Fara yfir á efnisvæði

Merkingar auglýsinga á samfélagsmiðlum í mörgum tilvikum ófullnægjandi

15.02.2024

Neytendastofa vill vekja athygli á fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um niðurstöður samræmdrar skoðunar á færslum áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Verkefnið var unnið í samstarfi neytendayfirvalda í Evrópu og tók Neytendastofa þátt í verkefninu. Markmiðið var að sannreyna hvort áhrifavaldar merki auglýsingar eins og nauðsynlegt er samkvæmt neytendalöggjöf. Gerð var athugun á færslum 576 áhrifavalda á helstu samfélagsmiðlunum.

Skoðunin leiddi í ljós að 97% þessara áhrifavalda birtu auglýsingar en aðeins einn af hverjum fimm merkir að jafnaði auglýsingar sínar. Helstu niðurstöður skoðunarinnar voru eftirfarandi:

  • 97% birtu færslur sem innihéldu auglýsingar en aðeins 20% gáfu það reglulega til kynna
  • 38% notuðu ekki merkingar frá samfélagsmiðlinum sem eru ætlaðar til að auðkenna auglýsingar, svo sem „paid partnership“ á Instagram. Þvert á móti, þá völdu þessir áhrifavaldar mismunandi orðalag eins og „samvinna“ (e. collaboration) (16%), „samstarf“ (e. partnership) (15%) eða almennar þakkir til tiltekins vörumerkis (11%).
  • 40% af áhrifavöldunum höfðu merkinguna sýnilega meðan á auglýsingunni stóð. Hjá 34% áhrifavalda var merkingin sýnileg strax án þess að þurfa sérstaka aðgerð, s.s að smella á „Lestu meira“ eða að fletta niður
  • 40% áhrifavalda auglýstu eigin vörur, þjónustu eða vörumerki. 60% þeirra merktu auglýsingarnar sjaldan eða aldrei.
  • 44% áhrifavalda voru með sínar eigin vefsíður og meirihluti þeirra með söluvarning.
    Neytendastofa skoðaði færslur á samfélagsmiðlum 26 einstaklinga og taldi að tilefni væri til nánari skoðunar á 25 þeirra.

Næstu skref

Niðurstaða skoðunarinnar leiddi í ljós að þörf er á að rannsaka 358 áhrifavalda af þeim 576 sem voru skoðaðir. Neytendayfirvöld í hverju þátttökuríki munu nú fylgja þeim málum eftir sem undir þau heyra og geta gripið til aðgerða á grundvelli reglna viðkomandi ríkis, telji þau þörf á.

Samhliða framangreindu munu niðurstöður skoðunarinnar einnig hafa áhrif við mat framkvæmdastjórnarinnar á raunverulegum áhrifum neytendalöggjafar og hvort þörf sé á breytingum.

Bakgrunnur skoðunarinnar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins opnaði árið 2023 upplýsingamiðstöð fyrir áhrifavalda (e. Influencer Legal Hub)

Neytendalöggjöf ESB kveður á um að auglýsingar skuli vera skýrlega merktar og óheimilt er að villa um fyrir neytendum með röngum eða ósönnum upplýsingum um auglýstar vörur eða þjónustu. Öll kynning á vörum eða þjónustu á samfélagsmiðlum sem aflar áhrifavaldinum tekna eða annars konar ávinnings verður að merkja sem auglýsingu. Að auki hvíla sömu skyldur á áhrifavöldum sem selja vörur eða þjónustu og netverslunum, svo sem að veita neytendum upplýsingar um skráð heimilisfang og veita neytendum rétt til að falla frá samningi.

Í þessu sambandi má einnig benda á að Neytendastofa hefur gefið út leiðbeiningar um merkingar auglýsinga á samfélagsmiðlum en þeim er fyrst og fremst ætlað að leiðbeina þeim sem auglýsa eða útbúa auglýsingar á samfélagsmiðlum.


Lesa má fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í heild sinni hér

TIL BAKA