna fullyrðinga um sjálfbærni í markaðssetningu og vörumerkjum félagsins. Í málinu er fjallað um fullyrðingar Arnarlax um sjálfbærni, umhverfisvæna framleiðslu o.fl. sem m.a. birtust á vefsíðu félagsins og í öðru auglýsinga- og kynningarefni þess.

Í svörum félagsins kom fram að félagið starfi á grundvelli starfs- og rekstrarleyfa frá Umhverfis- og Matvælastofnun sem veitt séu samkvæmt lögum. Þá var vísað til þess að starfsemi félagsins væri vottuð alþjóðlegu vottunarkerfi, ASC, sem taki bæði til umhverfis- og samfélagslegra þátta. Þá hélt félagið því fram að fullyrðingar þess byggist á gögnum og faglegum niðurstöðum óháðra aðila, leyfisveitenda og eftirlitsstjórnvalda. Enn fremur sé það mat félagsins að Neytendastofa hafi ekki heimildir til að krefjast þess að það færi fram sérstaka sönnun fyrir eða afstöðu til þeirra orða sem fram komi í orðhluta vörumerkja félagsins.

Í niðurstöðu Neytendastofu kom fram að það væri álit stofnunarinnar að notkun Arnarlax á hugtökunum sjálfbær og sjálfbærni væri almenn og óljós og ekki studd nægilegum gögnum. Markaðssetningin gefi þannig hinum almenna neytanda ranglega til kynna að laxeldi félagsins í sjókvíum væri að fullu sjálfbært og hafi þannig engin eða í það minnsta hlutlaus áhrif á umhverfið. Að mati Neytendastofu beri að líta til þess að notkun Arnarlax á fullyrðingum sem innihalda hugtökin sjálfbær og sjálfbærni sé nokkuð víðtæk og áberandi. Notkunin væri tengd við orð- og myndmerki félagsins sem komi fram á vefsíðu félagsins, í blaðaauglýsingum og öðru markaðs- og kynningarefni.

Að því virtu var það álit Neytendastofu að notkun og framsetning þeirra fullyrðinga og orð- og myndmerkja sem um ræddi væri almenn og óljós og væri því villandi og óréttmæt gagnvart neytendum.

Neytendastofa bannaði því Arnarlaxi notkun framangreindra fullyrðinga og vörumerkja í markaðs- og kynningarefni félagsins þannig að villandi sé fyrir neytendur.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA