Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðingar Fitness Sport ehf. um lyfjavirkni CBD snyrtivara

19.01.2024

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um brot Fitness Sport ehf. vegna fullyrðinga félagsins um lyfjavirkni snyrtivara sem innihalda CBD og eru seldar hjá félaginu. Málið laut að fullyrðingum sem birtar voru á vefsíðu félagsins, fitnesssport.is.

Undir rekstri málsins hélt Fitness Sport því fram að félagið hafi á engan hátt fullyrt um að vara lækni sjúkleika eða hafi aðra virkni sem breyti líffærastarfsemi. Þvert á móti hafi verið tekið fram að árangur af vörunum sé einstaklingsbundinn. Þær verkanir sem komi fram á vefsíðu félagsins séu það sem viðskiptavinir hafi fundið fyrir við notkun hennar og feli þ.a.l. ekki í sér brot. Taldi félagið sig engar reglur hafa brotið. Engar frekari sönnur voru færðar á fullyrðingunum.

Taldi Neytendastofa fullyrðingarnar veita rangar upplýsingar um helstu einkenni varanna þar sem gefið væri til kynna að vörurnar hefðu lyfjavirkni. Því taldi stofnunin fullyrðingarnar líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda. Viðskiptahættir félagsins væru því til þess fallnir að valda því að hinn almenni neytandi sem fullyrðingarnar beinast að taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið. Taldi stofnunin jafnframt að félaginu hafi ekki tekist að sanna umræddar fullyrðingar.

Taldi stofnunin hæfilegt að sekta félagið um 100.000 kr. vegna brota sinna.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA