Fara yfir á efnisvæði

Skilmálar og upplýsingagjöf Icelandair

28.12.2023

Neytendastofu bárust ábendingar vegna skilmála Icelandair um mætingarskyldu viðskiptavina (e. no-show). Af því tilefni óskaði Neytendastofa eftir skýringum og athugasemdum Icelandair um skilmála og upplýsingagjöf félagsins. Í bréfum Neytendastofu kom fram að ósamræmi virtist vera í skilmálum um heimild farþega til að nýta síðari fluglegg ef fyrri flugleggur er ekki nýttur, ásamt því að erfitt hafi verið að finna skilmálana á vefsíðu félagsins. Þá var ekki að sjá að skilmálarnir væru aðgengilegir á íslensku.

Í svörum Icelandair kom fram að skilmálar félagsins gerðu ráð fyrir að farþegar geti nýtt sér síðari fluglegg þrátt fyrir að þeir ætli ekki að nota þann fyrri. Farþegi þurfi að tilkynna slíkt með nægjanlegum fyrirvara og, eftir atvikum, greiða fargjaldamismun. Undir rekstri málsins gerði Icelandair bæði breytingar á skilmálum sínum og framsetningu þeirra og eru þeir skilmálar sem um ræðir nú birtir á íslensku og handhægt að finna þá með einfaldri leit á vefsíðu félagsins.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir breytingu á umræddum skilmálum vanti enn upplýsingar sem almennt skipti neytendur máli.

Neytendastofa beindi því þeim fyrirmælum til Icelandair að tilgreina í flutningsskilmálum sínum með hvaða hætti farþegar skuli senda félaginu tilkynningar um að þeir hyggist ekki nýta einhvern hluta flugmiða og fyrir hvaða tímamark. Félagið skuli einnig tilgreina fjárhæð skrópgjalds eða hvernig það verði reiknað út og í hvaða tilvikum slíkt gjald sé lagt á farþega.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA