Eldri álit kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa
Kaup á bifreið. Neytendakaupalög. Endurupptaka á máli nr. M-135.2010.
Álitsbeiðandi keypti á árinu 2008 bifreið sem nýskráð var í ársbyrjun 2007. Í október 2010 þurfti að skipta um spíssa og túrbínu í bifreiðinni, en þá hafði innflytjandi innkallað bifreiðina til lagfæringa. Innflytjandi bifreiðarinnar, bifreiðaumboð, vissi um ári áður en þessi viðgerð var framkvæmd að galli væri í bifreiðum af sömu gerð og bifreið álitsbeiðanda að því er spíssana varðaði og reyndar fleira og ráðgerði að framkvæma lagfæringar í næstu reglubundnu þjónustuskoðun bifreiðarinnar. Álitsbeiðandi kom ekki með bifreiðina í þá skoðun og taldi seljandi að þess vegna bæri hann ekki ábyrgð á þeirri viðgerð sem framkvæmd var í október 2010 en seljandi kostaði reyndar sjálfur helming hennar. Kærunefndin áleit að þar sem vitað hefði verið um galla í bifreiðum sömu tegundar hefði seljandi átt að gera álitsbeiðanda sérstaklega viðvart um það og kalla inn bifreiðina þá þegar sem hann ekki gerði en ekki að bíða þess að álitsbeiðandi kæmi með bifreiðina í þjónustuskoðun. Álit kærunefndarinnar var því það að innflytjandinn ætti að kostað viðgerðina að fullu.
Mál nr. 172/2010
Kaup á hjólkoppum. Neytendakaupalög. Endurupptaka á máli nr. M-62.2010.
Álitsbeiðandi keypti hjólkoppa á bifreið sína. Hann kvað afgreiðslumann seljanda hafa leiðbeint sér um kaupin og sýnt sér dæmi þess hve vel slíkir hjólkoppar sætu á bifreið verslunarinnar. Seljandi kannaðist ekki við að hafa veitt þessar leiðbeiningar, álitsbeiðandi hafi valið sér hjólkoppana sjálfur en hann hafi vitað hver stærð var á felgunum sem átti að setja hjólkoppana á. Þegar hjólkopparnir höfðu verið settir á bifreið álitsbeiðanda fór svo eftir stuttan tíma að tveir þeirra losnuðu og týndust, en þeir reyndust ekki passa. Kærunefndin taldi að ekki væri í ljós leitt gegn staðhæfingum seljanda að hann hefði veitt álitsbeiðanda þær leiðbeiningar um kaupin sem hann hélt fram og hafnaði því að seljanda bæri skylda til að endurgreiða álitsbeiðanda kaupverðið.
Mál nr. 171/2010
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaupalög.
Álitsbeiðandi keypti í september 2010 11 ára gamlan jeppa af gerðinni Daewoo Musso fyrir kr. 890.000. Bifreiðinni hafði verið ekið 132.000 km. Í ljós koma að skipta þurfti um hedd í bifreiðinni og var áætlaður kostnaður við það um kr. 400.000. Við kaupin hafði því verið lýst að skipt hefði verið um heddpakkningu í mars 2009. Kærunefndin taldi að ástand bifreiðarinnar hefði verið til muna verra en álitsbeiðandi mátti ætla og féllst á þá kröfu hans að rifta mætti kaupunum.
Kaup á sjónvarpstæki. Neytendakaupalög.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp með LCD skermi í janúar 2008 og var það metið ónýtt 8. nóvember 2010. Kærunefndin áleit að kvörtunarfrestur vegna sjónvarpstækis eins og álitsbeiðandi keypti væri fimm ár og seljanda væri skylt að láta álitsbeiðandi í té nýtt sams konar sjónvarpstæki eins og hún krafðist.
Mál nr. 169/2010
Hreinsun á frakka. Þjónustukaupalög.
Álitsbeiðandi lét hreinsa frakka og kom í ljós að við hreinsunina höfðu myndast kúlur sem festust við yfirborðsefni frakkans innanvert. Á frakkanum voru leiðbeiningar um það hvernig hreinsun hans skyldi hagað og sagðist sá sem hreinsaði hafa farið eftir þeim leiðbeiningum. Að mati sérfróðs aðila sem kærunefndin leitaði til taldi hann þessar kúlur hafa myndast af fóðurefni í frakkanum þegar hann hefði verið hreinsaður þrátt fyrir að farið hefði verið eftir leiðbeiningum framleiðanda um hreinsunina. Aldur frakkans gæti og skipt máli í því sambandi en álitsbeiðandi sagði frakkann 4-5 ára gamlan. Kærunefndin taldi að álitsbeiðandi ætti ekki úrbótarétt á hendur efnalauginni.
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaupalög.
Álitsbeiðandi keypti í desember 2010 9 ára gamla bifreið sem ekið hafði verið 183.000 km. Eftir kaupin kom í ljós að skipta þurfti um svokallaðan sveifarásskynjara í bifreiðinni og einnig var skipt um rafgeymi. Álitsbeiðandi gerði kröfu um að kaupunum á bifreiðinni yrði rift vegna þessa. Kærunefndin taldi að þrátt fyrir þessar viðgerðir hefði bifreiðin ekki verið í mun verra ástandi en álitsbeiðandi hefði mátt ætla við kaupin, sbr. 19. gr. lausafjárkaupalaga, og því ætti hann ekki úrbótarétt á hendur seljanda.
Kaup á fartölvu. Neytendakaupalög.
Álitsbeiðandi keypti fartölvu um mitt ár 2009. Í október 2010 kom í ljós að rafhlaða tölvunnar var því næst ónýt. Seljandi hélt því fram við álitsbeiðanda að ábyrgð hans á rafhlöðunni væri aðeins eitt ár og hafði þó selt álitsbeiðanda ábyrgðartryggingu á tölvunni til þriggja ára á verði sem nam um 20% af kaupverði tölvunnar. Kærunefndin taldi að samkvæmt neytendakaupalögum væri seljanda skylt að leggja álitsbeiðanda til nýja rafhlöðu í tölvuna.
Mál nr. 165/2010
Kostnaður við gerð tollskýrslu. Frávísun.
Álitsbeiðandi kvartaði undan því að hann hefði verið látinn greiða gjald fyrir útfyllingu tollskýrslu sem hann hefði ekki beðið um, en sjálfur hefði hann getað útfyllt tollskýrsluna. Kærunefndin taldi að ekki félli undir valdsvið hennar að gefa álit á þessum ágreiningi og vísaði málinu frá sér.
Mál nr. 162/2010
Kaup á ryksugu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ryksugu sem bilaði og greindi hann og seljanda á um það af hverju bilunin stafaði. Seljanda féllst hins vegar á að láta álitsbeiðanda nýja ryksugu í té, en tók áður úr pakkningum um hana slöngu og fleiri lausa hluti sem í þeim voru. Ætlaðist hann til þess að álitsbeiðandi notaði þá lausu hluti sem fyrri ryksugunni hefðu fylgt. Óumdeilt var að álitsbeiðandi gat ekki fest gamla ryksuguskaftið við nýju ryksuguna og látið það standa áfast henni. Kærunefndin áleit að þar sem álitsbeiðandi hefði í verki veitt álitsbeiðanda úrbætur ætti hann að framkvæma þær að fullu og afhenda álitsbeiðanda þá hluti sem fylgja hefðu átt nýju ryksugunni.
Mál nr. 160/2010
Kaup á ferðaútvarpstæki. Neytendakaupalög.
Álitsbeiðandi keypti ferðaútvarpstæki sem var með eins konar gúmmíhúð. Eftir u.þ.b. árs notkun varð gúmmíhúðin klísturkennd og sagði seljandi að það stafaði af því að álitsbeiðandi hefði ekki fylgt leiðbeiningum með tækinu þar sem tekið væri fram að það mætti ekki vera lengi í sterku sólskini eða nálægt miklum hita. Kærunefndin taldi að ekki væri hægt að byggja á því að tækið hefði verið gallað við afhendingu þess og að ekki væri í ljós leitt að um galla væri að ræða sem seljanda bæri skylda til að bæta úr.
Kaup á sjónvarpstæki. Neytendakaupalög.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp með plasmaskjá í janúar 2008 en snemma vors 2010 sagði hann hafa komið rönd á sjónvarpsskjáinn af og til og að lokum hefði hún verið stöðugt á skjánum. Í álitsbeiðni kom fram að seljandi hefði neitaði að veita álitsbeiðanda úrbætur á þeirri forsendu að galli hefði komið fram eftir að 2 ára kvörtunarfrestur vegna galla á tækinu hefði verið liðinn. Seljandi notfærði sér hins vegar ekki rétt sinn til þess að veita andsvör við álitsbeiðninni. Kærunefndin áleit að kvörtunarfrestur vegna sjónvarpstækis eins og álitsbeiðandi keypti væri fimm ár og seljanda væri skylt að gera við tækið eða láta álitsbeiðandi í té nýtt sams konar sjónvarpstæki.
Mál nr. 158/2010
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaupalög.
Álitsbeiðandi keypti í apríl 2010 bifreið, árgerð 2006, ekna 58.000 km. Bifreiðin var flutt inn af einstaklingi en ekki innflytjanda bifreiða sömu tegundar hér á landi. Bifreiðin bilaði eftir tiltölulega skamma notkun álitsbeiðanda og gerði hún kröfu til þess að seljandi greiddi 70% af viðgerðarkostnaði sem hún sagði að bifreiðaumboðið hefði greitt hefði það flutt bifreiðina inn. Kærunefndin tók kröfu álitsbeiðanda til greina að hluta til.
Mál nr. 157/2010
Viðgerð á bifreið. Neytendakaupalög.
Ryðskemmdir komu fram á öllum hurðum á bifreið álitsbeiðanda og lét bifreiðaumboðið gera við þær í mars 2008 á sinn kostnað. Ryðskemmdir á sömu stöðum komu fram að nýju í sumarbyrjun 2009. Kærunefndin áleit að viðgerðin hefði misheppnast vegna þess að hún hefði ekki verið nægilega vel unnin og umboðinu bæri skylda til þess að láta gera við ryðskemmdirnar á nýjan leik.
Kaup á sturtuklefa og blöndunartækjum. Neytendakaupalög.
Álitsbeiðandi keypti sturtuklefa og blöndunartæki í ársbyrjun 2010. Blöndunartækin reyndust gölluð og lagði seljandi henni til ný tæki. Í nóvember s.á. biluðu nýju blöndunartækin, þ.e. í þeim brotnaði ákveðið stykki. Seljandi taldi að ástæðan væri sú að óhreinindi hefðu verið í vatninu. Pípulagningameistari skoðaði tækin og varð af skýrslu hans dregin sú ályktun að stykkið hefði ekki brotnað vegna óhreininda í vatninu heldur hefði það verið gallað. Kærunefndin áleit að seljandi ætti að láta álitsbeiðanda varahlutinn í blöndunartækin í té á sinn kostnað og einnig að kosta ísetningu hans. Eins taldi kærunefndin að miðað við það að seljandi hefði haldið því fram að bilun í tækjunum stafaði af óhreinindum í vatni bæri honum að greiða kostnað álitsbeiðanda vegna skoðunar á tækjunum sem leiddi annað í ljós.
Mál nr. 153/2010
Kaup á tannlæknatækjum. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti tannlæknatæki á árinu 2004 en til stóð hjá honum að koma tannlæknastofu á fót. Með í þessum kaupum var forritið sem nefndist Tannlæknaþjónninn og átti að setja upp jafnhliða tækjunum. Svo fór að álitsbeiðandi hætti við áform sín um að opna tannlæknastofu og fluttist af landi brott. Á árinu 2010 krafðist álitsbeiðandi endurgreiðslu á kaupverði tannlæknaforritsins. Kærunefndin taldi að sú krafa væri of seint komin fram og hafnaði henni.
Mál nr. 152/2010
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið og var auglýst að henni fylgdu vetrardekk á álfelgum. Álitsbeiðandi óskaði eftir því að vetrardekk yrðu sett undir bifreiðina. Seljandi varð við því að setja dekkin undir og setti þau á felgurnar sem undir bifreiðinni voru en ekki álfelgurnar sem áttu að fylgja bifreiðinni. Seljandi neitaði síðan nokkru seinna að afhenda álitsbeiðanda álfelgurnar en kærunefndin áleit að það væri honum skylt eða greiða honum bætur að öðrum kosti.
Mál nr. 151/2010
Kaup á ryksugu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti pokalausa ryksugu og varð mótorinn í henni ónýtur eftir tiltölulega skamma notkun. Ryksugan var skoðuð á viðgerðarverkstæði og var niðurstaða þeirrar skoðunar sú að mótorinn hefði eyðilagst vegna þess að ryksugan hefði verið notuð til þess að ryksuga steinryk sem hún væri ekki ætluð til. Kærunefndin féllst á þessa röksemd og hafnaði kröfu álitsbeiðanda um að hann fengi nýja ryksugu í staðinn fyrir þá sem hann keypti.
Mál nr. 149/2010
Kaup á sjónvarpstæki. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarpstæki í mars árið 2008. Tækið bilað seinni part árs 2010 og var dæmt ónýtt. Kærunefndin áleit að seljanda væri skylt að láta álitsbeiðanda fá sams konar eða sambærilegt sjónvarpstæki í stað þess sem hún hafði keypt án þess að álitsbeiðandi greiddi hluta kaupverðsins. Verð á tæki því sem álitsbeiðandi keypti á sínum tíma var svipað verð var á sams konar tæki var á þeim tíma er málið var afgreitt.
Mál nr. 148/2010
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti á árinu 2010 notaða jeppabifreið árgerð 1999. Álitsbeiðandi sagði að ýmsir gallar hefðu komið í ljós á bifreiðinni en úr þeim hefði seljandi bætt að öðru leyti en því að skipta um bensíntank. Kærunefndin taldi að seljanda bæri að kosta að hluta skipti á bensíntanknum.
Mál nr. 147/2010
Kaup á nýrri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið í apríl 2006. Skipta þurfti um svinghjól í bifreiðinni í nóvember 2010. Kærunefndin áleit að um galla væri að ræða á bifreiðinni sem álitsbeiðandi hefði kvartað undan í tæka tíð og því bæri innflytjanda bifreiðarinnar að kosta viðgerð á honum.
Mál nr. 146/2010
Kaup á þurrkara. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þurrkara á árinu 2006. Heili þurrkarans bilaði á árinu 2010. Kærunefndin taldi að um galla á þurrkaranum væri að ræða sem álitsbeiðandi hefði kvartað undan í tæka tíð. Seljandi ætti því að kosta viðgerð á þurrkaranum.
Mál nr. 145/2010
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup. Frávísun.
Álitsbeiðandi bað um álit kærunefndarinnar vegna kaupa á notaðri bifreið. Kærunefndin bað álitsbeiðanda um ákveðin gögn um kaupin og gaf álitsbeiðanda ákveðinn frest til að skila þeim. Engin gögn bárust nefndinni innan frestsins og vísaði hún málinu frá.
Mál nr. 144/2010
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti á árinu 2010 notaða jeppabifreið árgerð 1998. Um fjórum mánuðum eftir kaupin taldi álitsbeiðandi að ýmsir gallar hefðu komið í ljós á bifreiðinni sem seljanda bæri að bæta úr. Kærunefndin taldi að seljanda bæri að kosta að hluta skipti á heddi bifreiðarinnar en ekki viðgerð á öðrum göllum sem álitsbeiðandi taldi bifreiðina haldna.
Mál nr. 143/2010
Kaup á fatnaði. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi taldi að hún hefði verið láta greiða meira fyrir kaup á fatnaði heldur en auglýst verð hafi sagt til um. Seljandi samþykkti að endurgreiða álitsbeiðanda það sem hann krafðist, kr. 3.990, og felldi kærunefndin því málið niður.
Mál nr. 142/2010
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti níu ára gamlan jeppa af einstaklingi. Hann varð var við smit frá mótorolíu í bifreiðinni við kaupin sem seljandi taldi að stafaði af skiptum á olíusíu. Í ljós kom að svo var ekki heldur var það af öðrum ástæðum. Kærunefndin taldi að álitsbeiðandi ætti rétt á afslætti af kaupverði bifreiðarinnar vegna lekans, en ekki jafnmiklum og kostnaði við viðgerð nam. Þá áleit kærunefndin að álitsbeiðandi ætti ekki rétt á afslætti vegna bilunar sem kom fram nær fjórum mánuðum eftir að kaupin fóru fram.
Mál nr. 141/2010
Kaup á hrærivél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja hrærivél á árinu 2007. Við ákveðna notkun bilaði hrærivélin á árinu 2010 og þarfnaðist viðgerðar sem sýndist vera minni háttar. Kærunefndin áleit að bilunin stafaði af því hvernig álitsbeiðandi hefði notað hrærivélina og hafnaði kröfum hennar um að seljandi greiddi viðgerðina eða legði henni til nýja hrærivél.
Mál nr. 140/2010
Viðgerð á fartölvu. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi fór með nýlegan fartölvu sína til þess að láta hreinsa hana af vírus sem hann taldi vera í henni. Svo reyndist ekki vera og skipti viðgerðaraðilinn um móðurborð í tölvunni sem var bilað án þess að hafa samband við álitsbeiðanda. Tölva álitsbeiðanda var enn í ábyrgð seljanda og skipti seljandinn síðar um móðurborð í henni. Álitsbeiðandi krafði viðgerðaraðilann um endurgreiðslu á reikningi sem hann hafði greitt fyrir bilanagreiningu og skipti á móðurborði. Kærunefndin áleit að viðgerðaraðilinn ætti rétt á að fá greitt sem svaraði kostnaði við bilanagreiningu en annan hluta reikningsins ætti hann að endurgreiða álitsbeiðanda.
Mál nr. 139/2010
Kaup á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti bifreið sumarið 2007 sem var nýskráð í júlí 2005. Í apríl 2010 bilaði sjálfskiptingin. Kærunefndin áleit að um galla væri að ræða á bifreiðinni sem álitsbeiðandi hefði kvartað undan í tæka tíð og því bæri innflytjanda bifreiðarinnar að kosta viðgerð á honum.
Mál nr. 138/2010
Kaup á þvottavél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þvottavél síðla árs 2007 fyrir kr. 44.995. Vélin entist í u.þ.b. þrjú ár en bilaði þá og var talið að ekki svaraði kostnaði að gera við hana. Seljandi bauðst til að leggja álitsbeiðanda til nýja sams konar þvottavél fyrir kr. 99.995. Upphaflegt kaupverð yrði dregið frá og seljandi greiddi kr. 55.000. Á það féllst álitsbeiðandi ekki. Seljandi sagði raunverð þvottavélarinnar vera kr. 129.995. Meirihluti nefndarinnar féllst á það að ósanngjarnt væri að seljandi bæri einn alla verðhækkunina, sem væntanlega stafaði að mestu leyti af falli krónunnar, og taldi að álitsbeiðandi ætti að greiða hluta þess sem seljandi hafði krafist. Minni hlutinn taldi hins vegar að lög stæðu ekki til þess að álitsbeiðandi ætti að greiða að hluta verð nýrrar þvottavélar heldur bæri seljanda að leggja honum til nýja þvottavél án nokkurrar greiðslu.
Mál nr. 136/2010
Viðgerð á utanborðsmótor. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi óskaði eftir viðgerð á utanborðsmótor vegna þess að illa gengi að koma honum í gang og eins gæfi hann frá sér píp. Var þá mótorinn þá orðinn 7 ára gamall. Viðgerðaraðili, sem selt hafði álitsbeiðanda mótorinn, yfirfór hann og álitsbeiðandi tók við honum úr viðgerðinni. Álitsbeiðandi sagði að mótorinn hefði gengið mun betur eftir yfirferðina en ekki hætt að pípa. Skömmu síðar kviknaði í rafleiðslum frá hleðslustýringu mótorsins. Viðgerðaraðili gerði við mótorinn eftir brunann. Álitsbeiðandi krafðist þess að seljandi legði sér til nýjan mótor. Kærunefndin taldi að ekki væri hægt að byggja á því að tengsl væru á milli þess að mótorinn gaf frá sér píp eftir viðgerðina og þess að eldur kviknaði í rafleiðslum til hans. Ekki væri leitt í ljós að það óhapp stafaði af því að fyrri viðgerðinni eða yfirferðinni hefði verið ábótavant og hafnaði kærunefndin kröfum álitsbeiðanda.
Mál nr. 135/2010
Kaup á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti á árinu 2008 bifreið sem nýskráð var í ársbyrjun 2007. Í október 2010 þurfti að skipta um spíssa og túrbínu í bifreiðinni. Kærunefndin áleit að um galla væri að ræða sem álitsbeiðandi hefði kvartað undan í tæka tíð og því bæri innflytjanda bifreiðarinnar að kosta viðgerð á þeim.
Mál nr. 134/2010
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti um 6 ára gamlan jeppa. Nokkrum dögum eftir kaupin vaknaði grunur um að ekki væri allt með felldu með ganginn í bifreiðinni og í ljós kom að skipta þyrfti um spíssa í mótor hennar. Kærunefndin taldi að á því mætti byggja að þessi galli hefði verið í bifreiðinni þegar kaupin fóru fram þótt seljanda kynni að hafa verið hann ókunnur. Kærunefndin áleit að seljandi ætti að greiða álitsbeiðanda skaðabætur sem námu u.þ.b. helmingi af áætluðum kostnaði við að skipta um spíssana.
Mál nr. 131/2010
Kaup á þjónustu símafyrirtækis. Frávísun.
Álitsbeiðandi sagði að fyrir misgáning hefðu þjónustugjöld símafyrirtækis verið greidd án þess að það hefði veitt nokkra þjónustu. Kærunefndin áleit að ágreiningurinn félli ekki undir þau lög sem valdsvið hennar næði til, sbr. lög nr. 87/2006, og vísaði málinu frá.
Mál nr. 129/2010
Kaup á farsíma. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýjan farsíma í júnílok 2010. Eftir tveggja mánaða notkun bilaði síminn og seljandi sagði bilunina stafa af því að raki hefði komist í símann og ekki væri hægt að gera við hann. Kærunefndin taldi að seljandi hefði leitt sönnur að því að bilunin stafaði af rakaskemmdum og hafnaði kröfu álitsbeiðanda um úrbætur af hálfu seljanda
Mál nr. 127/2010
Endurbygging sumarbústaðar. Þjónustukaup. Frávísun.
Álitsbeiðandi fékk verktaka til að endurbyggja sumarbústað sinn. Ýmiss konar ágreiningur reis með aðilum. Kærunefndin taldi að ágreiningurinn væri þess eðlis að ekki væri hægt að gefa viðunandi álit á honum nema með því að yfirheyra þá sem að verkinu hefðu komið. Til þess hefði hún ekki heimild að lögum og vísaði nefndin því málinu frá sér m.a. af þeim ástæðum.
Mál nr. 125/2010
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi fór með bifreið sína á verkstæði vegna þess að hún skilaði ekki fullu afli. Langan tíma tók að greina bilunina sem reyndist vera smávægileg en varð ekki lesin á stjórntölvu bifreiðarinnar. Því varð að leita hennar með útilokunaraðferð. Seljandi þjónustunnar sagði 31 vinnustund hafa farið í leitina en krafði álitsbeiðanda um greiðslu fyrir 13 vinnustundir. Álitsbeiðandi vildi hins vegar ekkert greiða. Kærunefndin áleit að reikningur seljanda væri ekki ósanngjarn og hafnaði kröfu álitsbeiðanda.
Mál nr. 123/2010
Greiðslukort. Frávísun.
Álitsbeiðandi að tók boði kreditkortafyrirtækis um að koma í viðskipti hjá því. Fyrir fyrsta árið var ekki tekið gjald fyrir kreditkortið, en þar sem álitsbeiðandi sagði viðskiptunum ekki formlega upp var tekið gjald fyrir næsta ár. Álitsbeiðandi kvaðst aldrei hafa ætlað að vera í viðskiptunum í lengri tíma en eitt ár og krafðist endurgreiðslu á árgjaldinu. Kærunefndin áleit að ágreiningurinn félli ekki undir þau lög sem valdsvið hennar næði til, sbr. lög nr. 87/2006, og vísaði málinu frá.
Mál nr. 122/2010
Kaup á sturtubotni og –klefa. Neytendakaupalög.
Álitsbeiðandi keypti sturtubotn og sturtuklefa og lét setja upp í baðherbergi í íbúð sinni.
Nokkru síðar tók sturtubotninn að leka og olli sá leki skemmdum á íbúð fyrir neðan íbúð álitsbeiðanda. Fagmaður skoðaði botninn og niðurstaða hans var sú að í honum væri sá galli að yfirborð hans hefði slitið sig frá trefjaplaststeypu sem botninn var gerður úr sem aðferð við uppsetningu botnsins yrði ekki kennt um. Yfirborðið hefði sprungið og af því stafaði lekinn. Kærunefndin taldi að leitt hefði verið í ljós með þessum hætti að galli væri á sturtubotninum og féllst á þá kröfu álitsbeiðanda að kaupin gengju til baka og hún fengi kaupverðið endurgreitt.
Mál nr. 121/2010
Kaup á tryggingu. Frávísun.
Álitsbeiðandi sagði að tryggingafélag hefði lofað sér ákveðinni tryggingu en síðar hefði komið í ljós að hann hefði ekki verið skráður tryggingartaki. Kærunefndin áleit að ágreiningurinn félli ekki undir þau lög sem valdsvið hennar næði til, sbr. lög nr. 87/2006, og vísaði málinu frá.
Mál nr. 119/2010
Kaup bifreið. Neytendakaup
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið í byrjun janúar 2008. Eftir rúmlega tveggja ára notkun bilaði nemi í pústkerfinu og þurfti að skipta um hann. Seljandi greiddi varahlutinn en álitsbeiðandi vinnukostnað en gerði kröfu til þess að seljandi endurgreiddi hann. Kærunefndi áleit að um þennan íhlut bifreiðarinnar gilti tveggja ára kvörtunarfrestur samkvæmt neytendakaupalögunum. Kvörtunin hefði því komið of seint fram og hafnaði nefndin kröfu álitsbeiðanda.
Mál nr. 118/2010
Kaup á þurrkara. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þurrkara af þekktri tegund í ágúst 2006. Eftir tæplega fjögurra ára notkun bilaði stýring í þurrkaranum og þurfti að skipta um hann. Kærunefndin áleit að 5 ára kvörtunarfrestur ætti við um söluhlutinn og ætti seljandi að gera við hann álitsbeiðanda að kostnaðarlausu.
Mál nr. 113/2010
Flísalagnir. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi réði verktaka til þess að leggja flísar í íbúð sinni. Eftir nokkurn tíma kom fram galli á flísalögninni sem verktakinn ætlaði að laga en kom ekki í verk. Kærunefndin áleit að það bæri honum að gera álitbeiðanda að kostnaðarlausu.
Mál nr. 110/2010
Framkvæmdir í íbúð í fjölbýlishúsi. Þjónustukaup.
Húsfélag samdi við verktaka og eftirlitsaðila um viðgerðir á fjölbýlishúsi og endurbætur í einstökum íbúðum en þær endurbætur kostuðu íbúðareigendur sjálfir. Álitsbeiðandi var ekki sáttur við þær endurbætur sem gerðar voru í íbúð hans og var því ráðist í lagfæringar á þeim sem húsfélagið samdi við um verktakann. Álitsbeiðandi gerði þá kröfu í málinu á hendur verktakanum að síðari endurbæturnar yrðu fjarlægðar og nýjar yrðu gerðar. Kærunefndin áleit að ekki væri réttarsamband á milli verktakans og álitsbeiðanda, heldur húsfélagsins og verktakans þar sem verktakinn hafi farið eftir því sem húsfélagið hafði lagt fyrir hann að gera og ekki gert athugasemdir við þá framkvæmd. Kærunefndin hafnaði því að álitsbeiðandi ætti beina kröfu á verktakann.
Mál nr. 108/2010
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja fartölvu. Eftir nokkurn tíma brotnaði önnur lömin á loki fartölvunnar án þess að ástæðan væri sýnileg. Kærunefndin taldi samkvæmt því sem fram kom í málinu að svo miklar líkur væru á því að bilunin stafaði af framleiðslugalla að seljanda bæri að gera við tölvuna álitsbeiðanda að kostnaðarlausu.
Mál nr. 107/2010
Kaup á notaðri bifreið á netuppboði. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið á netuppboði. Hann reynsluók bifreiðinni á plani starfsstöðvar seljanda og varð þá ekki var við að neitt væri að sjálfskiptingu hennar. Það hefði hins vegar komið í ljós við venjulega notkun bifreiðarinnar að sjálfskiptingin hefði verið ónýt. Hann hefði því þurft að láta skipta um sjálfskiptinguna og krafðist þess að seljandi greiddi þann kostnað sem því hefði fylgt. Kærunefndin áleit að verið gæti að þessi viðskipti féllu undir lög nr. 28/1998 um verslunaratvinnu en tók ekki afstöðu til þess þar sem hún áleit það utan valdsviðs síns. Hins vegar taldi kærunefndin að álitsbeiðandi ætti rétt á því að fá álit nefndarinnar um það hvort seljanda hefði borið að greiða honum bætur hefðu kaupin farið fram með venjubundnum hætti. Álit kærunefndin var að svo væri þótt hún tæki ekki kröfu álitsbeiðanda til greina að fullu.
Mál nr. 106/2010
Kaup á notaðri bifreið. Frávísun.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið sem hún taldi gallaða. Álitsbeiðni fylgdu engin gögn. Kærunefndin óskaði eftir gögnum um kaup og viðgerð á bifreiðinni og veitti ákveðinn frest til að skila þeim. Engin gögn bárust og vísaði því nefndin beiðninni frá.
Mál nr. 105/2010
Kaup á þurrkara. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þurrkara í september 2008. Hún taldi að þurrkarinn hefði frá upphafi ekki þurrkað eins og til var ætlast. Þurrkarinn fór í viðgerð hjá seljanda í apríl 2010 og var við hann gert að sögn hans og væri þurrkarinn í fullkomnu lagi. Álitsbeiðandi vildi fá þurrkarann endurgreiddan og en ekki taka við honum úr viðgerðinni. Kærunefndin taldi að ekki lægju fyrir upplýsingar um að seljandi hefði ekki bætt úr galla á þurrkaranum að fullu og meðan svo stæði yrði að hafna kröfu álitsbeiðanda.
Mál nr. 104/2010
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti 28. júlí 2009 notaða bifreið af bílasölu en hún var nýskráð 6. september 2006. Rafall bifreiðarinnar bilaði í júlí 2010 og hafði bifreiðinni þá verið ekið 53.000 km. Kærunefndin áleit að ekki hefði verið leitt í ljós að rafallinn hefði verið gallaður við kaupin eða frá upphafi og hafnaði kröfu álitsbeiðanda um að seljandi kostaði skipti á honum
Mál nr. 103/2010
Leiga fyrir tjaldstæði. Frávísun.
Álitsbeiðandi taldi að hann hefði verið krafinn um of hátt leigugjald fyrir tjaldstæði. Kærunefndin áleit að ágreiningurinn félli ekki undir þau lög sem valdsvið hennar næði til, sbr. lög nr. 87/2006, og vísaði málinu frá.
Mál nr. 102/2010
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti lítið notaða bifreið af bifreiðaumboði í maí 2007 sem var nýskráð 29. maí 2006. Í mars 2010 eyðilagðist ballansás í vél bifreiðarinnar og þurfti að kosta miklu til viðgerðar á vélinni. Í ljós var leitt með bifreiðina hafði verið farið í reglubundna þjónustu og ekki varð séð að álitsbeiðanda væri um að kenna hvernig fór. Kærunefndin áleit því að um galla á bifreiðinni væri að ræða í skilningi neytendakaupalaga, álitbeiðandi hefði kvartað undan honum í samræmi við ákvæði 27. gr. neytendakaupalaga og því bæri seljanda að kosta viðgerð á bifreiðinni.
Mál nr. 100/2010
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti rúmlega 7 ára bifreið sem ekið hafði verið 110.000 km. Skipt hafði verið um tímareim einhvern tíma á árinu 2007 en þá hafði bifreiðinni verið ekið 101.000 km. Þegar álitsbeiðandi hafði átt bifreiðina í um 7 mánuði og ekið henni um 12.000 km slitnaði tímareimin. Vél bifreiðarinnar skemmdist mikið. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi hefði mátt gera ráð fyrir að tímareimin entist lengur en raun varð á og ástand bifreiðarinnar hefði því verið verra við kaupin en hann hefði mátt búast við. Niðurstaða nefndarinnar var því sú að seljandi ætti að taka þátt í kostnaði við viðgerð vélarinnar en bæri ekki að kosta hana að fullu.
Mál nr. 99/2010
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi bað um viðgerð á bifreið sinni en kúplingin var í ólagi. Aðilum bar ekki saman um hvað hefði verið rætt um viðgerðarkostnað og virtist einhver misskilningur hafa orðið á milli þeirra þar um. Í ljós kom að til viðbótar þurfti að gera við gírskiptingu í bifreiðinni. Kærunefndin áleit að samkvæmt neytendakaupalögum hefði seljandi þjónustunnar átt að greina bilunina sem best strax í upphafi og gera álitsbeiðanda síðan grein fyrir væntanlegum kostnaði við viðgerð. Kærunefndin taldi þó að ekki væru efni til þess að álitsbeiðanda fengi afslátt af viðgerðarkostnaðinum en reikningar fyrir honum sýndust vera sanngjarnir.
Mál nr. 98/2010
Kaup á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið á árinu 2006. Bifreiðin var um fjögurra ára og hafði verið ekið 58.000 km þegar vél hennar varð nánast ónýt. Því var nauðsynlegt að endurbyggja hana með ærnum kostnaði. Eftirliti með bifreiðinni og smurþjónustu var í engu ábótavant og ekki var í ljós leitt að álitsbeiðanda væri um að kenna hvernig fór. Kærunefndin áleit því að um galla á bifreiðinni væri að ræða í skilningi neytendakaupalaga, álitbeiðandi hefði kvartað undan honum í samræmi við ákvæði 27. gr. laganna og því bæri seljanda að kosta viðgerð á bifreiðinni.
Mál nr. 97/2010
Kaup á hvolpum. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti hvolp af hundræktarbúi sem drapst. Hún fékk annan hvolp í staðinn sem drapst líka. Kærunefndin áleit að með afhendingu síðari hvolpsins hefði viðskiptum vegna fyrri hvolpsins lokið og ætti álitsbeiðandi ekki kröfur á hendur seljanda vegna hans. Að því er síðari hvolpinn varðaði væri ósannað að hann hefði verið smitaður af þeim sjúkdómi sem leiddi hann til dauða þegar hann var afhentur og var kröfum álitsbeiðanda hafnað.
Mál nr. 96/2010
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi bað um viðgerð á bilunum í bifreið sinni sem ekki voru stórvægilegar. Hann sagði að sér hefði verið tjáð á viðgerðarverkstæðinu hvað viðgerðin myndi kosta en hún hefði orðið mun dýrari. Ekki var samið sérstaklega um verðið. Seljandi taldi hugsanlegt að það verð á viðgerðinni hefði verið nefnt við álitsbeiðanda en viðgerðin hefði reynst umfangsmeiri og tímafrekari en í upphafi hefði verið gert ráð fyrir. Kærunefndin áleit að samkvæmt neytendakaupalögum hefði seljandi þjónustunnar átt að greina bilunina sem best strax í upphafi og gera álitsbeiðanda síðan grein fyrir væntanlegum kostnaði við viðgerð. Þó væri ekki hægt að ætlast til þess að hægt væri áætla viðgerðarkostnað svo nákvæmlega að engu gæti skeikað. Kærunefndin féllst á að í þessu tilviki ætti álitsbeiðandi rétt á nokkrum afslætti af viðgerðarkostnaðinum en þó ekki jafn miklum og hann krafðist.
Mál nr. 93/2010
Kaup á bifreið til leigubílaaksturs. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti bifreið til leigubílaaksturs 9. nóvember 2007. Um kaupin fór eftir lausafjárkaupalögum. Í bifreiðinni er svokallaður „quickshift6“ gírkassi og því hægt að aka bifreiðinni ýmist á beinskiptingu eða sjálfskiptingu. Álitsbeiðandi hafði kvartað yfir ýmis konar göllum á bifreiðinni. Skipta þurfti um svokallaða róbóta í gírskiptingunni og var það gert 2. júlí 2010. Álitsbeiðandi krafðist þess að seljandi kostaði þá viðgerð ásamt kostnaði við að yfirfara róbótana nokkru seinna. Kærunefndin taldi að ekki hefði verið leitt í ljós að neitt hefði verið að róbótunum þar til skipta þurfti um þá og því hefðu kvartanir álitsbeiðanda ekki getað náð til þeirra. Kvörtun álitsbeiðanda væri því of seint fram komin og var kröfum hans hafnað.
Mál nr. 92/2010
Kaup á nuddpotti. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýjan rafmagnsnuddpott. Hann fékk ekki rétt lok á pottinn afhent og gat seljandi ekki bætt úr því. Ein tenging í pottinum bilaði fljótlega sem seljandi lagfærði. Önnur tenging bilaði í framhaldi af því sem gerði það að verkum að potturinn varð ónothæfur. Seljandi gat ekki lagt álitsbeiðanda til nýja tengingu eða lagfært þá sem hafði bilað. Kærunefndin taldi að um verulega galla væri að ræða á pottinum og féllst á riftunarkröfu álitsbeiðanda.
Mál nr. 91/2010
Galli á bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti 7 ára gamla bifreið ekna 113.000 fyrir kr. 670.000. Hann reynsluók bifreiðinni fyrir kaupin. Eftir kaupin sagði hann ýmsa galla hafa komið í ljós sem hann hefði ekki séð fyrir kaupin og krafðist afsláttar af kaupverði bifreiðarinnar. Kærunefndin taldi að hluta gallanna hefði hann vitað um þegar kaupin voru gerð eða átt að koma auga á við venjulega skoðun en aðra ekki. Kærunefndin féllst á að álitsbeiðanda ætti rétt á afslætti vegna þeirra galla sem ekki var hægt að ætlast til að hann kæmi auga á við venjulega skoðun kaupanda en ekki fyrir hina sem hann vitað um eða átt að sjá.
Mál nr. 90/2010
Kaup á sjónvarpi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp sem entist í tvö og hálft ár en bilaði þá og var talið að ekki svaraði kostnaði að gera við tækið. Seljandi bauðst til að leggja álitsbeiðanda til nýtt sams konar tæki og hann hafði keypt í lok árs 2007 fyrir kr. 74.995 en verðið hafði hækkað í kr. 139.995. Seljandi vildi að álitsbeiðandi tæki þátt í þeim kostnaði með því að greiða kr. 25.000. Meirihluti nefndarinnar féllst á það að ósanngjarnt væri að seljandi bæri einn alla verðhækkunina, sem væntanlega stafaði að mestu leyti af falli krónunnar, og taldi að álitsbeiðandi ætti að greiða hluta þess sem seljandi hafði krafist. Minni hlutinn taldi hins vegar að lög stæðu ekki til þess að álitsbeiðandi ætti að greiða að hluta verð nýs sjónvarps heldur bæri seljanda að leggja álitsbeiðanda það til honum að kostnaðarlausu.
Mál nr. 89/2010
Kaup notuðum innréttingum í bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notuð leðursæti og klæðningar í jeppabifreið sína. Hann taldi að með í kaupunum hefði fylgt að seljandi aðstoðaði sig við að koma sætunum og innréttingunum endanlega fyrir í bifreið sinni. Þá taldi hann að einn rúðuupphalara vantaði og ólag væri á rafmagnstengingum fyrir hita í sætum. Krafðist hann afsláttar af kaupverðinu sem kærunefndin féllst á að hluta.
Mál nr. 88/2010
Skipti á miðstöðvarofni. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi réði fyrirtæki til þess að skipta um ofn í íbúð sinni. Hún taldi að vinna og akstur vegna verksins væri ofreiknaður auk þess sem verktakinn ætti ekki rétt á að fá greiddan virðisaukaskatt af því efni sem hann lagði til. Álitsbeiðandi krafðist þess að fyrirtækið lækkaði reikninginn. Kærunefndin féllst á þá kröfu að hluta til.
Mál nr. 87/2010
Kaup á sturtuklefa. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sturtuklefa og lét setja upp á eigin vegum. Hann taldi sturtuklefann gallaðan og gerði kröfu til þess að seljandi bætti úr gallanum. Kærunefndin áleit að það sem álitsbeiðandi taldi vera að klefanum stafaði af því hvernig staðið hefði verið að uppsetningu hans og hafnaði kröfum álitsbeiðanda.
Mál nr. 85/2010
Kaup á sófa. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sófa í september 2008. Sagði hann þann sófa hafa verið gallaðan og seljandi því látið sig fá nýjan sófa í staðinn 29. september 2009. Sá sófi væri einnig gallaður.
Gerði álitsbeiðandi kröfu um að fá nýjan sófa. Kærunefndin taldi að gallinn væri ekki þess eðlis að álitsbeiðandi ætti rétt á því heldur á afslætti af kaupverðinu.
Kostnaður við heimsendingu lyfja. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi var í viðskiptum við lyfjaverslun og fékk lyf send heim til sín sér að kostnaðarlausu um skeið. Síðar tók lyfjaverslunin ákveðið gjald fyrir hverja heimsendingu sem greitt var af banka álitsbeiðanda eins og lyfin. Álitsbeiðandi kvaðst ekki hafa verið látinn vita um að gjald yrði tekið fyrir heimsendinguna og því hefði gjaldtakan verið heimildarlaus. Lyfjaverslunin taldi að það gæti verið rétt og endurgreiddi heimsendingarkostnaðinn í samræmi við þá kröfu sem álitsbeiðandi gerði þar um. Þar sem kröfu álitsbeiðanda hafði verið fullnægt vísaði kærunefndin beiðninni frá sér.
Mál nr. 83/2010
Kaup á hýsingu. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi, sem er einkahlutafélag, keypti hýsingu samkvæmt auglýsingu á vefsíðu og taldi að henni fylgdi lén. Svo reyndist ekki vera og vildi álitsbeiðandi þá fá endurgjald fyrir þjónustuna endurgreitt sem seljandi féllst ekki á. Kærunefndin áleit að þar sem álitsbeiðandi væri einkahlutafélag féllu kaupin ekki undir þjónustukaupalögin eða önnur þau lög sem valdsvið kærunefndarinnar næði til samkvæmt lögum nr. 87/2006 og vísaði því beiðninni frá sér.
Mál nr. 81/2010.
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi óskaði eftir viðgerð á bifreið sinni vegna gangtruflana. Á viðgerðarverkstæðinu voru þær truflanir lagfærðar. Í ljós kom eftir viðgerðina að bifreiðin brenndi olíu ótæpilega en olíubrennsla hafði ekki komið til tals þegar álitsbeiðandi kom með bifreiðina til viðgerðar eða viðgerð vegna hennar. Álitsbeiðandi sagðist hins vegar hafa ætlast til þess og gert ráð fyrir að viðgerð á bifreiðinni yrði „fullnaðarviðgerð“. Starfsmenn á viðgerðarverkstæðinu hefðu vitað eða átt að vita að viðgerðar væri þörf vegna olíubrennslunnar en sú viðgerð væri svo dýr að ekki hefði borgað sig að gera við bifreiðina. Þess vegna ætti hann rétt á að fá endurgreiddan kostnað við þá viðgerð sem framkvæmd var. Kærunefndin féllst ekki á röksemdir álitsbeiðanda og hafnaði kröfum hans.
Mál nr. 80/2010
Galli á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið 27. júní 2005. Hann kvartaði undan bilun í bifreiðinni við þjónustuverkstæði seljanda 11. maí 2010 og reyndist vinkildrif bifreiðarinnar vera ónýtt. Kærunefndin taldi að um galla væri að ræða og ætti 5 ára kvörtunarfrestur við um hann. Seljandi vildi ekki kosta viðgerðina nema að hluta en kærunefndin áleit að hann ætti að kosta hana að fullu.
Mál nr. 79/2010
Kaup á ísskáp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp í desember 2003. Á árinu 2006 bilaði „heili“ skápsins og lagði seljandi til nýjan „heila“ í skápinn en á kostnað álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi sagði að fyrir páska 2010 hafi frystir skápsins bilað og þar sem ýmsar viðgerðartilraunir hafi ekki borið árangur hljóti það að vera „heilinn“ sem sé bilaður. Engin gögn lágu fyrir um hvort svo væri eða ekki. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að yrði í ljós leitt að „heili“ skápsins væri bilaður ætti seljandi að kosta skipti á honum, en um væri að ræða íhlut sem félli undir 5 ára kvörtunarregluna.
Mál nr. 78/2010
Kaup á leikjatölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti leikjatölvu 24. nóvember 2007 og kvartaði undan bilun í tölvunni í byrjun maí 2010. Fyrirtækið sem selt hafði álitsbeiðanda leikjatölvuna var tekið til gjaldþrotaskipta 4. nóvember 2008 og beindi álitsbeiðandi kröfu sinni um úrbætur að fyrirtæki sem ber sama nafn og seljandi hafði gert. Þar sem þetta fyrirtæki hafði ekki yfirtekið skyldur hins gjaldþrota fyrirtækis áleit kærunefndin að álitsbeiðandi gæti ekki beint kröfum sínum að hinu nýja samnefnda fyrirtæki og hafnaði þeim.
Mál nr. 77/2010
Galli á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti vorið 2006 bifreið af bifreiðaumboði og var hún nýskráð 27. október 2005. Sjálfskipting bifreiðarinnar bilaði í febrúar 2010 og hafði bifreiðinni þá verið ekið 47.000 km. Kærunefndin áleit að um galla væri að ræða í sjálfskiptingunni og hefði álitsbeiðandi kvartað í tæka tíð sbr. 2. málslið 2. mgr. 27. gr. neytendakaupalaga. Bæri seljanda því að greiða viðgerðarkostnaðinn. Kærunefndin áleit hins vegar að seljanda bæri ekki að kosta viðgerð á stýrisvél bifreiðarinnar þar sem kvörtun vegna hennar hefði ekki komið fram í tæka tíð, sbr. 1. málslið 2. mgr. 27. gr. neytendakaupalaga.
Mál nr. 76/2010
Viðgerð á hring. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi fór með giftingarhring til gullsmiðs til að láta stækka. Kærunefndin óskaði eftir því skriflega við álitsbeiðanda að hún fengi hringinn til skoðunar, gaf honum ákveðinn frest til þess og gerði grein fyrir því að fengi nefndin ekki hringinn til skoðunar mætti búast við því að beiðninni yrði vísað frá. Álitsbeiðandi kom ekki með hringinn og vísaði kærunefndin beiðninni frá.
Kaup á bleyjum. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti bleyjur af tegundinni Sampers en kvaðst hafa ætlað að kaupa Pampersbleyjur. Seljandi hefði blekkt sig í kaupunum með því að hafa þessar bleyjutegundir hlið við hlið í hillu í versluninni. Við notkun ungbarns á bleyjunum hefði rúm skemmst og af hlotist vandræði. Álitsbeiðandi krafðist þess að seljandi bleyjanna keypti handa sér nýtt rúm og greiddi sér miskabætur að auki. Kærunefndin féllst ekki á kröfur álitsbeiðanda
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvu sem bilaði. Fór hún með hana í viðgerð til seljanda en samkvæmt því sem seljandi sagði í andsvörum tók álitsbeiðandi tölvuna úr viðgerð áður en henni var lokið. Álitsbeiðandi gerði þá kröfu að seljandi legði sér til nýja tölvu. Kærunefndin taldi að seljandi ætti rétt til þess að reyna viðgerð á tölvunni til fullnustu kæmi álitsbeiðandi með tölvuna til viðgerðar en tækist hún ekki bæri seljanda að leggja álitsbeiðanda til nýja tölvu.
Kaup á tölvuskjá. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvuskjá og kom fram galli í honum eftir eins og hálfs árs notkun og var hann dæmdur ónýtur. Álitsbeiðanda var boðinn minni en fullkomnari tölvuskjár í staðinn en seljandi sagði að hætt væri að framleiða sams konar skjái og álitsbeiðandi keypti og því gæti hann ekki orðið við þeirri kröfu álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi krafðist þess að fá greiddar kr. 80.000 en seljandi bauðst til þess að endurgreiða kaupverð skjásins kr. 59.900 sem hann og gerði. Varð að samkomulagi milli aðila að þessi fjárhæð skoðaðist sem endurgreiðsla eða innborgun á endurgreiðslu kæmist kærunefndin að þeirri niðurstöðu að álitsbeiðandi ætti rétt á hærri greiðslu. Kærunefndin taldi að með tilliti til þess að álitsbeiðandi hefði haft not af tölvuskjánum í eitt og hálft ár væri hæfileg endurgreiðsla kr. 59.900.
Kaup á tveimur tölvum. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tvær tölvur. Stýrikerfi þeirra fór úr lagi og lagaði seljandi það. Álitsbeiðandi kvartaði undan því að hljómburður í tölvunum væri slæmur og fékk annarri tölvunni skipt út þess vegna. Álitsbeiðandi taldi að nýja tölvan væri ekkert betri að þessu leyti. Gerði hún kröfu um að rifta kaupum á tölvunum. Kærunefndin fékk sérfróðan aðila til þess að athuga hvort galli væri á hljómburði í tölvunum og var niðurstaða þeirra athugunar að svo væri ekki. Kærunefndin hafnaði því kröfum álitsbeiðanda.
Þurrkubúnaður á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja jeppabifreið í júní 2006. Eftir rúmlega fjögurra ára notkun bilaði þurrkubúnaður á framrúðu. Álitsbeiðandi taldi þetta vera galla á bifreiðinni og krafðist þess að seljandi kostaði viðgerðina. Kærunefndin taldi að kvörtunin væri of seint fram komin og hafnaði þeirri kröfu álitsbeiðanda. Þá taldi álitsbeiðandi að seljandi hefði gefið sér rangar upplýsingar um það hvernig haga þyrfti viðgerð á þurrkubúnaðinum sem hefði orðið dýrari en annars hefði þurft að vera og þar með brotið gegn ákvæðum þjónustukaupalaga. Á það féllst kærunefndin ekki.
Mál nr. 70/2010
Kaup á þvottavél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þvottavél 13. júlí 2005. Hann kvartaði undan því við seljanda 17. maí 2010 að steypuklumpur neðan á vindu þvottavélarinnar hefði losnað og þvottavélin eyðilagst vegna þess. Fram kom í álitsbeiðni að steypuklumpur ofan á vindunni hefði verið laus þegar álitsbeiðandi keypti þvottavélina eða losnað fljótlega eftir það og hann sjálfur fest klumpinn. Álitsbeiðandi kvaðst ekki hafa látið seljanda vita af því. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi hefði mátt búast við því að báðir klumparnir væru lausir og neðri klumpinn þyrfti einnig að festa betur. Hefði hann því átt á sínum tíma að láta seljanda vita að klumpurinn ofan á vindunni væri laus og láta hann sjá um nauðsynlega viðgerð á þvottavélinni. Þar sem hann hefði ekki gert þetta hefði hann glatað rétti á hendur seljanda til úrbóta og féllst kærunefndin ekki á kröfu álitsbeiðanda um að seljandi legði honum til nýja þvottavél. Auk þess taldi kærunefndin vafa undirorpið að um þvottavél af þeirri gerð sem álitsbeiðandi keypti gilti fimm ára kvörtunarfrestur.
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið sem í kaupsamningi og afsali var sögð vera ekin 95.000 km. Hins vegar kom í ljós að skipt hafði verið um ökumæli í bifreiðinni og hafði henni í raun verið ekið um 165.000 km. Kærunefndin áleit að vegna þessa bæri seljanda bifreiðarinnar að greiða álitsbeiðanda skaðabætur.
Kaup á skóm. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti skó sem hann taldi vera gallaða vegna þess hve mikið þeir slitnuðu. Kærunefndin taldi að ekki væri hægt að slá því föstu að skórnir hefðu verið haldnir sérstökum galla og hafnaði kröfu álitsbeiðanda um að fá nýja skó eða kaupverðið endurgreitt.
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvu og bilaði harði diskurinn í henni tæpu ári seinna. Seljandi taldi að ástæða bilunarinnar væri sú að högg hefði komið á tölvuna. Kærunefndin taldi að það hefði ekki verið leitt í ljós að sú væri ástæðan og að seljandi ætti að bæta álitsbeiðanda kostnað við skipti á diskinum.
Kaup á tölvu. Lausafjárkaup.
Einkahlutafélag keypti tölvu sem reyndist gölluð. Fyrirtækið sem seldi tölvuna varð gjaldþrota áður en bilunin kom fram. Annað fyrirtæki hafði keypt eignir úr þrotabúinu en ekki yfirtekið skuldbindingar þess. Kærunefndin taldi að álitsbeiðandi gæti því ekki beint kvörtun sínum að því fyrirtæki þar sem það hefði ekki selt álitsbeiðanda tölvuna og hafnaði kröfum hans af þeim sökum.
Kaup á leikjatölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sér Playstation3 leikjatölvu. Sagði hann að auglýst hefði verið að hægt væri að setja annað stýrikerfi í tækið sem í ljós hefði komið að ekki hefði verið hægt. Seljandi notfærði sér ekki kost á andsvörum. Kærunefndin áleit að byggja yrði á því sem fram kæmi í álitsbeiðninni um að tækið hefði ekki haft þá kosti sem auglýstir hefði verið og ætti álitsbeiðandi því rétt á að rifta kaupunum og fá kaupverðið endurgreitt.
Mál nr. 64/2010
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvu 15. maí 2008 og kvartaði við seljanda 30. apríl 2010 út af því að rafhlaðan væri nánast ónýt. Kærunefndin áleit að um galla væri að ræða og seljandi ætti að leggja álitsbeiðanda til nýja rafhlöðu.
Mál nr. 63/2010
Kaup á Playstation 3. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi fékk gefins Playstation 3 sem keypt hafði verið 9. desember 2007. Tækið bilaði í febrúar 2010 og krafðist álitsbeiðandi þess að hann fengi nýtt tæki í staðinn hjá seljanda. Kærunefndin taldi kvörtunina of seint fram komna samkvæmt 27. gr. neytendakaupalaga og hafnaði kröfu álitsbeiðanda.
Mál nr. 62/2010
Kaup á hjólkoppum. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti hjólkoppa á bifreið sína. Hann kvað afgreiðslumann seljanda hafa leiðbeint sér um kaupin og sýnt sér dæmi þess hve vel slíkir hjólkoppar sætu á bifreið verslunarinnar. Þegar hjólkopparnir höfðu verið settir á bifreið álitsbeiðanda fór svo að tveir þeirra losnuðu og týndust, en þeir reyndust ekki passa á bifreiðina. Kærunefndin taldi að álitsbeiðandi hefði mátt vænta þess, sbr. ákvæði 16. gr. neytendakaupalaga, að hjólkopparnir hæfðu bifreið hans þar sem honum hefði verið leiðbeint við kaupin. Álit kærunefndarinnar var það að seljanda bæri að leggja álitsbeiðanda til nýja hjólkoppa.
Mál nr. 60/2010
Smíði á bílskúrshurð. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi óskaði eftir því við verkstæði að það smíðaði fyrir sig bílskúrshurð en hurðin sem fyrir var hafði ónýst vegna vatnsskemmda. Átti hurðin að vera að útliti eins og útidyrahurð hússins. Álitsbeiðandi sagði að ákveðið hefði verið að hurðarjárn yrðu keypt í ákveðinni verslun, en hurðina átti að opna með rafbúnaði. Hefði hann skoðað þau járn og litist vel á. Álitsbeiðandi var beðinn um að koma á verkstæðið þegar smíðin var hafin til þess að skoða hvort spjald í hurðina sem hafði þá verið smíðað væri ekki eins og til var ætlast. Álitsbeiðandi kvaðst ekki hafa áttað sig á því á þessum tíma að svo hafi ekki verið. Hins vegar hefði hann gert athugasemd, þegar kom að uppsetningu hurðarinnar, við það að spjöldin í nýju hurðinni væru ekki eins og í útidyrahurðinni. Hurðin var engu að síður sett upp. Þá hafði verkstæðið pantað hurðarjárn hjá öðru fyrirtæki en til hafði staðið og reyndist erfitt og kostnaðarsamt að koma þeim fyrir og krafði verkstæðið álitsbeiðanda um greiðslu fyrir. Þurfti að leita aðstoðar og efnis annars staðar frá við það verk sem álitsbeiðandi greiddi fyrir. Kærunefndin áleit að ekki væru efni til þess að fallast á kröfu álitsbeiðanda um riftun kaupanna en taldi að hann ætti rétt á afslætti vegna galla á smíðinni og aukins kostnaðar vegna hurðarjárnanna.
Mál nr. 59/2010
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti jeppabifreið, árgerð 1999, ekna 150.000 km fyrir kr. 850.000. Eftir kaupin taldi hann ýmsa galla vera á bifreiðinni sem myndi kosta kr. 601.305 að gera við og krafðist þess að seljandi greiddi sér þá fjárhæð. Kærunefndin taldi að stóran hluta af þessum viðgerðum hefði álitsbeiðandi mátt sjá við kaupin að þyrfti að framkvæma eða mátt búast við því. Hins vegar hefði hann ekki mátt gera ráð fyrir því að grind bifreiðarinnar væri jafn illa farin og í ljós kom við nánari skoðun og áleit kærunefndin að seljandi ætti að greiða álitsbeiðanda kr. 180.000 sem afslátt af kaupverði
Mál nr. 58/2010
Kaup á ísskáp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp í júlí 2006. Í ársbyrjun 2010 bilaði rafeindastýring í skápnum. Kærunefndin féllst á þá kröfu álitsbeiðanda að seljandi ætti að greiða kostnað við viðgerðina á ísskápnum.
Mál nr. 57/2010
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp í júlí 2009. Í apríl 2010 var ekki hægt að ræsa tölvuna. Í ljós kom að ryk í tölvunni var orsökin og komst hún í lag eftir að hafa verið rykhreinsuð.
Álitsbeiðandi krafðist þess að seljandi greiddi kostnað við rykhreinsunina og bætur fyrir afnotamissi. Á þá kröfu féllst kærunefndin ekki.
Mál nr. 55/2010
Kaup á sláttuvélartraktor. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýjan sláttuvélartraktor sem hann fékk sendan heim til sín austur á land. Í ljós kom að eitt og annað var að sláttuvélinni þótt ný væri og kvartaði álitsbeiðandi út af því við seljanda um hálfum mánuði seinna. Álitsbeiðandi sendi sláttuvélina til seljanda sem var tregur til þess að viðurkenna að gallar væru á henni. Sláttuvélin var sett á verkstæði til viðgerðar í framhaldi af því og sögðu viðgerðarmennirnir að vélin hefði öll verið í „skralli“ og væri gallagripur. Kærunefndin áleit að seljandi ætti að greiða viðgerðarkostnaðinn og þann sendingarkostnað sem álitsbeiðandi hefði þurft að greiða.
Viðgerð á fjölbýlishúsi. Þjónustukaup. Frávísun.
Kærunefndin taldi ágreiningsefnið það flókið og viðamikið að til þess að komast að niðurstöðu sem byggjandi væri á þyrfti að yfirheyra þá sem að viðgerðarverkinu hefðu komið. Kærunefndin hefði ekki heimild til þess að kalla menn til yfirheyrslu og bæri henni að vísa málinu frá samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa
Mál nr. 53/2010
Kaup á sjónvarpi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp og útbúnað til þess að festa það á vegg. Seljandi flutti söluhlutina til hans en álitsbeiðandi kvaðst sjálfur ætla að fá menn til að festa sjónvarpið á vegginn. Sjónvarpið var sett í samband og virkaði eins og til var ætlast. Álitsbeiðandi fékk síðan tvo rafvirkja til þess að koma sjónvarpinu fyrir á vegg en eftir þá aðgerð kom í ljós að það virkaði ekki. Sjónvarpið var sent til skoðunar hjá viðgerðaraðila og kom í ljós að skjár þess var brotinn og tækið metið ónýtt. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti ekki skaðabótakröfu á hendur seljanda þar sem ekki væri annað leitt í ljós en að sjónvarpið hefði verið í fullkomnu lagi þegar hann afhenti það. Kærunefndin áleit hins vegar að byggja mætti á því að sjónvarpið hefði skemmst við uppsetningu þess á vegginn og ætti fyrirtækið sem það gerði að bæta álitsbeiðanda tjónið.
Mál nr. 51/2010
Kaup á þvottavél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þvottavél 11. desember 2006 fyrir rúmar kr. 44.000. Eftir u.þ.b. þriggja ára notkun varð þvottavélin ónýt og seljandi viðurkenndi ábyrgð sína á gallanum, sem hann hafði ekki gert í fyrstu. Álitsbeiðandi hafði þá keypt sér nýja þvottavél fyrir kr. 95.000. Seljandi bauðst til að endurgreiða álitsbeiðanda kaupverð þvottavélarinnar kr. 44.000 en álitsbeiðandi krafðist þess að hann greiddi kaupverð nýju þvottavélarinnar. Kærunefndin áleit álitsbeiðanda eiga rétt á skaðabótum vegna gallans og með það í huga að álitsbeiðandi hafði haft not af þvottavélinni í þrjú ár taldi hún bæturnar hæfilega ákveðnar kr. 55.000.
Mál nr. 50/2010
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Einkahlutafélag keypti bifreið 28. desember 2006 sem var nýskráð 15. febrúar 2006. Álitsbeiðandi óskaði eftir því að viðgerðarmaður á vegum seljanda athugaði hljóð í vél bifreiðarinnar í september 2009 og fór hún til viðgerðar í janúar 2010. Kærunefndin áleit að kvörtun vegna galla hefði komið of seint fram, sbr. 2. mgr. 32. gr. lausafjárkaupalaga, og hafnaði kröfum álitsbeiðanda.
Kaup á hjól koppum. Neytendakaup. Frávísun.
Í álitsbeiðni kom ekki fram hvaða kröfur álitsbeiðandi gerði á hendur seljanda. Kærunefndin gaf álitsbeiðanda kost á því að bæta þar úr sem hann notfærði sér ekki. Kærunefndin vísaði því málinu frá samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.
Mál nr. 48/2010
Kaup á uppþvottavél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi kvartaði undan galla á uppþvottavél 4 árum og 2 mánuðum eftir kaupin. Kærunefndin taldi að miðað við gerð þvottavélarinnar, aldur hennar og þann íhlut sem bilaði væri kvörtun álitsbeiðanda of seint fram komin, sbr. ákvæði 27. gr. neytendakaupalaga. Hins vegar byggði nefndin á því að gerð hefðu verið mistök við tilraun viðgerðarmanns á vegum seljanda til að gera við uppþvottavélina og úr þeim ætti seljandi að bæta eins og hann hefði lofað.
Mál nr. 47/2010
Viðgerð á ísskáp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi fékk ísskáp úr viðgerð frá viðgerðaraðila seljanda um mánaðamótin ágúst/september 2009. Hann kvartaði undan galla á viðgerðinni í janúar 2010. Kærunefndin taldi að kvörtunin hefði ekki verið gerð í samræmi við ákvæði 1. mgr. 27. gr. neytendakaupalaga, þ.e. án ástæðulauss dráttar, og hafnaði kröfum álitsbeiðanda
Mál nr. 46/2010
Kaup á bakarofni. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti bakarofn með blásara og fékk hann afhentan í september 2006. Element í blásaranum bilaði í nóvember 2009 og kvartaði álitsbeiðandi við seljanda úr af því 24. mars 2010 eða fjórum mánuðum eftir að hún varð hans var. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi hefði ekki kvartað án ástæðulauss dráttar, sbr. 1. mgr. 27. gr. neytendakaupalaga og hafnaði því úrbótakröfu hennar á hendur seljanda.
Mál nr. 45/2010
Kaup á eldavél. Neytendakaup. Frávísun.
Álitsbeiðandi keypti eldavél í mars 2005. Hún taldi element í eldavélinni hafa bilað í haust sem leið en vildi að seljandi kostaði skoðun á gallanum sem hann hafnaði. Álitsbeiðandi taldi það ekki vera sitt hlutverk að láta skoða hvað að eldavélinni væri og krafðist þess að seljandi gerði við hana. Kærunefndin taldi að álitsbeiðanda bæri að leiða í ljós hvers eðlis sá galli væri sem hún taldi vera á eldavélinni og bera kostnað af því. Þann kostnað fengi hún síðan endurgreiddan kæmi í ljós að seljandi ætti að bæta úr gallanum. Málinu var því vísað frá kærunefndinni.
Kaup á tölvuorðabók. Neytendakaup.
Í álitsbeiðni kom hvorki fram hver ágreiningur álitsbeiðanda og seljanda væri né hvaða kröfur álitsbeiðandi gerði á hendur seljanda. Kærunefndin gaf álitsbeiðanda kost á því að bæta þar úr sem hann notfærði sér ekki. Kærunefndin vísaði því málinu frá samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.
Mál nr. 43/2010
Kaup á notaðri bifeið á uppboðsvef. Neytendakaup. Frávísun.
Álitsbeiðandi bauð í notaða bifreið á uppboðsvef. Annar aðili bauð hærra en síðan náðist ekki til hans. Uppbjóðandi bauð þá álitsbeiðanda bifreiðina til kaups fyrir það verð sem hann hafði boðið. Þegar álitsbeiðandi ætlaði að ná í bifreiðina og ganga frá kaupunum hafði hún verði afhent þeim sem hærra bauð í hana á sínum tíma. Álitsbeiðandi krafðist þess að uppbjóðandi afhenti sér bifreiðina. Kærunefndin áleit að þeirri kröfu ætti hann að beina að eiganda og seljanda bifreiðarinnar, sem uppbjóðandi ekki var, og vísaði kröfum álitsbeiðanda á hendur uppbjóðanda frá.
Mál nr. 42/2010
Kaup á eldavél. Neytendakaup
Álitsbeiðandi keypti eldavél í mars 2007. Í mars 2010 eða þremur árum seinna bilaði stýring fyrir tvær hellur og þurfti að skipta um hana. Kærunefndin áleit að um galla væri að ræða í eldavélinni sem seljanda væri skylt að bæta úr og því ætti hann að greiða viðgerðarreikninginn eins og álitsbeiðandi hafði krafist.
Kaup á sjónvarpi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp í febrúar 2007 og bilaði myndlampi í því 5. mars 2010. Kærunefndin áleit að kvörtunarfrestur vegna galla af þessu tagi væri 5 ár, sbr. 2. málslið 2. mgr. 27. gr. neytendakaupalaga og seljandi ætti að bæta úr gallanum á sinn kostnað.
Mál nr. 40/2010
Kaup á nýrri bifreið. Ventlar o.fl. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið af bifreiðaumboði í ágúst 2005. Þegar bifreiðin var orðin fjögurra og hálfs árs gömul og hafi veri ekið 56.000 kom í ljós að tveir af þremur útblástursventlum voru brunnir. Þurfti að skipta um þá og var einnig skipt um kambás og strokklok. Seljandi vildi ekki greiða nema hluta af viðgerðarkostnaðinum. Kærunefndin áleit að um galla væri að ræða sem álitsbeiðandi hefði kvartað undan í tæka tíð og ætti seljandinn að greiða viðgerðarkostnaðinn að fullu.
Mál nr. 39/2010
Kaup á nýrri bifreið. Sjálfskipting. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti í apríl 2008 nýja bifreið af bifreiðaumboði sem hann notaði til leigubílaaksturs. Sjálfskipting bifreiðarinnar reyndist ekki vera í lagi og kvartaði hann út af því við seljanda innan tveggja ára frá kaupunum. Kærunefndi áleit að galli væri á sjálfskiptingunni og ætti seljandi að greiða viðgerðarkostnað að fullu en hann hafi boðist til að greiða helming kostnaðarins.
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvu í ágúst 2007. Í maí 2008 bilaði móðurborð tölvunnar og skipti seljandi um það á eigin kostnað. Í febrúar 2010 bilaði móðurborðið á nýjan leik og vildi seljandi ekki kosta skipti á því. Kærunefndin taldi að þar sem um bilun á sama hlut væri að ræða væri kvörtunarfrestur vegna galla í síðara móðurborðsins ekki liðinn og bæri seljanda að skipta um það á sinn kostnað.
Mál nr. 37/2010
Kaup á sturtuklefa með blöndunartækjum. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi, sem er búsett úti á landi, keypti sturtuklefa með blöndunartækjum á Reykjavíkursvæðinu. Hún setti sjálf upp sturtuklefann og tengdi blöndunartækin. Blöndunartækin kvað hún ekki hafa verið í lagi en sírennsli hefði verið um þau. Réði hún sjálf pípulagningamann sem reyndi að koma tækjunum í lag í samráði við seljanda sem ekki tókst. Seljandi lagði síðan til ný blöndunartæki en vildi ekki greiða nema helming kostnaðar pípulagningamannsins. Kærunefndin taldi miklar líkur á kostnaður hefði orðið meiri en þörf hefði verið á vegna þess hvernig staðið var að viðgerðinni og áleit að álitsbeiðandi yrði sjálf að greiða hluta hans.
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup. Frávísun.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið á uppboðsstöð. Eftir að kaupverð hafði verið greitt kom í ljós að lykla vantaði að bifreiðinni og tókst hvorki uppbjóðanda né álitsbeiðanda að fá þá í hendur. Álitsbeiðandi gerði þá kröfu á hendur uppbjóðanda að kaupunum yrði rift. Seljandi bifreiðarinnar var annað fyrirtæki en uppbjóðandi. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti að beina riftunarkröfu sinni að seljanda bifreiðarinnar en ekki uppbjóðanda og vísaði kröfunni frá.
Mál nr. 35/2010
Kaup á nýrri bifreið. Svinghjól. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið 15. mars 2005. Í lok árs 2009 tóku að heyrast hljóð frá bifreiðinni og hafnaði seljandi ábyrgð sinni á því að gera við bifreiðina, en skipta þurfti um svinghjól hennar. Kærunefndin áleit að kvörtunarfrestur vegna bilunar af þessu tagi væri 2 ár og hafnaði kröfum álitsbeiðanda á þeim forsendum að kvörtun hennar hefði komið of seint fram.
Mál nr. 34/2010
Kaup á bifreið. Neytendakaup. Frávísun
Kærunefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá álitsbeiðanda og gaf honum kost á því að bæta þar úr sem hann notfærði sér ekki. Kærunefndin vísaði því málinu frá samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.
Mál nr. 33/2010
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti 9 ára gamla bifreið í febrúar 2010. Í ljós kom eftir kaupin að tveir af þremur hvarfakútum bifreiðarinnar virkuðu ekki. Kærunefndin áleit að um leyndan galla væri að ræða. Álitsbeiðandi gerði aðallega kröfum um að kaupunum yrði rift. Á það féllst kærunefndin ekki en taldi að seljanda bæri að greiða hluta kostnaðar við skipti á hvarfakútunum.
Mál nr. 32/2010
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti í ágúst 2008 bifreið af bifreiðaumboði og var hún nýskráð í maí 2005. Í september 2009 kom í ljós galli í bremsukerfi bifreiðarinnar og greiddi álitsbeiðandi hluta viðgerðarkostnaðar. Síðar vildi hann fá þá fjárhæð endurgreidda. Kærunefndin áleit að bilunin hefði verið af því tagi að um kvörtunarfrest hennar vegna færi eftir 2. málslið 2. mgr. 27. gr. neytendakaupalaga og ætti seljandi að greiða viðgerðarkostnaðinn að fullu.
Mál nr. 31/2010
Kaup á playstation. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti Playstation3 Console 28. nóvember 2007. Hann kvartaði við seljanda vegna bilunar í tækinu 29. desember 2009. Kærunefndin áleit að kvörtunin væri of seint fram komin og því ætti álitsbeiðandi ekki rétt til úrbóta úr hendi seljanda.
Mál nr. 30/2010
Frávísun.
Álitsbeiðandi bað um álit vegna uppgjörs á húsaleigusamningi o.fl. Ágreiningsefnið átti ekki undir kærunefndina og vísaði hún beiðninni frá.
Mál nr. 29/2010
Viðgerð á bifreið. Sjálfskipting. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi samdi við bílaverkstæði um viðgerð á sjálfskiptingu í bifreið. Greiddi hann fyrirfram kr. 30.000 en talið var líklegt að skipta þyrfti um olíudælu. Álitsbeiðandi kvaðst hafa átt að fá féð endurgreitt þyrfti ekki að skipta um dæluna. Í ljós kom að viðgerðin var umfangsmeiri og dýrari en í upphafi var talið og hélt verkstæðið henni áfram án þess að hafa samband við álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi greiddi kr. 30.000 í viðbót til þess að fá bifreiðina afhenta en gerði síðan kröfu um að fá alla fjárhæðina, kr. 60.000, endurgreidda. Kærunefndin taldi að viðgerðaraðila hefði borið samkvæmt ákvæðum þjónustukaupalaga að hafa samband við álitsbeiðanda og kanna hvort hann vildi halda viðgerðinni áfram þegar fyrir lá að umfang hennar yrði meira en áætlað hafði verið. Þar sem það hefði viðgerðaraðilinn ekki gert ætti hann að endurgreiða álitsbeiðanda hluta viðgerðarkostnaðar eða kr. 20.000.
Mál nr. 28/2010
Frávísun.
Álitsbeiðandi bað um álit kærunefndarinnar á bifreiðakaupum. Kærunefndin óskaði eftir skýringum á álitsbeiðninni og gaf álitsbeiðandi ákveðinn frest til þess að gefa þær. Álitsbeiðandi lét ekkert í sér heyra og vísaði kærunefndin beiðninni því frá samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.
Mál nr. 27/2010
Galli á bifreið. Tímareim. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið í maí 2007. Í mars 2009 ók hann bifreiðinni út af í hríðarveðri og var að skilja hana eftir. Hlífðarpanna og grill skemmdist við útafaksturinn og fennti inn í vélarhúsið. Næsta dag eftir að bifreiðin hafði verið dreginn upp á veg setti álitsbeiðandi hana í gang og lét ganga í hálftíma áður en hann ók af stað. Eftir stuttan akstur missti bifreiðin afl og hitaljós kviknaði. Álitsbeiðandi hreinsaði þá snjó úr vélarhúsinu. Í ljós kom að tímareim hafði gefið sig. Álitsbeiðandi taldi að tímareimin ætti að vera varin fyrir snjó og teldist galli á bifreiðinni að svo hefði ekki verið. Á það féllst kærunefndin ekki og taldi að álitsbeiðandi yrði að bera tjón sitt sjálfur.
Mál nr. 26/2010
Kaup á ísskáp. Neytendakaup
Álitsbeiðandi keypti nýjan ísskáp í september 2007 og reyndist hann vera gallaður. Seljandi lagði honum til nýjan ísskáp í staðinn í árslok 2007. Í febrúar 2010 kom í ljós galli á þeim ísskáp, reynt var að gera við hann, en skápurinn reyndist ónýtur. Seljandi bauð þá álitsbeiðanda ísskáp til kaups með afslætti sem álitsbeiðandi þáði. Síðar gerði álitsbeiðandi þá kröfu að seljandi endurgreiddi sér kaupverð fyrsta ísskápsins og kostnað við viðgerð á ísskápnum sem var annar í röðinni en því hafnaði seljandi. Kærunefndin áleit að seljanda bæri að greiða álitsbeiðanda kaupverð fyrsta ísskápsins og viðgerðarkostnaðinn að frádregnu endurgjaldi fyrir notkun.
Mál nr. 24/2010
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið, árgerð 2002, í ágúst 2009. Skömmu síðar varð hann var við olíuleka og reyndist sjálfskipting bifreiðarinnar vera gölluð. Kærunefndin taldi að um leyndan galla væri að ræða sem ekki hefði komið fram við skoðun á bifreiðinni og að seljanda bæri að greiða hluta af kostnaði við viðgerð sjálfskiptingarinnar.
Mál nr. 23/2010
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvu í ágúst 2006. Fyrirtækið sem seldi tölvuna varð gjaldþrota áður tölvan bilaði. Annað fyrirtæki hafði keypt lausafjármuni og vörubirgðir úr þrotabúinu en ekki yfirtekið skyldur þess. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi gæti ekki beint kröfum vegna gallans að þessu fyrirtæki.
Mál nr. 22/2010
Kaup á notaðri bifreið á uppboði. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið, 13 ára, í febrúar 2010 fyrir kr. 125.000. Hann taldi bifreiðina vera haldna ýmiss konar göllum, þ.á m. væri hún tjónabifreið. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi hefði mátt búast við því að eitt og annað væri að bifreið á þessum aldri sem þyrfti að laga og eins væri getið um það í kaupsamningi og afsali að bifreiðin hefði lent í tjóni. Kröfum álitsbeiðanda var því hafnað.
Mál nr. 21/2010
Kaup á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið í október 2007. Mótor til þess að hala upp rúðu bilaði og var gert við hann 22. febrúar 2010. Seljandi var ekki talinn bera ábyrgð á þeirri bilun þar sem ekki væri hægt að fella hana undir kvörtunarfrest 2. málsl. 2. mgr. 27. gr., þ.e. 5 ára regluna.
Mál nr. 20/2010
Kaup á þurrkara. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þurrkara sem bilaði eftir rúmlega tveggja ára notkun. Kærunefndin áleit að seljandi bæri enn ábyrgð á gallanum og ætti að bæta álitsbeiðanda hann.
Mál nr. 19/2010
Kaup á tölvu. Neytendakaup
Álitsbeiðandi keypti tölvu 17. apríl 2007. Þurfti að skipta um móðurborð í henni 18. febrúar 2008 og kostaði seljandi þá viðgerð. Móðurborðið bilaði á ný í desember 2009 og þurfti að skipta um það. Kærunefndin áleit að þegar á þeirri forsendu að álitsbeiðandi hefði kvartað undan bilun í nýja móðurborðinu innan tveggja ára frá því að skipt var um móðurborðið í febrúar 2008 bæri seljanda að kosta skipti á því.
Mál nr. 18/2010
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvu á ágúst 2007. Móðurborð hennar bilaði og fór tölvan til viðgerðar í janúar 2010. Í ljós kom að ryk hafði safnast við loftunarop í tölvunni og taldi seljandi það ástæðu bilunarinnar í tölvunni og m.a. það leiddi til þess að hann bæri ekki ábyrgð á biluninni. Kærunefndin féllst á þessa röksemd.
Mál nr. 17/2010
Kaup á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið jeppabifreið í árslok 2005. Eftir að hafa átt bifreiðina í u.þ.b. þrjú og hálft ár og ekið henni um 100.000 km bilaði kælikerfi sjálfskiptingarinnar með þeim afleiðingum að skipta þurfti um vatnskassa í bifreiðinni og gera við sjálfskiptinguna. Kærunefndin taldi að um galla væri að ræða sem seljandi bæri ábyrgð á.
Kaup á efni og saumaskap. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi keypti efni og pantaði saum á því. Henni var sagt hve mikið kostaði að sauma hvern metra og hver kostnaður við það yrði í heildina. Álitsbeiðandi taldi að metrafjöldinn hefði verið ofreiknaður þar sem óþarft hefði verið að sauma þann hluta efnisins sem sniðinn var af og ekki notaður. Kærunefndin áleit að eins og málum var háttað að ekki hefði verið galli á þjónustu seljanda og hafnaði kröfum álitsbeiðanda.
Kaup á sjónvarpsflakkara. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarpsflakkara og á umbúðunum stóð að hann ætti að innihalda 500 GB disk. Svo var ekki. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi hefði mátt búast við að slíkur diskur fylgdi flakkaranum og ætti seljandi að afhenda álitsbeiðanda hann.
Viðgerð á húsi. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi gerði verksamning um viðgerð á fjöleignarhúsi og taldi að verksali hefði ekki lokið viðgerðinni. Álitsbeiðandi fékk fagaðila til þess að skoða hvað eftir væri og kvað verksalinn að samkomulag hefði náðst á milli hans og álitsbeiðanda um að hann lyki verkinu við fyrsta tækifæri í samræmi við skoðun fagaðilans. Álitsbeiðandi mótmælti því ekki að samkomulag hefði náðst. Kærunefndin taldi því að ágreiningur væri ekki fyrir hendi á milli aðila og vísaði beiðninni frá sér.
Kaup á tölvuorðabók. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvuorðabók í lok ágúst 2009. Hún taldi orðabókina ónothæfa og því gallaða. Kvartaði hún undan göllunum við seljanda í lok janúar 2010. Kærunefndin taldi þá kvörtun vera of seint fram komna samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003.
Mál nr. 12/2010
Kaup á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið jeppabifreið í maí 2005. Eftir að hafa átt bifreiðina í 51 mánuð og ekið henni um 100.000 km bilaði kælikerfi sjálfskiptingarinnar með þeim afleiðingum að skipta þurfti um vatnskassa í bifreiðinni og gera við sjálfskiptinguna. Kærunefndin taldi að um galla væri að ræða sem seljandi bæri ábyrgð á.
Mál nr. 11/2010
Kaup á notaðri vörubifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða vörubifreið á bílasölu og sagði í kaupsamningi og afsali að henni ætti að fylgja varahjól, lyftari (tjakkur) og felgulykill. Þessir hlutir fylgdu ekki bifreiðinni og áleit kærunefndin að seljanda bæri að leggja álitsbeiðanda þá til. Auglýst hafði verið að bifreiðinni fylgdi bakkmyndavél sem ekki var en um hana var ekki getið í kaupsamningi og afsali. Kærunefndin áleit að kaupandi hefði átt við venjulega skoðun að verða þess var að myndavélina vantaði og féllst ekki á þá kröfu að seljandi vegna hennar.
Mál nr. 10/2010
Kaup á björgunarbát. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti björgunarbát í skemmtibát. Hann taldi að sá galli væri á björgunarbátnum að hann hefði verið framleiddur fyrir tveimur og hálfu ári fyrir kaupin og því þyrfti að fara með hann í skoðun eftir 6 mánuði. Á bátinn voru skráðar upplýsingar um það hvenær hann var framleiddur. Álitsbeiðandi vildi fá nýjan bát sem hann sagði seljanda hafa lofað sér. Hins vegar beindi hann kröfum sínum að innflytjanda bátsins en ekki seljanda og hafnaði kærunefndin kröfunum á þeim forsendum.
Kaup á vélryksugu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti vélryksugu í apríl 2008. Eftir eins og hálfs árs notkun hætti rafhlaðan að hlaða sig og kvartaði álitsbeiðandi út af því við seljanda. Seljandi sagði honum þá að rafhlaðan entist ekki nema í 14 mánuði og ábyrgð seljanda á rafhlöðu væri 6 mánuðir. Ekkert benti til þess að seljandi hefði veitt álitsbeiðanda þessar upplýsingar við kaupin eða þær væri að finna í handbók sem fylgdi ryksugunni. Kærunefndin áleit að seljandi gæti ekki borið þessa fyrirvara fyrir sig og ætti að leggja álitsbeiðanda til nýja rafhlöðu í ryksuguna.
Kaup á nýjum húsbíl. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýjan húsbíl í mars 2007. Hinn 17. júlí 2009 bilaði vökvadæla fyrir hemla bifreiðarinnar. Álitsbeiðandi gerði þá kröfu að seljandi kostaði skipti á dælunni og féllst kærunefndin á þá kröfu.
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tveggja ára gamla jeppabifreið á árinu 2007. Skipt hafði verið um stýrisvél í bifreiðinni um það leyti sem kaupin fóru fram. Í júlí 2009 var stýrisvélin dæmd ónýt og kostaði seljandi viðgerð að hluta. Álitsbeiðandi krafðist þess að seljandi kostaði viðgerðina að fullu og féllst kærunefndin á þá kröfu.
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti fartölvu í apríl 2007. Á milli jóla og nýárs 2009 bilaði tölvan og reyndist móðurborð hennar vera ónýtt, þ.e. að ekki svaraði kostnaði að gera við það. Kærunefndin áleit seljanda skylt að setja nýtt móðurborð í tölvu álitsbeiðanda honum að kostnaðarlausu.
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti bifreið á bílasölu. Í samningi um bílalán var bifreiðin sögð vera af árgerð 2005 en hún var af árgerð 2003. Álitsbeiðandi taldi að hann hefði verið blekktur í viðskiptunum og krafðist aðallega riftunar kaupanna en skaðabóta til vara. Í fjórum skjölum sem álitsbeiðandi undirritaði við kaupin, þ.á.m. kaupsamningi og afsali, kom fram að bifreiðin væri af árgerð 2003. Kærunefndin taldi að álitsbeiðandi hefði vitað eða mátt vita af bifreiðin væri af árgerð 2003 og hafnaði kröfum hans
Kaup á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið í apríl 2005. Í september 2009 kom í ljós að bensíngeymir bifreiðarinnar lak en hann hafði ryðgað sundur á samskeytum. Seljandi lagði álitsbeiðanda til nýjan geymi en krafðist þess að hann greiddi fyrir ísetninguna. Kærunefndin áleit að seljandi ætti sjálfur að bera þann kostnað.
Mál nr. 1/2010
Kaup á kaffikönnu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti kaffikönnu um jólaleytið 2008. Um ári seinna bilaði kannan og taldi seljandi hana ónýta. Kærunefndin taldi seljanda skylt að afhenda álitsbeiðanda sams konar eða sambærilega kaffikönnu. Væri það ekki hægt bæri seljanda að greiða álitsbeiðanda skaðabætur sem næmu kr. 79.990, en það verð auglýsti seljanda á sams konar könnu og álitsbeiðandi keypti en sagði hana ekki fáanlega lengur.
Mál nr. 103/2009
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi fékk verkstæði til þess að gera upp 30 ára gamla bifreið, sem síðast hafði verið notuð sem björgunarsveitarbifreið en staðið ónotuð um tíma. Aðallega átti að gera við yfirbyggingu bifreiðarinnar. Engir sérstakir samningar voru gerðir á milli aðila að því er varðaði kostnað við viðgerðina. Þegar líða tók á viðgerðartímann þótti álitsbeiðanda kostnaður mun meiri en hann hafði gert ráð fyrir og taldi að verkstæðið hefði áætlað. Álitsbeiðandi kvaðst hafa stöðvað viðgerðina um skeið en síðan var henni haldið áfram og greiddi álitsbeiðandi reikninga verkstæðisins. Álitsbeiðandi gerði þá kröfu að verkstæðið keypti af sér bifreiðina fyrir sömu fjárhæð og viðgerðin hefði kostað að viðbættu kaupverði bifreiðarinnar. Kærunefndin féllst ekki á þá kröfu álitsbeiðanda. Verkstæðið gerði áætlun um að síðasti hluti verksins myndi kosta kr. 500-700.000, en hann kostaði í raun kr. 820.000. Kærunefndin taldi að verkstæðið ætti að endurgreiða álitsbeiðanda kr. 120.000 eða það sem fram úr áætluninni hefði verið farið.
Mál nr. 101/2009
Kaup á nýrri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið, svokallaða eftirársbifreið. Ljós í mælaborði sýndu einhverja bilun sem seljandi reyndi þrívegis að gera við og tókst að lokum. Kærunefndin taldi að ekki væru forsendur til þess að líta svo á að vegna þessarar bilunar ætti álitsbeiðandi rétt á því að fá nýja bifreið afhenta eins og hann krafðist og hafnaði þeirri kröfu hans, en taldi að hann ætti rétt á bótum fyrir þau óþægindi sem hann hefði orðið fyrir vegna viðgerðarinnar. Gaf kærunefndin álit þetta 12. nóvember 2009 í máli M-77/2009.
Álitsbeiðandi bað á nýjan leik um álit kærunefndarinnar vegna þess sem hann sagði alvarlega bilun í sjálfskiptingu og vél sömu bifreiðar. Gerði hann aðallega kröfu um að kaupunum yrði rift en til vara að hann fengi nýja bifreið afhenta. Seljandi skipti um svokallaðan loftflæðiskynjara og við það komst bifreiðin í lag. Tók álitsbeiðandi við bifreiðinni að viðgerð lokinni. Kærunefndin áleit að um tvo aðskilda galla væri að ræða sem seljandi hefði gert við og féllst ekki á kröfur álitsbeiðanda.
Mál nr. 100/2009
Hitalögn í útitröppur. Þjónustukaupalög.
Álitsbeiðandi réði fyrirtæki til þess að leggja rafmagnshitalögn í útidyratröppur í tímavinnu. Álitsbeiðandi taldi að reikningur fyrir þá vinnu væri alltof hár og studdist þar við niðurstöðu í uppmælingu á verkinu. Fyrirtækið fækkaði þeim vinnustundum sem það hafði krafist greiðslu fyrir en gerði áfram kröfu til þess að álitsbeiðandi greiddi fleiri vinnustundir en samkvæmt mælingunni. Kærunefndin taldi ekki í ljós leitt að endanlegur reikningur væri ósanngjarn í skilningi þjónustukaupalaga og hafnaði kröfu álitsbeiðanda um frekari lækkun hans.
Mál nr. 99/2009
Galli á bifreið. Neytendakaupalög.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið 19. apríl 2006. Seljandi skipti á sinn kostnað um framöxul 5. janúar 2009, en öxullinn gengur í gegnum svokallað vinkildrif inn í sjálfskiptingu bifreiðarinnar. Í þeirri viðgerð skipti seljandi um olíu á vinkildrifinu. Í byrjun nóvember 2009 kom í ljós bilun í vinkildrifinu sjálfu sem álitsbeiðandi sagði seljanda hafa sagt að væri ónýtt vegna þess að olían á drifinu hefði ofhitnað og misst smureiginleika. Bifreiðin var þá 3 ára og 7 mánaða gömul, ekin 52.311 km. Álit kærunefndarinnar var að um galla væri að ræða sem félli undir 5 ára kvörtunarfrestinn og bæri seljanda að gera við hann á sinn kostnað.
Mál nr. 98/2009
Kaup á notuðum húsbíl. Neytendakaupalög.
Álitsbeiðandi keypti notaðan húsbíl í maí 2009 sem nýskráður var í júlí 2004. Álitbeiðandi taldi að smíðagalli hefði komið fram í öxli í bifreiðinni og krafðist þess að seljandi, sem einnig hafði flutt bifreiðina inn, kostaði nauðsynlega viðgerð. Rúm 5 ár voru liðin frá nýskráningu bifreiðarinnar þegar kvartað var undan gallanum. Kærunefndin taldi að leyndur galli hefði verið á bifreiðinni og að álitsbeiðandi ætti rétt á afslætti af kaupverði.
Mál nr. 97/2009
Kaup á flatskjá. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi kvartaði f.h. dánarbús föður síns vegna galla á flatskjá sem keyptur hafði verið í september 2007 og krafðist þess að hann yrði lagfærður. Kærunefndin áleit að seljandi bæri skylda til þess að lagfæra flatskjáinn þar sem ekki væru liðin nema rúm tvö ár frá því að kaupin fóru fram.
Mál nr. 96/2009
Kaup á farsíma. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýjan farsíma. Eftir stuttan notkunartíma hefði komið í ljós að hleðsla rafhlöðu entist mjög skammt. Við skoðun á viðgerðarverkstæði hefði komið í ljós að þetta stafaði af því að bleyta hefði komist í símann. Álitsbeiðandi taldi að það gæti ekki hafa gerst eftir að síminn komst í hans eigu. Kærunefndin taldi hins vegar að svo miklar líkur stæðu til þess að ekki væri hægt að byggja á því að síminn hefði verið haldinn galla þegar hann var afhentur. Kröfu álitsbeiðanda um að fá nýjan síma eða kaupverð endurgreitt var því hafnað.
Mál nr. 95/2009
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið af einstaklingi. Þegar bifreiðin var rúmlega þriggja ára gömul bilaði sjálfskipting hennar og fleira taldi álitsbeiðandi vera að bifreiðinni. Þá hafði bifreiðinni verið ekið 62.000 km. Álitsbeiðandi beindi þeirri kröfu að innflytjanda bifreiðarinnar að hann greiddi kostnað við viðgerðir á göllunum. Kærunefndin taldi að kærufrestur álitsbeiðanda væri ekki liðinn að því er varðaði sjálfskiptinguna, sbr. 2. málslið 2. mgr.27. gr. laga nr. 48/2003, en kærufrestur vegna annarra galla væri liðinn. Innflytjanda bæri því að gera við sjálfskiptinguna álitsbeiðanda að kostnaðarlausu en ekki annað það sem álitsbeiðandi taldi vera að bifreiðinni
Mál nr. 94/2009
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti 10 ára gamla jeppabifreið sem hún taldi vera haldna ýmsum göllum og krafðist riftunar á kaupunum. Kærunefndin taldi að um suma þessara galla hefði álitsbeiðandi vitað eða mátt vita fyrir kaupin og hafnaði riftunarkröfunni. Hins vegar áleit kærunefndin að álitsbeiðandi ætti rétt á afslætti af kaupverði vegna galla sem hefði komið í ljós á hemlabúnaði bifreiðarinnar eftir að kaupin gerðust, en hvorugur aðila hefði vitað um þennan galla.
Mál nr. 93/2009
Tölva. Neytendakaup. Frávísun.
Álitsbeiðandi hafði fyrr beðið um álit vegna viðgerðar á tölvu. Niðurstaða kærunefndarinnar í því máli var sú að álitsbeiðandi ætti ekki rétt að úrbótum af hálfu þess sem framkvæmdi viðgerðina. Hinni nýju beiðni fylgdu gögn um fyrri viðgerðir á tölvunni. Kærunefndin taldi að þau gögn vörðuðu ekki hina umdeildu viðgerð og því stæði fyrra álitið. Beiðninni var vísað frá.
Mál nr. 92/2009
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið árgerð 2005. Í mars 2009 þegar bifreiðinni hafði verið ekið rúma 12 þúsund kílómetra þurfti að skipta um bremsubúnað, „ABS unit“. Kærunefndin áleit að miðað við það hve lítið bifreiðin var ekin hefði mátt ætla að bremsubúnaðurinn entist lengur en raunin varð og því ætti bifreiðaumboðið að greiða kostnað við viðgerðina að fullu.
Mál nr. 91/2009
Kaup á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja tölvu sem hún þurfti ítrekað að láta gera við. Þrátt fyrir þessar viðgerðir sagði álitsbeiðandi tölvuna vera í ólagi en liðið var tæpt ár fá kaupunum. Kærunefndin taldi að gallar á tölvunni væru ekki óverulegir og að álitsbeiðandi ætti rétt á að rifta kaupunum.
Mál nr. 89/2009
Kaup á nýrri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið í desember 2005 sem atvinnutæki. Hann kvartaði sannanlega undan því í desember 2007 að bifreiðin skipti sér treglega úr öðrum gír í þriðja en sjálfskipting var í bifreiðinni. Seljandi sagði að um eðliseiginleika bifreiðarinnar væri að ræða en ekki galla. Álitsbeiðandi kvaðst hafa kvartað oftar en einu sinni við seljanda en við það vildi hann ekki kannast. Í júlí 2009 þurfti að gera við sjálfskiptinguna og vildi seljandi ekki greiða þann kostnað að fullu. Kærunefndin áleit að gallinn sem gert var við í júlí hefði komið fram á tveggja ára ábyrgðartíma bifreiðarinnar. Seljandi hefði þá átt að taka kvörtun álitsbeiðanda til greina lagfæra gallann strax og bæri því að greiða kostnað við júlíviðgerðina að fullu.
Mál nr. 88/2009
Frávísun.
Álitsbeiðandi, sem er fyrirtæki, leitaði til annars fyrirtækis í því skyni að færa forrit úr tölvu í aðra og nýja tölvu. Álitsbeiðandi sagði að sú aðgerð hefði ekki heppnast þrátt fyrir fleiri en eina tilraun. Kærunefndin áleit að þar sem kaupandi þjónustunnar væri atvinnufyrirtæki féllu viðskiptin ekki undir lögin. Af því leiddi að kærunefndin hefði ekki valdheimild til þess að segja álit sitt á viðskiptunum. Því yrði að vísa málinu frá nefndinni.
Mál nr. 87/2009
Viðgerð á bifreið. Tryggingamál. Neytendakaup.
Tryggingafélag álitsbeiðanda lét gera við bifreið hennar í byrjun febrúar 2007 sem hafði verið ekið aftan á bifreið. Skipta þurfti um framljós og að sögn álitsbeiðanda kom móða innan í ljósið veturinn 2008. Í september 2009 kvartaði álitsbeiðandi við tryggingafélagið og verkstæðið þar sem gert hafði verið við bifreiðina. Verkstæðið benti álitsbeiðanda á að kvarta við verslunina þar sem ljósið í bifreiðina hafði verið keypt hvað hún og gerði. Kærunefndin taldi að sú kvörtun hefði ekki verið gerð án ástæðulauss dráttar og hafnaði kröfum álitsbeiðanda á hendur versluninni. Þær kröfur sem álitsbeiðandi gerði á hendur tryggingafélaginu og viðgerðarverkstæðinu taldi kærunefndin ekki á sínu valdsviði að taka afstöðu til og vísaði þeim kröfum frá.
Mál nr. 86/2009
Kaup á nýrri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið á árinu 2005. Eftir rúmlega tveggja ára notkun var vélin í bifreiðinni ónýt og var ný vél sett í hana á kostnað seljanda. Gangtruflanir voru í bifreiðinni og í desember 2008 var svokallaður EGR ventill hreinsaður. Í lok maí 2009 var skipt um ventilinn og krafðist álitsbeiðandi þess að seljandi kostaði þá viðgerð. Kærunefndin áleit að slitið í ventlinum mætti rekja allt til þess að vélin í bifreiðinni hefði ónýst og að seljanda bæri að greiða kostnað við ventilskiptin.
Mál nr. 85/2009
Myndavél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi, sem var á leið til útlanda, keypti myndavél og myndkort í Leifsstöð. Hann kvað myndavélina hafa verið gallaða því að ekki hefði verið hægt að kveikja á henni og krafði seljanda um nýja myndavél. Álitsbeiðandi kvaðst hafa týnt myndkortinu þannig að ekki var hægt að ganga úr skugga um hvort hún hefði verið notuð. Í ljós kom að móðurborð í myndvélinni var ónýtt og hélt seljandi því fram að það stafaði af því að myndavélin hefði orðið fyrir höggi. Þar sem ákomur á myndvélinni bentu til þess að hún hefði orðið fyrir hnjaski taldi kærunefndin ekki forsendur fyrir því að álitsbeiðandi fengi nýja myndavél.
Mál nr. 84/2009
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti sjö ára gamlan jeppa sem ekið hafi verið 60.000 km. Hann taldi að leyndir gallar hefðu verið á bifreiðinni þegar kaupin fóru fram og krafðist bóta af seljanda. Kærunefndi taldi ósannað að svo hefði verið og hafnaði kröfum álitsbeiðanda.
Mál nr. 82/2009
Flísalagnir. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi samdi við fyrirtæki um að leggja flísar á baðherbergi og undirbjó fyrirtækið verkið. Áður en að sjálfri flísalögninni kom rifti álitsbeiðandi samningnum. Fyrirtækið gerði álitsbeiðanda reikning fyrir undirbúningsvinnuna sem hann vildi ekki greiða eða þá ekki nema að hluta. Kærunefndin taldi álitsbeiðanda skylt að greiða fyrir vinnuna en lægri fjárhæð en fyrirtækið hafði sett upp.
Mál nr. 81/2009
Kaup á notaðri bifreið á nauðungaruppboði. Neytendakaupalög.
Álitsbeiðandi keypti bifreið á nauðungaruppboði sem í auglýsingu um uppboðið var sögð var vera af ákveðinni undirtegund. Eftir að álitsbeiðandi hafði greitt uppboðsverðið og fengið umráð bifreiðarinnar kvaðst hann hafa komist að raun um að undirtegund bifreiðarinnar væri önnur en auglýst hafði verið. Krafðist hann þess að sýslumaður féllist á riftun kaupanna en sýslumaður neitaði, m.a. á þeim forsendum að uppboðsandvirðið hefði verið greitt þeim sem uppboðsins krafðist. Í gögnum sem álitsbeiðninni fylgdu var vottorð framleiðanda bifreiðarinnar um að bifreiðin hefði verið framleidd af þeirri undirtegund sem álitsbeiðandi sagði hana vera. Kærunefndin taldi að valdsvið hennar næði ekki til þess að taka afstöðu til þess hvort ákvæði gjaldþrotaskiptalaga kæmu í veg fyrir að riftunarkrafa gæti náð fram að ganga. Nefndin taldi hins vegar álitsbeiðanda eiga rétt til þess að fá álit nefndarinnar á því hvort hann ætti rétt á að rifta kaupunum væri einvörðungu litið til ákvæða laga nr. 48/2003. Niðurstaða nefndarinnar var sú að röng tilgreining á undirtegund bifreiðarinnar væri ekki óverulegur galli sem leiddi til þess að álitsbeiðandi ætti rétt á því að rifta kaupunum samkvæmt ákvæðum neytendakaupalaga.
Mál nr. 80/2009
Viðgerð á bílmótor. Þjónustukaup.
Vélaverkstæði hafi tekið upp úrbræddan mótor í bifreið sem síðar var seld. Nýi kaupandinn varð fljótlega var við bank í mótornum og voru miklar líkur á því að það stafaði af því að ekki hefði verið nægilega vandað til viðgerðar á mótornum og ending hennar ekki í samræmi við það sem við hefði mátt búast. Kærunefndin taldi að vélaverkstæðið ætti að gera við mótor bifreiðarinnar í samræmi við ákvæði þjónustukaupalaga þannig að endingin yrði eins og við mætti búast miðað við aldur og notkun bifreiðarinnar.
Kaup á DAB dælu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti svokallaða DAB dælu sem notuð er til þess að dæla skolpi úr salerni sem stendur lægra en frárennslislögn. Dælan gaf sig eftir nokkra notkun. Kærunefndin taldi ástæðuna vera þá að eitthvað það hefði verið sett í salernið sem skemmt hefði dælubúnaðinn. Á því bæri seljandi ekki ábyrgð og var því kröfum álitsbeiðanda hafnað.
Mál nr. 78/2009
Kaup á notuðu mótorhjóli. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notað mótorhjól og eftir nokkurn tíma heyrðist eitthvert hljóð koma frá mótor hjólsins. Aðilar urðu sammála um að leita til ákveðins verkstæðis til þess að skoða af hverju hljóðið stafaði. Eftir mikla vinnu og skipti á einstökum hlutum var mótor hjólsins lagfærður að þessu leyti. Kærunefndin áleit að um leyndan galla hefði verið að ræða sem seljandi bæri ábyrgð á. Kostnaður við viðgerðina hefði farið fram úr hófi en álitsbeiðandi, sem eigandi mótorhjólsins, hefði átt að hafa taumhald á honum. Seljanda bæri því ekki að greiða allan viðgerðarkostnaðinn heldur hluta hans.
Mál nr. 77/2009
Kaup á nýrri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið, svokallaða eftirársbifreið. Ljós í mælaborði sýndu einhverja bilun sem seljandi reyndi þrívegis að gera við og tókst að lokum. Kærunefndin taldi að ekki væru forsendur til þess að líta svo á að vegna þessarar bilunar ætti álitsbeiðandi rétt á því að fá nýja bifreið afhenta eins og hann krafðist og hafnaði þeirri kröfu hans, en taldi að hann ætti rétt á bótum fyrir þau óþægindi sem hann hefði orðið fyrir vegna viðgerðarinnar.
Mál nr. 76/2009
Rafhlaða í tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti fartölvu af fyrirtæki sem síðar varð gjaldþrota. Rafhlaðan bilaði og gerði álitsbeiðandi kröfu til þess að fyrirtæki sem keypt hafði vörubirgðir hins gjaldþrota fyrirtækis legði sér til nýja rafhlöðu sem fyrirtækið neitaði að gera. Kærunefndin taldi ekki skilyrði til þess að leggja þessa skyldu á fyrirtækið og hafnaði kröfu álitsbeiðanda.
Mál nr. 75/2009
Rafhlaða í tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti fartölvu og bilaði rafhlaðan eftir tæplega tveggja ára notkun tölvunnar. Kærunefndin áleit að seljanda bæri að leggja álitsbeiðanda til nýja rafhlöðu í tölvuna.
Mál nr. 74/2009
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið. Ljós í mælaborði sýndi bilun í loftpúðum og fleiri galla taldi álitsbeiðandi vera á bifreiðinni. Kærunefndin féllst á að bifreiðin væri haldin göllum en ekki svo miklum að álitsbeiðandi ætti rétt á að rifta kaupunum. Hins vegar taldi kærunefndin að seljanda bæri að bæta álitsbeiðanda þá galla sem bifreiðin væri haldin.
Mál nr. 73/2009
Kaup á ísskáp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp og kom galli tvívegis fram í honum. Álitsbeiðandi gerði kröfu til þess að seljandi legði honum til nýjan ísskáp sem hann hafnaði. Seljandi hafði gert við fyrri gallann en ekki hinn síðari og var ísskápurinn í vörslum álitsbeiðanda. Kærunefndin lagði fyrir seljanda að gera við ísskápinn álitsbeiðanda að kostnaðarlausu. Tækist sú viðgerð ekki bæri seljanda að leggja álitsbeiðanda til sams konar eða sambærilegan ísskáp.
Mál nr. 72/2009
Stígvél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti stígvél á útsölu. Álitsbeiðandi sagði að sokkar lituðust af stígvélunum innanverðum. Við skoðun kom fram að efnið sem innan í þeim er gaf frá sér svolítinn lit. Kærunefndin áleit þó að ekki væri um það mikinn galla að ræða að álitsbeiðandi ætti rétt á að rifta kaupunum en hins vegar ætti hún rétt á afslætti af kaupverði.
Mál nr. 71/2009
Kaup á skjávarpa. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti skjávarpa sem reyndist gallaður og krafðist hann rifturnar á kaupunum. Kærunefndin hafði komist að þeirri niðurstöðu í áliti frá 18. ágúst 2009 að álitsbeiðandi ætti ekki rétt á því að rifta kaupunum skilaði seljandi honum skjávarpanum í fullkomnu lagi fyrir ákveðinn tíma. Álitsbeiðandi taldi að það hefði seljandi ekki gert því að skjávarpinn hefði bilað skömmu eftir að seljandi hefði skilað honum úr viðgerð. Kærunefndin taldi að í viðskiptum aðila hefðu komið fram þeir gallar á söluhlutnum að álitsbeiðandi ætti nú rétt á að rifta kaupunum og fá kaupverðið endurgreitt.
Mál nr. 70/2009
Kaup á húðendurnýjunartæki. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi, sem er atvinnufyrirtæki, keypti húðendurnýjunartæki 12. apríl 2007. Galli kom fram á tækinu á árinu 2008 sem gert var við. Kærunefndin áleit að seljandi ætti að bera kostnað af þeirri viðgerð. Álitsbeiðandi kvartaði á nýjan leik undan galla á tækinu 4. maí 2009. Kærunefndin taldi að ekki væri um sama galla að ræða og í fyrra skiptið. Þar sem 2 ár hefðu verið liðin frá kaupunum þegar undan gallanum var kvartað bæri seljandi ekki ábyrgð á honum.
Mál nr. 69/2009
Kaup á fartölvu. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja fartölvu á tilboðsverði. Hann sagði að tölvan svaraði ekki þeirri lýsingu sem sér hefði verið gefin á henni við kaupin að því er tvö atriði varðaði og viðurkenndi seljandi að svo hefði verið með annað atriðið en ekki hitt. Álitsbeiðandi krafðist þess að fá nýja sams konar tölvu í staðinn fyrir þá sem hann keypti. Kærunefndin féllst ekki á að hann ætti rétt á því en hins vegar ætti hann rétt á afslætti af kaupverðinu.
Mál nr. 68/2009
Kaup á nýju mótorhjóli. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýtt mótorhjól. Ýmiss konar gallar komu fram í mótorhjólinu að hans dómi og krafðist hann riftunar á kaupunum. Kærunefndin taldi þessa galla verulega og féllst á riftunarkröfu álitsbeiðanda.
Mál nr. 67/2009
Viðgerð á fartölvu. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi hafði fengið stækkaðan harðan disk í 4-5 ára gamalli fartölvu. Hann taldi að við þá framkvæmd hefði tölvan bilað og gerði ýmiss konar kröfur á hendur þjónustuaðilanum af þeim ástæðum. Kærunefndin taldi ósannað að bilunina mætti rekja til stækkunar á harða disknum og hafnaði kröfum álitsbeiðanda.
Mál nr. 66/2009
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið, tæplega níu ára. Nokkru eftir kaupin sagði hann leyndan galla á bifreiðinni hafa komið í ljós og krafðist þess að seljandi tæki þátt í viðgerðarkostnaði. Kærunefndin taldi ósannað að um leyndan galla hefði verið að ræða og álitsbeiðandi hefði mátt búast við því að bilanir eins og hann lýsti kæmu fram í bifreið á þessum aldri. Kröfu álitsbeiðanda var því hafnað.
Mál nr. 65/2009
Hanskar. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sér mótorhjólahanska. Hann kvað hafa komið í ljóst að saumspretta hefði verið á einni fingurtotunni. Seljandi kannaðist ekki við að svo hefði verið þegar álitsbeiðandi fékk hanskana. Við skoðun sást saumsprettan og hanskarnir báru þess ekki merki að hafa verið notaðir. Kærunefndin áleit að um galla væri að ræða sem heimuluðu álitsbeiðanda riftun á kaupunum.
Mál nr. 63/2009
Garðvinna. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi (húsfélag) gerði samning við fyrirtæki um garðslátt sem hann taldi sig hafa sagt upp símleiðis árið 2008. Fyrirtækið hóf slátt hjá húsfélaginu vorið 2009 en starfsmaðurinn var beðinn um að hætta slætti þar sem samningnum hefði verið sagt upp. Fyrirtækið sendi reikning fyrir þessum slætti. Kvaðst það hafa sent húsfélaginu bréf vorið 2009 um að það myndi halda garðslættinum áfram um sumarið léti húsfélagið ekki vita af því að ekki væri óskað eftir þeirri þjónustu. Þar sem það hefði ekki verið gert væri samningur um garðsláttinn í gildi. Kærunefndin áleit að með forsögu samskipta aðila í huga hefði fyrirtækið átt í samræmi við góða viðskiptahætti að leita eftir samþykki eða synjun húsfélagsins með beinu og ótvíræðu svari. Þar sem það hefði ekki verið gert bæri húsfélaginu ekki skylda til að greiða umkrafinn reikning.
Mál nr. 62/2009
Kaup á flugfarmiðum. Frávísun.
Álitsbeiðandi festi kaup á farseðlum með flugfélagi. Flugfélagið endurgreiddi farseðilinn inn á kreditkort fyrrverandi eiginkonu álitsbeiðanda. Þegar álitsbeiðandi komst að því krafði hann flugfélagið um endurgreiðslu farseðilsins sem félagið neitaði. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að þessi ágreiningur ætti ekki undir hana samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 42/2000 og vísaði málinu frá.
Mál nr. 61/2009
Kaup á útsölu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti peysu á útsölu og átti verð hennar að vera 50% lægra en auglýst verð sem álitsbeiðandi sagði hafa verið kr. 14.990 og verðið því kr. 7.495. Álitsbeiðandi greiddi hins vegar kr. 9.495 eða helming af kr. 18.990. Álitsbeiðandi óskaði eftir því að fá endurgreiddar kr. 2.000 sem álitsbeiðandi hafnaði á þeim forsendum að verðið á peysunni hefði verið hækkað. Seljandi skilaði kærunefndinni ekki andsvörum og byggði nefndin á því að auglýst verð á peysunni hefði verið kr. 14.990 og ætti álitsbeiðandi því rétt á að fá kr. 2.000 endurgreiddar.
Mál nr. 60/2009
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti árið 2009 notaða bifreið af árgerð 1998. Var honum sagt við kaupin að olía smitaðist frá vél bifreiðarinnar vegna lélegrar viðgerðar á pönnu. Þegar álitsbeiðandi ætlaði að láta gera við olíusmitið kom í ljós að gat var á vél bifreiðarinnar sem steypt hafði verið fyrir og kíttað yfir. Kærunefndin taldi að um galla væri að ræða á bifreiðinni sem seljandi hefði átt að skýra kaupanda frá sem hann hefði ekki gert og áleit að álitsbeiðandi ætti rétt á að rifta kaupunum.
Mál nr. 59/2009
Kaup á vespu. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti vespu sem hann taldi gallaða. Innflytjandi gerði við þá galla sem álitsbeiðandi taldi fyrst vera á vespunni. Bilun kom tæpu ári seinna fram í kúplingu vespunnar en henni hafði álitsbeiðandi látið breyta til að auka afl vespunnar og sagði innflytjandinn bilun í kúplingunni stafa af þeirri breytingu. Því mótmælti álitsbeiðandi ekki og féllst kærunefndin á það að innflytjandinn, sem gerði við kúplinguna, ætti rétt á því að fá greitt fyrir viðgerðina þá fjárhæð sem hann hafi sett upp á sínum tíma en álitsbeiðandi þá neitað að greiða. Álitsbeiðandi kvað næst eitthvað hafa bilað í rafkerfi vespunnar en til þess að ganga úr skugga um það þyrfti að fá lánaða varahluti hjá innflytjandanum sem hann hefði neitað að lána. Við það kannaðist innflytjandinn ekki. Kærunefndin taldi innflytjanda skylt að láta fara fram nauðsynlegar athuganir á vespu álitsbeiðanda að honum viðstöddum í því skyni að ganga úr skugga um af hverju bilunin stafaði.
Mál nr. 58/2009
Pípulagnir. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi réði fyrirtæki til að annast ákveðnar pípulagnir í húsi sínu og taldi að samið hefði verið um ákveðið verð fyrir þá vinnu. Fyrirtækið gerði álitsbeiðanda reikning fyrir vinnu og efni til verksins sem var töluvert hærri en álitsbeiðandi taldi að um hefði verið samið. Kærunefndin áleit að ekki væri í ljós leitt að samningar hefðu náðst um ákveðið verð og bæri álitsbeiðanda því að greiða reikninginn en hann yrði ekki talinn ósanngjarn að undanskildum vinnulið sem ætti að lækka.
Mál nr. 57/2009
Viðgerð á fjölbýlishúsi. Þjónustukaup.
Dómsmál var höfðað vegna sama ágreiningsefnis og beðið var um álit á. Málinu var vísað frá kærunefndinni samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006.
Mál nr. 56/2009
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið árgerð 2004 af bifreiðaumboði í apríl 2008. Í byrjun árs 2009 sagði álitsbeiðandi útvarpið hafa bilað. Seljandi gerði við útvarpið og gaf álitsbeiðanda afslátt af viðgerðarreikningi. Álitsbeiðandi gerði kröfu til þess að seljandi tæki á sig viðgerðarkostnaðinn að fullu. Kærunefndin áleit að bifreiðin hefði verið komin á þann aldur að álitsbeiðandi hefði mátt búast við því að bilunar sem þessarar yrði vart og ekki væri hægt að líta svo á að 5 ára kvörtunarfresti, sbr. ákvæði 27. gr. laga nr. 48/2003, yrði beitt í þessu tilviki. Fram kom hjá álitsbeiðanda síðast undir rekstri málsins að seljandi hefði leynt sig því við kaupin að um svokallaða tjónabifreið væri að ræða. Kærunefndin taldi útilokað að hún gæti við afgreiðslu málsins tekið afstöðu til ágreinings sem af því kynni að rísa, eða í ljós hefði verið leitt að slíkt tjón hefði haft áhrif á endingu útvarpsins.
Mál nr. 54/2009
Garðvinna. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi réði fyrirtæki til ákveðinnar garðvinnu en taldi að reikningur fyrir vinnuna væri óeðlilega hár. Greiddi álitsbeiðandi fyrirtækinu sem svaraði rúmum þriðjungi af reikningsfjárhæðinni. Kærunefndin taldi að fyrirtækinu bæri að lækka reikning sinn nokkuð, en féllst ekki á að álitsbeiðandi hefði þegar greitt fyrir vinnuna.
Mál nr. 53/2009
Kaup á farsíma. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti farsíma sem reyndist vera gallaður. Seljandi skipti símanum fimm sinnum fyrir annan síma. Ágreiningur var á milli aðila um það hvort síðasti síminn sem álitsbeiðandi fékk væri gallaður eða ekki en seljandi sagði að ekki hefði enn verið gengið úr skugga um það. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti rétt á að rifta kaupunum og fá kaupverðið endurgreitt. Þá áleit kærunefndin að álitsbeiðandi ætti í þessu tilviki rétt á að fá greiddar skaðabætur vegna þeirra óþæginda sem hún hefði orðið fyrir í viðskiptunum við seljanda.
Mál nr. 52/2009
Kaup á hlífðarbuxum. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti hlífðarbuxur til að nota í ákveðinni gönguferð. Seljandi sagði honum að buxurnar hentuðu vel til þeirra nota. Eftir gönguferðina voru buxurnar orðnar snjáðar á skálmum innanverðum og höfðu þannig ekki reynst sem skyldi. Álitsbeiðandi vildi fá aðrar buxur í staðinn sem seljandi hafnaði. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti rétt á því þar sem að seljandi hefði vitað um fyrirhuguð not af buxunum sem þær hefðu ekki hentað til.
Mál nr. 51/2009
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi festi kaup á notaðri bifreið í febrúar 2009. Bifreiðin var sögð af árgerð 2003 en reyndist vera af árgerð 2001. Þá hafði bifreiðin lent í tjóni í flóði án þess að frá því væri greint við kaupin. Álitsbeiðandi taldi verulega galla vera á bifreiðinni og krafðist þess að kaupunum yrði rift, kaupverðið endurgreitt og að hann fengi skaðabætur fyrir útlagðan kostnað vegna bifreiðarinnar. Kærunefndin féllst á nær allar kröfur álitsbeiðanda.
Mál nr. 50/2009
Kaup á skjávarpa. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti skjávarpa sem bilaði tvisvar. Skjávarpinn var til viðgerðar þegar beiðni um álit barst kærunefndinni og taldi seljandi að henni ætti að vera lokið. Kærunefndin féllst ekki á kröfu álitsbeiðanda um riftun en hann hafði sjálfur beðið um að gert yrði við skjávarpann. Kærunefndin áleit að seljandi ætti að koma skjávarpanum í fullkomnu lagi í hendur álitsbeiðanda. Gerði hann það ekki ætti álitsbeiðandi rétt á að rifta kaupunum.
Mál nr. 49/2009
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi festi kaup á notaðri bifreið með þeim hætti að fjármögnunarfélag lánaði fyrir kaupverðinu og var skráður eigandi bifreiðarinnar. Álistbeiðandi var skráður umráðamaður. Kærunefndi taldi að engu að síður gæti álitsbeiðandi leitað álits nefndarinnar. Bifreiðin hafi verið í eigu álitsbeiðanda í 16 mánuði og verið ekið í þann tíma um 40.000 km þegar bilun varð í raf- og tölvukerfi hennar. Kærunefndin áleit að ekki væri hægt að líta svo á að við kaupin hefði verið leyndur galli á bifreiðinni að þessu leyti og hafnaði kröfum álitsbeiðanda um úrbætur seljanda.
Mál nr. 47/2009
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi festi kaup á ársgamalli bifreið, ekinni 20.000 km. Álitsbeiðandi taldi bifreiðina vera haldna margvíslegum göllum sem seljanda bæri að bæta úr. Kærunefndin féllst á þá kröfu álitsbeiðanda að verulegu leyti.
Mál nr. 46/2009
Kaup á ísskáp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp um mitt ár 2004. Í byrjun árs 2008 bilaði ísskápurinn og var metinn ónýtur. Álitsbeiðandi krafðist riftunar á kaupunum og féllst kærunefndin á þá kröfu. Við mat á því hvaða fjárhæð seljanda bæri að endurgreiða var tekið tillit til þess hver not álitsbeiðandi hafði haft af ísskápnum.
Mál nr. 45/2009
Kaup á sjónvarpi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp með plasma skjá árið 2006. Eftir 7 mánaða notkun bilaði sjónvarpið með þeim hætti að ákveðin mynd festist á skjánum (phosphor burn in). Í notkunarleiðbeiningum var sérstaklega varað við því að þetta gæti gerst við ákveðna notkun sjónvarpsins. Kærunefndin taldi að bilunina mætti rekja til aðstæðan sem álitsbeiðanda sjálfan varðaði og hafnaði því kröfu hans um að seljandi greiddi viðgerð á sjónvarpstækinu.
Mál nr. 44/2009
Kaup á ísskáp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp í lok árs 2006. Eftir tveggja og hálfs árs notkun bilaði ísskápurinn og var viðgerð á honum talin mjög kostnaðarsöm. Af þeim sökum taldi kærunefndin að álitsbeiðandi ætti ekki rétt á því að seljandi gerði við ísskápinn á sinn kostnað eins og hann gerði kröfu til. Hins vegar ætti álitsbeiðandi rétt á skaðabótum úr hendi seljanda sem metnar voru með tilliti til þess hver not hann hafði haft af ísskápnum.
Mál nr. 43/2009
Kaup á síma. Neytendakaup.
Álitbeiðandi keypti síma og sagði að hann hefði tvívegis þurft að fá honum skipt út vegna galla. Hefðu þeir símar sem hann hefði fengið í skiptum einnig verið gallaðir. Álitsbeiðandi krafðist riftunar á kaupunum og féllst seljandi á það. Álitsbeiðandi hafði fengið fría áskrift hjá seljanda í eitt ár og verðmæti hennar sagði seljandi nema kaupverði símans. Taldi seljandi að hann ætti ekki að endurgreiða álitsbeiðanda vegna þessarar fríu áskriftar sem hann gæti skuldajafnað við kaupverð símans. Kærunefndin taldi að seljandi ætti að endurgreiða hluta af kaupverðinu en hluti þess yrði að teljast hæfilegt gjald fyrir afnot álitsbeiðanda af símanum.
Mál nr. 42/2009
Kaup á bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti bifreið í febrúar 2008 af árgerð 2006 sem þá hafði verið ekið 45.500 km. Skipt hafi verið um alla dempara bifreiðarinnar í maí og júlí 2007 á eignartíma fyrri eiganda sem keypt hafði bifreiðina af bifreiðaumboðinu og á kostnað þess. Þá hafi bifreiðinni verið ekið rúmlega 30.000 km. Í apríl 2008 voru dempararnir metnir ónýtir og krafðist álitsbeiðandi þess að bifreiðaumboðið skipti um dempara á sinn kostnað. Umboðið bar fyrir sig að notkun bifreiðarinnar hefði leitt til þess að dempararnir entust svo stutt og neitaði að skipta um þá á eigin kostnað en bauð 30% afslátt af verði nýrra dempara. Kærunefndin féllst á röksemdir umboðsins og hafnaði kröfum álitsbeiðanda. Kærunefndin benti hins vegar á að álitsbeiðandi kynni að eiga kröfu á hendur þeim sem seldi henni bifreiðina.
Mál nr. 39/2009
Lakkskemmd á bifreið. Neytendakaup.
Lakkskemmd kom fram á afturhlera á fjögurra ára bifreið sem álitsbeiðandi hafði keypt notaða af bifreiðaumboði. Ekki varð séð að skemmdin stafaði af utan að komandi atvikum af málmtæringu. Lakk á bifreiðinni var í góðu ástandi að öðru leyti. Bifreiðaumboðið taldi að það bæri ekki lengur ábyrgð á lakkskemmdum af þessu tagi. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að hér væri um galla að ræða sem umboðinu bæri að bæta úr og vísaði, að því er kvörtunarfrest varðaði, til fimm ára reglunnar í 27. gr. laga nr. 48/2003.
Mál nr. 38/2009
Kaup á sturtuhorni. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sturtuhorn sem samkvæmt reikningi fyrir kaupunum var 75x75 cm. Honum hafði verið ráðlagt að sögn seljanda að kaupa stærra sturtuhorn en ekki farið að þeim ráðleggingum. Álitsbeiðandi taldi að sturtuhornið væri ekki nema 73x73 cm og krafðist þess að fá í staðinn sturtuhorn sem væri 75x75 cm. Seljandi benti á að hægt væri að stækka og minnka sturtuhornið og stæðist það málið 75x75 cm eins og fram kæmi í auglýsingum frá versluninni en þar væri ekki að finna sturtuhorn af stærðinni 73x73. Seljandi taldi sig ekki geta tekið við sturtuhorninu þar sem það hefði verið tekið úr umbúðunum og væri ekki hæft til endursölu. Kærunefndi áleit að seljandi hefði afgreitt vöru sem beðið hefði verið um og ekki hefði skort á upplýsingar af hans hálfu. Var því hafnað kröfu álitsbeiðanda um að fá að skila söluhlutnum og að fá nýjan í staðinn.
Mál nr. 37/2009
Gölluð útidyrahurð. Fasteignakaup. Frávísun
Álitsbeiðandi keypti raðhús tilbúið til innréttingar. Hann taldi útidyrahurðina vera gallaða. Kærunefndin taldi að ágreiningur vegna þessa heyrði undir lög nr. 40/2002 um fasteignakaup og væri því utan valdsviðs hennar að gefa álit á honum.
Mál nr. 36/2009
Kaup á farseðlum. Frávísun.
Álitsbeiðandi festi kaup á farseðlum með flugfélagi. Fyrri miðann keypti hann að kvöldi dags en síðan bilaði bókunarkerfið flugfélagsins. Þegar hann ætlaði að kaupa síðari miðann morguninn eftir hafði hann hækkað í verði, en álitsbeiðandi varð að kaupa miðann engu að síður. Álitsbeiðandi krafðist þess að flugfélagið greiddi sér hækkunina en félagið féllst ekki á að greiða nema helming hennar. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að þessi ágreiningur ætti ekki undir hana samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 42/2000 og vísaði málinu frá.
Mál nr. 35/2009
Kaup á skrúfu í bát. Lausafjárkaup.
Útgerðarfyrirtæki keypti skrúfu í bát sem varð ónothæf eftir tæplega tveggja ára notkun. Kærunefndin taldi að það væri vegna galla í skrúfunni en ekki hefði verið leitt í ljós að um óhappatilvik væri að ræða. Þá var ekki leitt í ljós að sérstaklega hefði verið samið um ábyrgð seljanda á skrúfunni og færi því um hana samkvæmt ákvæðum 32. gr. laga nr. 50/2000. Seljanda var gert að leggja fyrirtækinu til nýja sams konar skrúfu í bátinn.
Mál nr. 34/2009
Kaup á verksmiðjuframleiddu húsi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi pantaði verksmiðjuframleitt hús hjá hérlendum umboðsmanni kanadískrar verksmiðju. Hann greiddi fyrirfram hluta kaupverðsins og þóknun til umboðsmanns. Síðar sömdu álitsbeiðandi og umboðsmaðurinn um að kaupin gengju til baka að ósk álitsbeiðanda. Endurgreiddi umboðsaðilinn það sem álitsbeiðandi hafði greitt af húsverðinu að undanskildu staðfestingargjaldi til verksmiðjunnar sem samkvæmt samning var óafturkræft og þóknun til umboðsaðila. Álitsbeiðandi hafði samþykkt í tölvupósti að umboðsaðili héldi þóknun sinni. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti ekki rétt á því að fá staðfestingargjaldið og þóknun umboðsaðila endurgreidda.
Mál nr. 33/2009
Kaup á notuðum pallbíl. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaðan pallbíl. Níu mánuðum eftir kaupin kvaðst hann hafa komist að því að bíllinn bæri ekki þá þyngd sem skráð væri í skoðunarvottorð og munaði þar tæpum 700 kílóum. Krafist hann riftunar á kaupunum sem kærunefndin féllst á að hann ætti rétt til. Álitsbeiðandi hafði greitt kaupverðið með yfirtöku láns sem á bílnum hvíldi og vildi hann að seljandi yfirtæki það. Á það féllst kærunefndin ekki heldur yrði álitsbeiðandi að aflétta láninu af bílnum en seljandi að endurgreiða kaupverðið með vöxtum frá kaupdegi. Þá var álitsbeiðanda gert að greiða fyrir þau afnot sem hann hafði haft af bifreiðinni.
Mál nr. 32/2009
Kaup á heimilistækjum. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp og fleiri heimilistæki í ágúst 2006. Bilun gerði vart við sig í tækjunum hvað eftir annað að sögn álitsbeiðanda, síðast í árslok 2008. Kærunefndin taldi að kvörtunarfrestur álitsbeiðanda væri 5 ár samkvæmt 2. mgr. 27. gr. neytendakaupalaga og að hann hefði kvartað í tæka tíð. Kærunefndin lagði fyrir seljanda að koma tækjunum í lag og áleit að 5 ábyrgð á viðgerð á göllum og varahluti byrjaði að líða frá viðgerðinni yrði leitt í ljós að viðgerðinni hefði verið ábótavant eða varahlutir gallaðir. Þá áleit kærunefndin að álitsbeiðandi ætti rétt á bótum fyrir skemmdir á matvælum og mat þær að álitum.
Mál nr. 30/2009
Símareikningur. Frávísun.
Álitsbeiðanda var gerður reikningur fyrir sendingu SMS skilaboða sem hann kvaðst aldrei hafa sent og vildi hann fá reikninginn endurgreiddan. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að þessi ágreiningur ætti ekki undir hana samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 42/2000 og vísaði málinu frá samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006.
Mál nr. 28/2009
Kaup á blöndunartækjum. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti blöndunartæki í baðkar ásamt sturtuhaus. Eftir tæplega 10 mánaða notkun fór í sundur skrúfa sem sturtuhausinn var festur með og féll hann í botn baðkersins og skemmdi það. Kærunefndin áleit að sturtuhausinn hefði verið gallaður og heimilaði riftun á kaupunum. Hins vegar féllst nefndin ekki á þá kröfu álitsbeiðanda að seljanda bæri að leggja til nýtt baðkar og koma því fyrir, en ákvað álitsbeiðanda bætur fyrir skemmdirnar á kerinu.
Mál nr. 27/2009
Kaup á parketi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti parket sem leggja átti ofan á hitamottu í gólfi. Kvaðst hún hafa sérstaklega getið þess við seljandann að þetta stæði til og hafi hann sagt að það myndi parketið þola. Þegar til kom reyndist parketið vinda sig og gliðna. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að parketið hefði verið of rakt þegar það var lagt og seljanda gert að leggja álitsbeiðanda til nýtt parket auk þess að greiða fyrir rif á gamla parketinu og því sem undir parketinu var og kostnað við að leggja nýtt.
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið. Ekki var upplýst hvernig skoðun hans á bifreiðinni fyrir kaupin hefði verið en seljanda lýsti bifreiðinni stuttlega á netinu. Rétt eftir að kaupin fóru fram lét álitsbeiðandi skoða bifreiðina á verkstæði. Við þá skoðun komu í ljós margvíslegir galla á bifreiðinni, sumir alvarlegir, og var það niðurstaða nefndarinnar að álitsbeiðandi myndi ekki hafa séð alla þá galla við venjulega skoðun kaupanda. Kærunefndin taldi bifreiðina haldna verulegum göllum og að álitsbeiðandi ætti rétt á að rifta kaupunum og fá til baka þá bifreið sem hann hafði látið ganga upp í kaupverðið.
Mál nr. 25/2009
Kaup á parketi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti parket sem hann lagði á hús sitt. Hann taldi parketið haldið þeim galla að á því væri ekki það lakk sem seljandi hefði fullyrt og auglýst að væri. Kærunefndin taldi parketið gallað og áleit að seljandi ætti að leggja álitsbeiðanda til nýtt, ógallað parket auk þess sem hann ætti að greiða honum kostnað við að fjarlægja gamla parketið og leggja nýtt.
Mál nr. 24/2009
Viðgerð á húsi. Þjónustukaup. Frávísun.
Húsfélag bað um álit á viðskiptum við fyrirtæki sem hafði annast viðgerðir á húsinu utanverðu. Undir rekstri málsins höfðaði viðgerðarfyrirtækið mál á hendur fyrirtækinu og var um sama sakarefni að ræða og kærunefndin hafði verið beðin um álit á. Kærunefndin vísaði málinu frá samkvæmt 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006.
Mál nr. 23/2009
Viðgerð á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvu sem bilaði eftir rúmlega ársnotkun. Tölvan bilaði á nýjan leik 16 mánuðum síðar. Ekki var upplýst við hvað hafði verið gert í fyrra skiptið og því ekki ljóst hvort um bilun á sama hlut í tölvunni var að ræða. Kærunefndin taldi að líta yrði svo á að í þessu tilviki væri kvörtunarfrestur álitsbeiðanda ekki liðinn og því bæri seljanda að gera við tölvuna álitsbeiðanda að kostnaðarlausu.
Mál nr. 21/2009
Frávísun.
Kærunefndin óskaði eftir gögnum frá álitsbeiðanda. Hann hvorki sendi gögnin né hafði sambandi við kærunefndina. Álitsbeiðninni var vísað frá nefndinni samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 766/2007.
Mál nr. 20/2009.
Kaup á bifreið. Neytendakaup. Sératkvæði
Álitsbeiðandi keypti sér nýja bifreið og var honum tjáð af sölumanni að eyðsla hennar væri 9 lítrar á hundrað kílómetra í langakstri en 12 í innanbæjarakstri. Álitsbeiðandi sagði þessar upplýsingar hafa verið forsendur þess að hann keypti bifreiðina. Hægt var að sýna fram á að með mælingum og akstri í tvö skipti að eyðslan væri nálægt því sem upp var gefið. Álitsbeiðandi mældi sjálfur eyðslu bifreiðarinnar í samfellt á í nær 17 mánuði og í innanbæjarakstri reyndist eyðslan nema 14,34 lítrum á hverja 100 kílómetra en aksturinn nam tæpum 11 þúsund kílómetrum. Þá kom fram í gögnum að seljanda sagði þessa tegund bifreiða vera sérstaklega viðkvæma fyrir ytri áhrifum í akstri sem álitsbeiðanda hafði ekki verið gerð grein fyrir við kaupin eftir því sem best varð séð. Þá sagði álitsbeiðanda að lakkskemmdir hefðu verið að bifreiðinni þegar hann tók við henni og hefði seljandi lofað að laga þær.
Meirihluti nefndarinnar taldi að vegna þess hve mikið eyðslan í innanbæjarakstri hefði farið fram úr því sem seljanda hefði lýst fyrir álitsbeiðanda ætti hann rétt á nokkrum bótum vegna þess að upplýsingarnar hefðu ekki reynst réttar. Eins ætti hann rétt á að seljandi lagfærði þær skemmdir á lakki sem verið hefðu á bifreiðinni við afhendingu, en gögn málsins bentu til þess að seljandi viðurkenndi að um þessar skemmdir hefðu verið á bifreiðinni við afhendingu.
Minnihlutinn taldi að við mælingar á bifreiðinni og akstur seljanda hefði hann sýnt fram á bifreiðin eyddi svipað því sem upp hefði verið gefið og álitsbeiðandi hefði ekki með mælingum sínum á eyðslu sýnt fram á það að bifreiðin væri haldin göllum. Minnihlutinn taldi og að álitsbeiðandi hefði ekki tryggt sér sönnun fyrir því að lakkskemmdir hefðu verið á bifreiðinni og hafnaði öllum kröfum álitsbeiðanda.
Mál nr. 19/2009
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi fór með bifreið sína í viðgerð á verkstæði A vegna bilunar í olíuverki. Farið var með bifreiðina á annað verkstæði B þar sem hægt var að fá ódýrara olíuverk en fyrra verkstæðið gat boðið upp á. Álitsbeiðandi greiddi I síðan viðgerðarreikning og fékk bifreiðina afhenta. Eftir stuttan tíma fór álitsbeiðandi aftur á verkstæði A með bifreiðina vegna þess að hann taldi að olíuverkið væri ekki í lagi. Enn var bifreiðin send á verkstæði B og kom svo þaðan á verkstæði I. Þar fór fram fullnaðarviðgerð á bifreiðinni að dómi I og var álitsbeiðanda sagt að hún væri tilbúin til afhendingar. Þegar til kom náðist ekki samkomulag um hvernig viðgerðarreikningurinn skyldi greiddur og skildi álitsbeiðandi bifreiðina eftir í vörslum I. Eftir þrjá mánuði eða svo var álitsbeiðanda tilkynnt að bifreiðin yrði send í geymslu hjá C sækti álitsbeiðandi hana ekki. Þangað var síðan farið með bifreiðina. Álitsbeiðnin beindist eingöngu að I og taldi kærunefndin að viðgerð og geymsla bifreiðarinnar hefði ekki verið með þeim hætti að álitsbeiðandi ætti rétt til skaðabóta úr hendi I og hafnaði kröfum hans.
Mál nr. 18/2009
Frávísun.
Kærunefndin óskaði eftir gögnum frá álitsbeiðanda. Hann hvorki sendi gögnin né hafði sambandi við kærunefndina. Álitsbeiðninni var vísað frá nefndinni samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 766/2007.
Mál nr. 17/2009
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi fór með bifreið sína í viðgerð vegna bilunar tímareimar. Í ljós kom að fleira þarfnaðist lagfæringar og var álitsbeiðanda smám saman gerð grein fyrir því. Taldi álitsbeiðandi að hefði henni í upphafi verið gerð grein fyrir hve viðamikil viðgerðin yrði hefði hún ekki látið framkvæma hana heldur skipt um vél í bifreiðinni. Álitsbeiðandi greiddi viðgerðarreikninginn. Eftir akstur í rúmt ár bilaði bifreiðin aftur og taldi álitsbeiðandi að orsakir þeirra bilana mætti a.m.k. að hluta rekja til fyrri viðgerðar og krafðist þess aðallega að fá reikning fyrir fyrri viðgerðina endurgreiddan en til vara að verkstæðið kæmi bifreiðinni í fullkomið lag. Kærunefndin taldi óljóst af gögnum málsins hvað þyrfti að gera við bifreiðina og af hverju bilunin stafaði. Ekki væri á færi nefndarinnar að rannsaka það heldur yrði að kveðja til sérstakan sérfræðing. Kærunefndin vísaði því málinu frá sér með heimild í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006.
Sölulaun bílasala. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi óskaði eftir því að bílasala tæki að sér sölu á bifreið sinni. Bílasalan fann kaupanda og voru kaupin nær fullfrágengin þegar álitsbeiðanda snérist hugur og rifti kaupunum. Álitsbeiðandi hafði greitt bílasölunni sölulaunin en krafðist endurgreiðslu þeirra á þeim forsendum að bílasalan hefði sett of lágt verð á bifreið sína og vitað að hærra verð væri hægt að fá. Þetta taldi kærunefndin ósannað og féllst ekki á kröfu álitsbeiðanda að öðru leyti en því að hann ætti að fá afslátt af sölulaununum þar sem eftir hefði verið að ganga frá kaupunum að fullu áður en riftunin átti sér stað.
Mál nr. 15/2009
Skoðun og viðgerð á húsi. Þjónustukaup. Sératkvæði.
Álitsbeiðendur óskuðu eftir því að fyrirtæki skoðaði raka í íbúð þeirra. Myndir voru tvívegis teknar af rakanum með þar til gerðri myndavél. Þegar reikningur frá fyrirtækinu barst álitsbeiðendum þótti þeim kostnaður við myndatökuna vera hátt reiknaður og vildu ekki greiða hann. Fyrirtækið lækkaði reikning sinn um helming og greiddu álitsbeiðendur þá reikninginn með fyrirvara um réttmæti hans. Gerðu þau kröfu um að endurgreiddur yrði sá hluti reikningsins sem var gerður fyrir myndatökuna. Kærunefndin áleit að fyrirtækið ætti rétt á að fá greitt fyrir myndatökuna samkvæmt reikningnum eftir að helmingsafsláttur hafði verið gefinn. Álitsbeiðendur ættu því ekki rétt á að fá endurgreiðslu. Minnihlutinn komst að þeirri niðurstöðu að álitsbeiðendur ætti ekki rétt á endurgreiðslu en á öðrum forsendum en meirihlutinn.
Greiðsla með debetkorti. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti rúm og greiddi fyrir með debetkorti við erlendan banka og fékk kr. 9.000 í afslátt af kaupverðinu vegna þeirrar greiðslu. Fór sú fjárhæð út af reikningi álitsbeiðanda nokkrum dögum seinna. Við afhendingu á rúminu krafðist seljandi þess að álitsbeiðandi greiddi afsláttinn þar sem greiðslan hefði ekki borist frá greiðslukortafyrirtækinu fyrr en mánuði eftir að viðskiptin fóru fram. Álitsbeiðandi greiddi seljanda þá fjárhæð en krafðist endurgreiðslu hennar. Kærunefndin áleit að líta yrði á greiðslu álitsbeiðanda sem staðgreiðslu en það væri á ábyrgð seljanda hvernig samningi hans við greiðslukortafyrirtækið væri háttað, þ.e. hvenær greiðslur bærust frá því til seljanda. Taldi kærunefndin að seljandi ætti að endurgreiða álitsbeiðanda kr. 9.000.
Endurnýjun á baðherbergi. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi lét gera tilboð í endurnýjun á baðherbergi og gerði síðan samning á grundvelli tilboðsins. Að verkinu loknu var álitsbeiðanda gerður reikningur fyrir ýmiss aukaverk sem verksali taldi að ekki væri hluti þess verks sem samningur aðila næði til. Því hafnaði álitsbeiðandi. Kærunefndin taldi sum þessara verka utan verksamningsins en önnur ekki. Var álitsbeiðanda því gert að greiða hærri fjárhæð en tilboðsverðinu nam.
Kaup á bílskúrshurð. Neytendakaup. Sératkvæði.
Álitsbeiðanda fékk tilboð í bílskúrshurð í júlí 2007 og var þá gefið upp ákveðið verð. Verðið hækkaði síðan vegna gengisbreytinga og í janúar 2009 var það komið í kr. 601.012. Í september 2008 greiddi húsfélagið kr. 105.000 af kaupverðinu og gerði kröfu í álitsbeiðninni til þess að litið yrði svo á að með því hefði verið greiddur fjórðungur af endanlegu kaupverði hurðarinnar. Meiri hluti kærunefndarinnar taldi að þar sem seljandi hefði gert fyrirvara um að verð hurðarinnar gæti hækkað vegna gengisþróunar á þeim tíma sem samningar aðila stóðu og ekki hefði við greiðslu kr. 105.000 verið samið um að sú greiðsla skoðaðist sem fjórðungur af kaupverðinu yrði að hafna þeirri kröfu álitsbeiðanda. Minni hluti nefndarinnar féllst hins vegar á kröfu hans.
Mál nr. 11/2009
Kaup á sjónvarpi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp og bilaði spennugjafinn í því eftir tveggja ára og þriggja mánaða notkun. Kærunefndin áleit að þar sem bilunin hefði orðið í ekki eldra tæki ætti seljandi að kosta viðgerðina á spennugjafanum.
Mál nr. 10/2009
Kaup á notaðri bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðanda keypti rúmlega 7 ára gamla bifreið af bifreiðaumboði. Eftir tæpa ársnotkun og 14-16.000 km akstur fór tímareimin í bifreiðinni. Álitsbeiðandi taldi að seljandi hefði við kaupin átt að gera sér grein fyrir því hvenær þyrfti að athuga tímareimina og skipta um. Þar sem hann hefði ekki gert það ætti hún rétt á því að seljandi kostaði viðgerð á bifreiðinni. Á þetta féllst kærunefndin ekki og hafnaði kröfum álitsbeiðanda.
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi lét skipta um framrúðu í bíl sínum. Hann taldi að rúðan sem sett var í væri skemmd og auk þess hefði efni sem hefði verið notað við skiptin slest á mælaborðið. Hann krafðist þess að skipt yrðu um rúðu á öðru verkstæði, mælaborðið yrði lagað eða nýtt sett í og sér yrði bætt atvinnutap. Kærunefndin taldi að verkstæðið ætti að setja nýja rúðu í eins og það hafði boðist til, en álitsbeiðandi ætti ekki rétt á því að það yrði gert á öðru verkstæði, ákvað bætur álitsbeiðanda til handa vegna þess hvernig mælaborðið var útleikið en hafnaði bótakröfu vegna atvinnumissis.
Mál nr. 8/2009
Kaup á sturtuklefa. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sturtuklefa sem hann taldi vera gallaðan á margvíslegan hátt og féllst kærunefndin á það. Hann vildi að seljandi legði sér til annan sams konar sturtuklefa til þess að ekki þyrfti að færa til innréttingar í baðherberginu. Kærunefndin áleit seljanda skylt að leggja álitsbeiðanda til nýjan gallalausan sturtuklefa sams konar og hann keypti eða annan jafngóðan eða betri sem koma mætti fyrir í baðherbergi álitsbeiðanda á sama stað og fyrri klefinn var settur.
Mál nr. 7/2009
Kaup á barnarúmum. Neytendakaup.
Álitsbeiðendur keyptu tvö barnarúm. Annað rúmið var upphækkað og á því slá til varnar því að barn dytti fram úr rúminu. Sláin á rúminu gaf sig og að mati sérfróðs manns stafaði það af galla í henni. Barnið handleggsbrotnaði. Kærunefndin taldi álitsbeiðendum heimilt að rifta kaupum á rúmunum og að fá kaupverð þeirra endurgreitt. Hins vegar væri þeim ekki heimilt að rifta kaupum á öðrum hlutum sem þau höfðu keypt í sömu verslun í sama skipti. Álitsbeiðendur kröfðust bóta fyrir sjúkrakostnað sem af slysinu leiddi. Kærunefndin áleit að vegna ákvæðis í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 48/2003 væri það utan valdsviðs hennar að taka afstöðu til slíkrar skaðabótakröfu.
Mál nr. 6/2008
Kaup á leðursófa. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti leðursófa í ágúst 2006. Leðrið tók að springa eftir tveggja ára notkun. Álitsbeiðandi fékk ekki kvittaðan reikning fyrir kaupunum en hafði í höndum raðgreiðslusamning fyrir kaupum á húsgögnum í versluninni. Seljandi taldi ósannað að álitsbeiðandi hefði keypt sófann í verslun sinni. Kærunefndin taldi að eins og atvikum væri háttað hvíldi sönnunarbyrðin um það að sófinn hefði ekki verið keyptur í versluninni á seljanda og sú sönnun hefði ekki tekist. Þá áleit nefndin að í kaupunum gilti 5 ára kvörtunarfrestur og að álitsbeiðanda ætti rétt á afslætti af kaupverði.
Mál nr. 5/2009
Viðgerð á þvottavél. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi lét gera við þvottavél og greiddi seljandi fyrir þá viðgerð. Þegar vélin kom úr viðgerðinni var fúkkalykt af gúmmíhring sem álitsbeiðandi sagði að ekki hefði verið þegar vélin fór í viðgerðina. Gerðar voru tilraunir til þess að losna við lyktina sem ekki tókust. Viðgerðaraðili seljanda brá þá á það ráð að skipta um hring. Seljandi vildi ekki greiða fyrir gúmmíhringinn. Kærunefndin áleit að skiptin á hringnum væri hluti af viðgerðinni á þvottavélinni sem seljandi ætti að greiða.
Mál nr. 4/2009
Kaup á nýju mótorhjóli. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýtt mótorhjól af manni sem keypt hafði það af innflytjandanum. Kom fram galli á hjólinu sem álitsbeiðandi lét gera við. Álitsbeiðandi beindi bótakröfu sinni að innflytjandanum og féllst kærunefndin á að hann ætti rétt á að fá gallann bættan af honum samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 35. gr. laga nr. 48/2003.
Mál nr. 3/2009
Hreinsun á gólfmottu. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi lét hreinsa gólfmottu og taldi að hún hefði eyðilagst í hreinsuninni. Krafðist hann skaðabóta að jafngildi kaupverðs mottunnar. Af hálfu hreinsunarinnar var því haldið fram að álitsbeiðandi hefði verið varaður við því fyrirfram að mistækist gæti að hreinsa mottuna. Því mótmælti seljandi ekki. Hreinsunin sagði mottuna ekki hafa eyðilagst bið hreinsunina heldur hefði hún ekki tekist. Á þetta féllst kærunefndin og taldi álitsbeiðanda ekki eiga rétt á bótum.
Mál nr. 2/2009
Kaup á nýrri dráttarvél. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi taldi sig hafa greitt hærra kaupverð fyrir dráttarvélina en um hefði verið samið. Á það féllst kærunefndin ekki. Þá taldi álitsbeiðandi að gallar væru á hemlabúnaði dráttarvélarinnar. Á það féllst kærunefndin og lagði fyrir seljanda að koma hemlunum í fullkomið lag eða greiða skaðabætur ella. Kærunefndin ákvað álitsbeiðanda bætur fyrir missi afnota af dráttarvélinni og óþægindi vegna þess að hemlarnir voru ekki í lagi.
Mál nr. 1/2009
Kaup á notaðri bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða fólksbifreið. Kúpling bifreiðarinnar varð ónýt eftir töluverðan akstur álitsbeiðanda. Kærunefndin taldi ósannað að sérstakur galli hefði verið á kúplingunni þegar kaupin fóru fram og hafnaði því að álitsbeiðandi ætti rétt á að rifta kaupunum af þeim sökum eða afslætti af kaupverði. Álitsbeiðandi sagði að sér hefði verið sagt að bifreiðin væri af árgerð 2006 en í ljós hafi komið að hún væri af árgerð 2004. Kærunefndin taldi að byggja mætti á því að bifreiðin væri af árgerðinni 2004 og ósannað væri að seljandi hefði skýrt álitsbeiðanda frá því og taldi að hann ætti rétt á afslætti af kaupverðinu af þeim sökum.
Mál nr. 86/2008
Kaup á barstól. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti barstól með hringlaga fæti og undir honum var svartur gúmmíhringur. Litur barst úr gúmmíinu á parketið og áleit kærunefndin stólinn vera haldinn galla af þeim sökum. Með sérstökum efnum virtist hægt að ná förunum af parketinu án þess að það skemmdist. Kærunefndin áleit að seljandi ætti að greiða álitsbeiðanda kostnað sem væri því samfara.
Mál nr. 85/2008
Farsími. Neytendakaup. Frávísun.
Álitsbeiðandi keypti farsíma sem reyndist ekki vera í lagi en seljandi hafði komið í lag þegar álitsbeiðnin var til meðferðar hjá kærunefndinni. Við viðgerð töpuðust myndir sem í símanum voru og hafði seljandi beðist afsökunar á því og boðið bætur fyrir missinn. Kröfugerð álitsbeiðanda vegna þess að myndirnar töpuðust var svo óljós að kærunefndin vísaði málinu frá með heimild í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.
Mál nr. 83/2008
Rafmagnsnuddpottur. Neytendakaup.
Álitsbeiðendur keyptu rafmagnsnuddpott sem reyndist haldinn ýmsum göllum. Seljandi reyndi að bæta úr þeim en hafði ekki tekist. Álitsbeiðendur kröfðust riftunar kaupanna og taldi kærunefndin að þar sem útbætur seljanda hefðu ekki tekist og gallarnir væru verulegir væri þeim riftun heimil.
Mál nr. 82/2008
Þjónustusamningur um síma, internet og sjónvarp um ljósleiðara og netaðgangstæki. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi gerði þjónustusamning um síma, internet og sjónvarp um ljósleiðara og netaðgangstæki. Hann taldi galla hafa verið á þjónustunni en samningnum sagði hann upp eftir einn og hálfan mánuð. Kærunefndin féllst á að álitsbeiðandi ætti rétt á afslætti af því gjaldi sem hann hafði greitt fyrir þjónustuna.
Mál nr. 81/2008
Kaup á notaðri vörubifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða vörubifreið mikið ekna í ágúst 2008. Fór hann með bifreiðina í skoðun í september s.á. Voru gerðar fjölmargar athugasemdir við ástand bifreiðarinnar og akstur hennar bannaður. Bifreiðin hafði áður verið skoðuð í maí og þá engar athugasemdir gerðar sem kærunefndinni þótti með nokkrum ólíkindum. Álitsbeiðandi krafðist riftunar kaupanna á grundvelli þess hve miklir gallar væru á bifreiðinni samkvæmt framangreindri skoðun. Álit kærunefndarinnar var að hvorugur aðila hefði fullnægt skyldum sínum við kaupin en álitsbeiðandi ætti þó rétt á afslætti af kaupverðinu.
Mál nr. 80/2008
Þjónustukaup. Frávísun.
Kærunefndin vísaði álitsbeiðninni frá með heimild í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.
Mál nr. 78/2008
Kaup á bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða jeppabifreið sem sögð var vera í ágætu ástandi. Álitsbeiðandi lét ekki framkvæma söluskoðun fyrir kaupin. Í ljós komu töluverðir gallar á bifreiðinni og krafðist álitsbeiðandi þess að seljandi greiddi helming kostnaðar við viðgerð á þeim. Kærunefndin taldi báða aðila bera ábyrgð á þeirri stöðu sem upp var komin, álitsbeiðandi þó meiri. Niðurstaða nefndarinnar var sú að seljanda bæri að gefa álitsbeiðanda nokkurn afslátt af kaupverði.
Mál nr. 77/2008
Sófi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sófa sem hún taldi gallaðan og lét seljandi henni nýjan sófa í té. Álitsbeiðandi taldi þann sófa einnig vera gallaðan. Kærunefndin taldi það ósannað og hafnaði kröfum álitsbeiðanda.
Mál nr. 76/2008.
Bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða jeppabifreið með því að yfirtaka áhvílandi bílalán. Í auglýsingu var getið um hver væri mánaðarleg afborgun af láninu. Fyrsta afborgun álitsbeiðanda reyndist hærri en sú afborgun sem auglýst hafði verið á sínum tíma og vildi hann rifta kaupunum á þeim forsendum. Kærunefndin áleit að ekki væri um slíkan galla að ræða að riftun kaupanna væri heimil.
Mál nr. 75/2008
Flutningur á rúmi. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi bað flutningsfyrirtæki að flytja rúm til Reykjavíkur. Rúmið skemmdist í flutningi. Flytjandinn sagði það stafa af því að álitsbeiðandi hefði ekki búið nægjanlega um rúmið fyrir flutninginn en bauðst til þess að endurgreiða flutningskostnaðinn. Kærunefndin taldi að flytjandi hefði átt að sjá til þess að álitsbeiðandi byggi nægilega vel um rúmið eða gera það að öðrum kosti sjálfur til þess að koma í veg fyrir skemmdir í flutningi. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti rétt á bótum fyrir skemmdir á rúminu og endurgreiðslu flutningskostnaðar.
Mál nr. 74/2008
Gler. Neytendakaup.
Álitsbeiðendur keyptu gler í hús sitt sem þau töldu að ákveðnir gallar væru á. Seljandi bauð bætur vegna 11 rúða en álitsbeiðendur töldu þær ekki nægilegar. Álitsbeiðendur fengu sérfróðan aðila til þess að meta hverjir gallar væru á glerinu og hvað kostaði að bæta úr þeim. Matsmaðurinn taldi 8 rúður gallar. Seljanda var ekki gefinn kostur á aðild að því mati. Kærunefndin taldi að seljandi ætti að bæta álitsbeiðendum galla á glerinu í samræmi við niðurstöðu matsmannsins en matskostnaður væri hluti af kostnaði við að reka málið og því ekki á valdsviði nefndarinnar að taka afstöðu til þeirrar kröfu álitsbeiðenda.
Mál nr. 73/2008
Smíðaefni. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti MDF plötur og lét smíða úr þeim skápa í hús sem hún bjó í. Álitsbeiðandi sagði að megn lykt hefði verið af plötunum bæði fyrir og eftir að skáparnir höfðu verið smíðaðir sem var um þremur mánuðum eftir kaupin. Seljandinn taldi að svo væri ekki. Sýnishorn af plötunum voru send til rannsóknar bæði í Bandaríkjunum og Svíþjóð og leiddu þær ekki í ljós að plöturnar væru gallaðar. Kærunefndin taldi ósannað að plöturnar hefðu verið gallaðar við afhendingu þeirra og af þeim sökum ætti álitsbeiðandi ekki rétt á skaðabótum úr hendi seljanda.
Mál nr. 72/2008
Innleggsnóta. Neytendakaup. Sératkvæði.
Álitsbeiðandi fékk inneignarnótu sem hægt var að taka út á í fleiri verslunum en einni. Álitsbeiðandi framvísaði nótunni í einni verslananna og tók út vörur fyrir hluta fjárhæðarinnar en fékk nýja inneignarnótu fyrir afganginum. Þeirri nótu týndi hún. Leitt var í ljós að í versluninni var skráð að álitsbeiðandi væri eigandi inneignarinnar og hve mikil hún væri. Meirihluti kærunefndarinnar áleit að fyrst þessar upplýsingar lægju fyrir ætti álitsbeiðandi rétt á því að fá inneignina greidda eða að taka út á hana og það að hægt væri að taka út á nótuna í fleiri verslunum ætti ekki að koma í veg fyrir það. Minnihluti nefndarinnar komst að gagnstæðri niðurstöðu og taldi að versluninni væri þetta ekki skylt nema gegn framvísun nótunnar.
Mál nr. 71/2008
Ísskápur. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp með þeim hætti að greiða inn á staðfestingarskjal ákveðna upphæð, en á skjalinu var gerð grein fyrir verði ísskápsins og virðisaukaskatti. Þegar kom að afhendingu nokkru síðar vildi seljandi fá greiddar kr. 50.000 til viðbótar því verði sem tilgreint var þar sem verð ísskápsins væri reiknað í dönskum krónum sem hefðu hækkað á tímabilinu. Álit kærunefndar var að álitsbeiðandi ætti rétt á því að fá skápinn keyptan á því verði sem gefið var upp á staðfestingarskjalinu þar sem honum hefði ekki verið gerð grein fyrir mögulegri hækkun kaupverðsins fyrr en kom að afhendingu.
Mál nr. 70/2008
Sófi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sófa sem hann taldi gallaðan og kvartaði við seljanda þegar hann hafði átt sófann í 2 ár. Vildi álitsbeiðandi fá nýjan sófa í staðinn. Kærunefndin áleit sófann vera haldinn göllum en þó ekki svo miklum að álitsbeiðandi ætti rétt til þess að seljandi legði honum til nýjan sófa. Hins vegar ætti álitsbeiðandi rétt á afslætti af kaupverðinu.
Mál nr. 69/2008
Endurbætur á húsi. Þjónustukaup. Frávísun.
Álitsbeiðandi gerði munnlegan samning við fyrirtæki um endurbætur á húsi sínu. Hann taldi að kostnaður við endurbæturnar hefði farið langt fram úr því sem samið hefði verið um og fyrirtækið hefði ekki lokið við verkið. Aukaverk komu einnig við sögu. Kæruefndin áleit að ágreiningur aðila væri þess eðlis og ekki studdur þeim gögnum að tækt væri fyrir nefndina að taka efnislega afstöðu til hans með álitsgerð og vísaði málinu frá sér.
Mál nr. 68/2008
Viðgerð á bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið til atvinnustarfsemi af bifreiðaumboði í mars 2007 og hafði henni þá verið ekið um 78.000 km. Umboðið þjónustaði bifreiðina. Í ágúst 2008, en þá hafði álitsbeiðandi ekið bifreiðinni um 30.000 km, bilaði vélin og var talið að ekki svaraði kostnaði að gera við hana. Kaupin á bifreiðinni féllu undir lausafjárkaupalög og taldi kærunefndin ósannað að bilun bifreiðarinnar sem ágreiningurinn snérist um yrði rakinn til galla á bifreiðinni við kaupin. Ágreiningur um það hvort bilunin yrði rakin til þeirrar þjónustu sem bifreiðaumboðið síðar veitti félli ekki undir þjónustukaupalögin þar sem bifreiðin hefði verið keypt til atvinnustarfsemi og af einkahlutafélagi. Leysa yrði úr þeim ágreiningi á öðrum vettvangi.
Mál nr. 67/2008
Viðgerð á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi fór með tölvu sína í viðgerð sem seljandi hennar átti að kosta. Honum var boðin svokölluð flýtimeðferð á viðgerðinni sem kostaði kr. 18.000 og þáði álitsbeiðandi það. Viðgerð var fyrst lokið að hluta og tölvan þá nothæf. Hins vegar þurfti að panta varahlut erlendis frá til þess að ljúka viðgerðinni að fullu. Álitsbeiðandi fékk tölvuna úr viðgerð 13 dögum eftir að komið var með hana til viðgerðarinnar. Gegn mótmælum álitsbeiðanda þótti ekki sannað að honum hefði verið skýrt frá því að hann gæti fengið tölvuna til notkunar eftir að fyrri hluta viðgerðarinnar lauk. Kærunefndin áleit að út af fyrir sig gæti verið heimilt að taka gjald fyrir það að hraða viðgerð sérstaklega enda þótt seljandi ætti að kosta hana sjálfur. Hins vegar hefði viðgerðin í þessu tilviki tekið það langan tíma að ekki væri forsendur fyrir slíkri gjaldtöku.
Mál nr. 66/2008
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi fór með bifreið sína í 60.000 km skoðun. Sá sem skoðunina framkvæmdi taldi ekki þörf á að skipta um olíu á vél þar sem bifreiðinni hefði ekki verið ekið nema 5.000 km frá síðustu skiptum. Hins vegar var ekki leitt í ljós að hann hefði aðgætt hve mikil olía var á vélinni. Álitsbeiðandi ók bifreiðinni rúma 4.000 km eftir þetta og í akstri kviknaði ljós í mælaborði sem sýndi að olíu vantaði eða eitthvað væri athugavert við olíu á vél. Engu að síður ók álitsbeiðandi bifreiðinni áfram nokkra kílómetra. Í ljós kom að vél bifreiðarinnar var mikið skemmd og þarfnaðist dýrrar viðgerðar sem álitsbeiðandi krafðist að verkstæðiseigandinn greiddi. Kærunefndin taldi að báðir aðilar ættu sök á því hvernig fór og ætti verkstæðiseigandinn að greiða álitsbeiðanda hluta tjónsins.
Mál nr. 65/2008
Hellulögn. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi réði fyrirtæki til þess að endurleggja hellur við hús sitt og miðaði við að nýja hellulögnin yrði eins og sú fyrri hafði verið. Einnig átti að leggja hellur á einum stað þar sem hellur höfðu ekki verið fyrir. Álitsbeiðandi sagði að ekki hefði verið farið eftir fyrirmælum sínum, hellur hefðu og verið skemmdar með steypuslettum og steypa hefði skvetts á vegg og hurð. Kærunefndin taldi að gallar hefðu verið á þjónustunni sem fyrirtækinu bæri að bæta álitsbeiðanda.
Mál nr. 64/2008
Bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið af fyrirtækinu sem hafði umboð fyrir hana hér á landi. Við afhendingu bifreiðarinnar nýrrar var skráð í ferilskrá hennar að högg heyrðust í sjálfskiptingu. Einum og hálfum mánuði síðar kvartaði álitsbeiðandi undan höggum í sjálfskiptingunni. Seljandi sinnti því ekki að gera við skiptinguna fyrr en bifreiðinni hafði verið ekið í rúmlega 90.000 km. Við viðgerðina hættu höggin að heyrast í töluverðan tíma en gerðu síðan vart við sig á nýjan leik. Álitsbeiðandi krafðist þess að fá nýja sjálfskiptingu sér að kostnaðarlausu. Á það féllst seljandi ekki. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að álitsbeiðandi ætti rétt á skaðabótum sem næmu helmingi þess kostnaðar að kaupa nýja sjálfskiptingu og setja hana í bifreiðina.
Mál nr. 63/2008
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi lét skipta um tímareim í bifreið sinni í apríl 2006. Sagði hann að rúmum tveim árum síðar hefði bifreiðin misst afl og verið eyðslufrekari og stafaði það af því að tímareimin hefði ekki verið rétt stillt. Vildi álitsbeiðandi fá endurgreiddan kostnaðinn við skiptin á tímareiminni. Kærunefndin áleit að þar sem kvörtun álitsbeiðanda við þann sem verkið vann hefði komið fram rúmum tveimur árum eftir verklok væri hún of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 17. gr. þjónustukaupalaga.
Mál nr. 62/2008
Súrefnistæki. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi hugðist kaupa súrefnistæki sem ekki þyrfti að nota nema í 5 mínútur eða svo til þess að árangur næðist. Hún sagði kaupanda hafa sagt að tækið dygði til þess, sem ekki hefði reynst rétt, og þess vegna hefði hún fest kaup á því. Seljandi kannaðist ekki við það og vísaði til leiðbeininga sem hefðu fylgt tækinu en aðrar upplýsingar hefði álitsbeiðandi ekki fengið um tækið hjá sér. Í leiðbeiningunum kom m.a. fram að hægt væri að stilla súrefnisgjöfina á 0,5 til 10 lítra á mínútu auk þess sem hægt væri að hafa súrefnið mismunandi þétt. Að áliti sérfróðs aðila voru væntingar konunnar um að tæki eins og hún hugðist kaupa óraunhæfar þar sem slíkt tæki væri ekki á markaði. Þá kom fram í leiðbeiningunum að súrefnisgjöf ætti að fara fram samkvæmt læknisráði. Kærunefndin taldi að ekki væri leitt í ljós að álitsbeiðandi hefði gert seljanda nægjanlega grein fyrir þessum sérstöku væntingum sínum við kaupin og því væri ekki grundvöllur til þess að rifta þeim eins og álitsbeiðandi krafðist. Hins vegar hafði seljandi gefið álitsbeiðanda verulegan afslátt af kaupverðinu.
Mál nr. 61/2008
Viðgerð á tölvu. Þjónustukaup.
Álitbeiðandi lét fara með búnað í tölvu sinni til viðgerðar hjá fyrirtæki sem seldi sams konar tölvur hér á landi. Hann vissi að tölvan hafi ekki verið keypt hjá fyrirtækinu og sá sem fór með búnaðinn til viðgerðarinnar átti að spyrja að því hvort hann væri í ábyrgð fyrirtækisins. Ekki var upplýst hvort hann hafði sagt sendimanninum frá því að málum væri svona háttað með kaupin á tölvunni. Álitsbeiðandi hélt því fram að sendimanninum hefði verið sagt að tölvan væri í ábyrgð fyrirtækisins en starfsmenn fyrirtækisins sögðust aðeins hafa sagt að líklegt væri að gallinn fengist bættur úr ábyrgð. Tölvan var skoðuð og tekið gjald fyrir, kr. 2.290 sem fyrirtækið lækkaði þó um helming. Í skoðunarbeiðni sem sendimaðurinn undirritaði kom fram að þetta gjald yrði tekið fyrir skoðunina. Að skoðuninni afstaðinni var álitsbeiðanda sagt að tölvan hefði ekki verið keypt hjá fyrirtækinu sem hann raunar vissi og væri ekki í ábyrgð þess. Kærunefndin áleit eins og málum var háttað að álitsbeiðandi ætti ekki rétt á að fá skoðunargjaldið endurgreitt.
Mál nr. 59/2008
Viðgerð á tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðanda taldi að seljandi hefði skemmt fartölvu sem hann hafði sett í viðgerð hjá honum. Við skoðun á tölvunni taldi kærunefndin ekki í ljós leitt að tölvan hefði skemmst í viðgerðinni. Hins vegar virkaði ekki búnaðurinn til að loka tölvunni og úr því ætti seljandi að bæta sem hann hafði reyndar boðist til.
Mál nr. 57/2008
Bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti notaða bifreið og tók yfir lán sem á henni hvíldi. Samkvæmt auglýsingu átti að greiða af láninu kr. 39.000 mánaðarlega en þegar kom að fyrsta gjalddaga álitsbeiðanda reyndist mánaðargreiðslan vera kr. 52.000. Ekki voru gefnar réttar upplýsingar um það hvenær síðast hefði verið skipt um tímareim í bifreiðinni. Álitsbeiðandi vildi rifta kaupunum og beindi þeirri kröfu að bílasölunni sem hafði séð um söluna fyrir seljanda en ekki að seljandanum sjálfum. Kærunefndin gaf álitsbeiðanda kost á því að koma að í málinu álitsbeiðni gagnvart seljanda. Í auglýsingu um bifreiðina og í kaupsamningi og afsali fyrir henni undanskildi bílasalan sig ábyrgð á upplýsingum seljanda sem kynnu að vera rangar. Kærunefndin áleit að bílasalan hefði undanskilið sig ábyrgð með þeim hætti að riftunarkröfu yrði ekki beint að henni og hafnaði því kröfu álitsbeiðanda.
Mál nr. 56/2008
Ísskápur. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp í nóvember 2002 og giltu því um kaupin lög nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Ískápurinn bilaði þrisvar sinnum á næstu tveimur árum og í einhver skipti eftir það. Samkvæmt lýsingu álitsbeiðanda sem ekki var mótmælt af seljanda lýsti bilunin sér alltaf með sama hætti. Niðurstaða kæranda var sú að gallinn á ísskápnum hefði verið til staðar frá upphafi, verið viðvarandi og hefði álitsbeiðandi kvartað undan honum í tæka tíð. Ekki var fallist á riftunarkröfu álitsbeiðanda en honum ákveðnar skaðabætur úr hendi seljanda.
Mál nr. 55/2008
Tölva. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvu í september 2006. Tölvan bilaði a.m.k. fjórum sinnum. Seljandi bauð álitsbeiðanda að fá nýja sams konar tölvu í staðinn í ágúst 2008, sem hún hafnaði síðar í sama mánuði og óskaði eftir endurgreiðslu kaupverðsins. Kærunefndin áleit að seljandi ætti rétt á að bæta úr göllunum með því að afhenda álitsbeiðanda nýja tölvu eins og hann hafði boðist til. Gerði hann það ekki ætti álitsbeiðandi rétt að því að fá kaupverðið endurgreitt ásamt vöxtum frá þeim degi þegar hún krafðist riftunar kaupanna.
Mál nr. 54/2008
Reikningur fyrir viðgerð á húsi. Frávísun.
Álitsbeiðandi óskaði álits kærunefndarinnar á reikningi fyrirtækis fyrir viðgerð á húsi. Undir meðferð málsins höfðaði fyrirtækið mál á hendur álitsbeiðanda til innheimtu reikningsins og vísaði kærunefndin því málinu frá sér, sbr. 3. gr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.
Mál nr. 53/2008
Teikningar af húsi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi leitaði til byggingafyrirtækis um að byggja fyrir sig einbýlishús og fékk tilbúna teikningu af húsi sem hún fór með á arkitektastofu þá sem gert hafði teikninguna. Álitsbeiðandi óskaði eftir breytingum á teikningunni en niðurstaðan varð sú að breytingar voru gerðar á annarri teikningu. Ekkert varð af byggingu hússins. Álitsbeiðandi áleit að hún hefði farið með teikningarnar á vegum byggingarfyrirtækisins til að láta breyta þeim í því skyni að fyrirtækið gæti gert tilboð í byggingu hússins og vildi ekki greiða reikning arkitektastofunnar. Kærunefndin áleit að þar sem álitsbeiðandi hefði beðið um breytingarnar, og ekki hefði komið fram að hún gerði það fyrir hönd byggingafyrirtækisins, bæri henni að greiða reikning arkitektastofunnar. Hins vegar hefði stofan átt í upphafi verksins að gera álitsbeiðanda grein fyrir því hvað breytingar á teikningunni myndu kosta.
Mál nr. 52/2008
Erindi framsent stjórnvaldi.
Álitsbeiðandi taldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess hve seint póstsendingar hefðu borist viðtakanda erlendis. Kærunefndin taldi að póstþjónusta félli ekki undir lög nr. 42/2000. Samkvæmt 10. og 13. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun, sbr. XIV. kafla laga nr. 19/2002 um póstþjónustu, heyrði, ágreiningur af þessu tagi undir Póst- og fjarskiptastofnun og var erindi álitsbeiðanda sent þangað, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.
Mál nr. 51/2008
Viðgerð á tölvu. Frávísun.
Álitsbeiðandi óskaði álits kærunefndarinnar á viðgerðarkostnaði á tölvu. Nefndin óskaði eftir frekari skýringum álitsbeiðanda á atvikum og kröfugerð og gaf honum ákveðinn frest til að skila þeim. Engar skýringar bárust frá álitsbeiðanda og vísaði kærunefndin málinu frá samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.
Mál nr. 49/2008
Frávísun.
Félagasamtök, sem hafa umtalsverðan rekstur með höndum, óskuðu eftir áliti kærunefndarinnar á réttmæti reiknings fyrirtækis fyrir veitta þjónustu. Málinu vísað frá vegna þess að það átti ekki undir lög nr. 42/2000 um þjónustukaup samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laganna þar sem álitsbeiðandi var ekki einstaklingur.
Mál nr. 48/2008
Frávísun.
Álitsbeiðandi óskaði eftir áliti kærunefndarinnar á því hvort vitni, sem gefið hafði skýrslu fyrir dómi, og gert álitsbeiðanda reikning fyrir, ætti rétt á greiðslu. Málinu vísað frá vegna þess að álitsbeiðandi var einkahlutafélag.
Mál nr. 47/2008
Leðursófasett. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti leðursófasett. Eftir að hafa notað það í tæpt ár komu fram gallar í leðrinu að áliti fagmanns á því sviði. Kærunefndin byggði á því að ekki væri um óverulegan galla að ræða og féllst því á kröfu álitsbeiðanda um riftun kaupanna og endurgreiðslu kaupverðsins.
Mál nr. 46/2008
Skilmálar um skoðun á galla. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi taldi að vél í leikfangabíl sem hann keypti væri gölluð. Seljandi f.h. framleiðanda bauð kaupanda að fá nýja vél í bílinn gegn undirskrift ákveðinna skilmála um skoðun framleiðanda á því hvort vélin hefði verið haldin galla eða verið skemmd í notkun. Álitsbeiðandi taldi skilmálana ekki standast lög, neitaði að skrifa undir þá og óskaði álits kærunefndarinnar á því hvort skilmálarnir brytu gegn lögum. Kærunefndin áleit skilmálana út af fyrir sig standast lög en taldi að í þeim hefði átt að kveða sérstaklega á um rétt álitsbeiðanda til þess að láta skoða vélina á eigin vegum.
Mál nr. 45/2008
Viðgerð á húsi. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi réði fyrirtæki til þess að skipta um þakrennur á fjöleignarhúsi en ekki var gerður skriflegur samningur um verkið. Álitsbeiðandi taldi að ekki hefðu verið unnar allar þær vinnustundir sem fyrirtækið gerði reikning fyrir auk þess sem virðisaukaskattur af efni til verksins væri tvíreiknaður. Kærunefndin taldi að fyrirtækið ætti ekki rétt á greiðslu fyrir allar vinnustundirnar og hefði ekki verið heimilt að reikna virðisaukaskattinn með þeim hætti sem gert var. Bæri því álitsbeiðanda ekki að greiða reikninginn að fullu.
Mál nr. 44/2008
Afnotamissir af bifreið. Þjónustukaup.
Í máli nr. M-1/2008 var niðurstaða kærunefndarinnar sú að sami álitsbeiðandi hefði orðið fyrir tjóni á bifreið sinni vegna þess að smurstöð hefði ekki sinnt ákveðinni þjónustu fyrir hann eins og henni hefði borið að gera. Í því máli taldi kærunefndin að álitsbeiðandi hefði ekki sýnt fram á tjón vegna afnotamissis af bifreiðinni. Álitsbeiðandi óskaði eftir nýju áliti kærunefndarinnar vegna afnotamissis og taldi kærunefndin álitsbeiðanda eiga rétt á nokkrum bótum sem hún ákvað að álitum.
Mál nr. 43/2008
Bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti árið 2006 jeppabifreið, sem hafði verið ekið 51.000 km, í þeirri trú að hún væri árgerð 2003, eins og í kaupsamningi og afsali stóð. Þegar hann ætlaði að selja bifreiðina á árinu 2008 kom í ljós að bifreiðin var af árgerðinni 2001. Kærunefndin taldi ekki forsendur til þess að rifta kaupunum en mat álitsbeiðanda skaðabætur að álitum.
Mál nr. 42/2008
Samningur um smíði á stigahandriði. Neytenda- og þjónustukaup.
Álitsbeiðandi leitaði tilboðs hjá járnsmiðju í smíði á stigahandriði. Samningur náðist um smíðina á grundvelli tilboðs járnsmiðjunnar. Álitsbeiðandi taldi að gert hefði verið ráð fyrir uppsetningu handriðsins í tilboðinu og neitaði að greiða sérstaklega fyrir hana eins og járnsmiðjan krafðist. Kærunefndin taldi að ekki hægt að líta svo á að uppsetning handriðsins hefði verið innifalin í tilboðinu og hafnaði því kröfum álitsbeiðanda.
Mál nr. 40/2008
Viðgerð á ísskáp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp sem reyndist gallaður. Seljandi gerði við hann á sinn kostnað. Þegar ísskápurinn kom úr viðgerðinni var ytra byrði hans skemmt á nokkrum stöðum og vildi álitsbeiðandi fá bætur greiddar frá seljanda fyrir skemmdirnar. Kærunefndin áleit að byggja yrði á því að skápurinn hefði skemmst í meðförum seljanda og ákvarðaði álitsbeiðanda bætur fyrir tjónið.
Mál nr. 39/2008
Kaup á bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti fjögurra ára bifreið sem ekið hafi verið 72.000 kílómetra. Gallar komu í ljós á bifreiðinni fljótlega eftir kaupin. Álitsbeiðandi vildi rifta kaupunum og að seljandi greiddi áfallinn viðgerðarkostnað. Kærunefndin féllst á það að gallar væru á bifreiðinni en ekki svo miklir að varðaði riftun kaupanna. Hins vegar ætti álitsbeiðandi rétt á afslætti af kaupverðinu.
Mál nr. 38/2008
Gildistími gjafabréfs. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi fékk gjafabréf að fjárhæð kr. 5.000 fyrir úttekt á vörum í fjórum verslunum í eigu sama aðila. Á gjafabréfið var skráð að gildistími þess væri eitt ár frá útgáfudegi sem var 22. desember 2006. U.þ.b. fjórum mánuðum eftir 22. desember 2006 óskaði álitsbeiðandi eftir því að taka út vörur á gjafabréfið, en verslunareigandi synjaði úttekt á þeim forsendum að gildistími bréfsins væri liðinn. Niðurstaða meirihluta nefndarinnar var sú að á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 ætti að víkja til hliðar samningsákvæðinu um gildistíma gjafabréfsins í þessu tilviki og ætti álitsbeiðandi rétt á því að taka vörur út á bréfið. Minnihlutinn taldi hins vegar að samningsákvæðið ætti að standa og 36. gr. laga nr. 7/1936 yrði ekki beitt um það. Álitsbeiðandi ætti því ekki rétt á úttekt.
Mál nr. 36/2008
Sjónvarp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp sem ekki reyndist vera í lagi. Seljandi reyndi þrívegis að gera við sjónvarpið en allt kom fyrir ekki. Þegar sjónvarpið bilaði í fjórða skiptið vildi álitsbeiðandi rifta kaupunum en seljandi vildi reyna að gera við sjónvarpið. Kærunefndin áleit að úrbótaréttur seljanda væri ekki lengur fyrir hendi og heimilaði riftun á kaupunum og endurgreiðslu kaupverðsins að fullu með vöxtum frá þeim tíma að álitsbeiðandi fór fram á riftun kaupanna.
Mál nr. 35/2008
Kaup á leðursófasetti. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti leðursófasett í júlí 2004. Eftir töluverða notkun kom í ljós að litur slitnaði af leðrinu á nokkrum stöðum og annar litur kom þar í ljós. Undan gallanum var kvartað tæpum fjórum árum eftir kaupin. Álitsbeiðandi vildi rifta kaupunum eða fá nýtt leðursófasett afhent. Kærunefndin taldi að um galla væri að ræða sem þó væri ekki þess eðlis að leiddi til riftunar. Hins vegar taldi nefndin að álitsbeiðandi ætti rétt á afslætti af kaupverðinu.
Mál nr. 34/2008
Leðurstígvél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti leðurstígvél sem hún taldi gölluð og vildi fá endurgreidd. Álitsbeiðandi kvaðst hafa skoðað stígvélin rækilega áður en hún festi kaup á þeim. Seljandi bauð álitsbeiðanda að fá ný stígvél í stað þeirra sem hún taldi gölluð sem hún ekki þáði. Kærunefndin taldi, væri hægt að tala um galla á annað borð væru þeir svo smávægilegir að riftun kaupanna væri ekki heimil. Kærunefndin minnti á að seljandi hefði boðið álitsbeiðanda ný stígvél í stað þeirra sem hún keypti og verið gæti að það boð stæði enn.
Mál nr. 33/2008
Farsími. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti farsíma sem hann taldi gallaðan og vildi fá endurgreiddan. Gallann taldi hann í því fólginn að síminn hefði ekki þolað venjulegan loftraka, en notkun símans hefði verið með eðlilegum hætti. Kærunefndin taldi í ljós leitt að síminn hefði lent í mun meiri raka en honum hefði verið ætlandi að þola og hafnaði kröfum álitsbeiðanda.
Mál nr. 30/2008
Nuddpottur. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi, búsettur á Siglufirði, keypti nuddpott sem ekki reyndist vera í lagi. Viðgerðir voru reyndar af rafvirkja á staðnum en tókust ekki. Kærunefndin áleit að seljanda bæri að sjá til þess að potturinn kæmist í fullkomið lag en leggja álitsbeiðanda til nýjan nuddpott tækist það ekki.
Mál nr. 28/2008
Bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti bifreið. Í ljós kom bilun í gírkassa bifreiðarinnar eftir stuttan akstur álitsbeiðanda. Kærunefndin taldi að seljandi ætti að bæta álitsbeiðanda þann kostnað sem viðgerð á gírkassanum væri samfara en bætur yrði að ákveða með tilliti til þess að um notaða bifreið var að ræða og nýtt kæmi í stað gamals. Þá voru bætur fyrir afnotamissi metnar að álitum.
Mál nr. 27/2008
Varahlutur í þvottavél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þéttihring á þvottavélarhurð. Við kaupin sýndi hann afgreiðslumanni seljanda þéttihringinn sem hurðin lak með, en þann hring hafði hann keypt hjá öðru fyrirtæki og sett sjálfur á. Afgreiðslumaður sá ekki galla á hringnum og taldi að eitthvað væri að hurðinni á þvottavélinni sem þyrfti að laga. Viðgerðarmaður frá seljanda fór á staðinn og setti nýja hringinn á hurðina og varð hún þá þétt. Kærunefndin taldi ákveðnar líkur á því að eldri hringurinn hefði ekki verið rétt settur á hurðina og af því kynni lekinn að hafa stafað þótt um það yrði ekki fullyrt. Tæpast yrði afgreiðslumanni virt til sakar að hafa ekki áttað sig á því af hverju lekinn stafaði með því að skoða þéttihringinn sem álitsbeiðandi kom með, en á honum var ekki sérstakan galla að sjá. Þá undirritaði álitsbeiðandi verkbeiðni um skipti á hringnum, sem reikningur seljanda fyrir vinnu við þvottavélina var byggður á. Kröfur álitsbeiðanda um að hann þyrfti ekki að greiða kaupverð hringsins og vinnu viðgerðarmannsins voru ekki teknar til greina.
Mál nr. 26/2008
Ísskápur. Neytendakaup
Álitbeiðandi keypti ísskáp og kom fram á honum galli. Seljandi bauðst til þess að gera við gallann eða leggja álitsbeiðanda til nýjan ísskáp. Álitsbeiðandi kaus síðari kostinn. Við skil á eldri ísskápnum kom í ljós að rispa var á hurð hans og reyndar einnig á hliðum og toppi. Seljandi krafðist þess að álitsbeiðandi greiddi sér andvirði nýrra hurða á ísskápinn þar sem rispurnar á skápnum gætu ekki talist stafa af eðlilegri notkun. Álitsbeiðandi óskaði álits kærunefndarinnar á því hvort honum væri þetta skylt. Nefndin taldi að svo væri þar sem rispurnar rýrðu tvímælalaust verðmæti skápsins sem telja mætti að væri nokkurt og byggði álit sitt á ákvæðum 2. mgr. 52. gr. neytendakaupalaga.
Mál nr. 25/2008
Tölva. Neytendakaup
Álitsbeiðandi keypti tölvu á árinu 2005 sem bilaði á árinu 2007 og síðan á árinu 2008. Álitsbeiðandi krafðist þess að seljandi gerði við bilunina sem varð á árinu 2008 eða legði sér til nýja tölvu. Seljandi bauðst til þess að láta álitsbeiðanda í té nýja sambærilega tölvu gegn skilum á eldri tölvunni og greiðslu hálfs kaupverðsins. Kærunefndin taldi að með þessu boði hefði seljandi fullnægt þeim úrbótarétti sem álitsbeiðandi ætti á hendur honum.
Mál nr. 24/2008
Flutningur á ísskáp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp og fór með í sumarhús sitt. Ísskápurinn reyndist gallaður og fékk álitsbeiðandi annan ísskáp í hans stað. Seljandi neitaði að greiða kostnað við flutning á nýja ísskápnum í sumarhúsið og á þeim gamla til baka. Kærunefndin áleit að seljanda væri skylt að greiða flutningskostnaðinn samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 52. gr. laga nr. 48/2003.
Mál nr. 23/2008
Blöndunartæki. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti blöndunartæki í sturtu sem hættu að blanda heitu og köldu vatni eftir u.þ.b. tveggja ára notkun. Vildi álitsbeiðandi fá kaupverðið endurgreitt eða hluta þess. Seljandi sagði álitsbeiðanda að ástæða þess að vatnið blandaðist ekki væri líklega sú að sandur hefði verið í kalda vatninu sem hefði þau áhrif að það blandaðist ekki því heita. Álitsbeiðandi fékk ófaglærðan mann til þess að aftengja tækin og skoða hvort sandur væri í þeim sem hann sá ekki. Hann missti hins vegar tækin í gólfið og brotnuðu þau. Kærunefndin taldi ósannað að galli hefði verið á blöndunartækjunum í skilningi neytendakaupalaga. Auk þess hefði krafa um endurgreiðslu kaupverðs í för með sér að kaupanda væri skylt að skila þeim hlut sem hann hefði keypt að öllu verulegu leyti í sama ástandi og hann var við kaupin að undanskildu því sem telja mætti eðlilegt slit vegna notkunar eða galla sem þó hefði ekki verið leiddur í ljós í þessu tilviki. Þar sem blöndunartækin hefðu brotnað væri álitsbeiðanda þetta ekki mögulegt. Kröfu álitsbeiðanda var því hafnað.
Mál nr. 22/2008
Kaup á gleri. Neytandakaup. Frávísun.
Álitsbeiðendur keyptu gler í hús sem þau voru að byggja. Glerið töldu þau gallað og kröfðust skaðabóta. Kærunefndin áleit að upplýsingar um málsatvik og málatilbúnaður væri með þeim hætti að hún gæti ekki tekið efnislega afstöðu til ágreinings álitsbeiðenda við seljanda og vísaði málinu frá.
Mál nr. 21/2008
Sjónvarp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti tölvu og bilaði netkort og móðurborð hennar inna tveggja ára. Álitsbeiðandi lét skipta um harðan disk í tölvunni og sagði að bilunin hefði verið bæði fyrir og eftir þá aðgerð. Samkvæmt ábyrgðarskilmálum seljanda féll ábyrgðin niður gerði annar aðili við tölvuna en seljandi sjálfur eða sá sem hann vísaði til og bar hann þetta ákvæði skilmálanna fyrir sig. Kærunefndin áleit að skipti á hörðum diski í tölvu álitsbeiðanda væri svo lítil aðgerð að það að annar en seljandi eða aðili á hans vegum hefði ekki annast skiptin gerði það ekki að verkum að ábyrgðin félli niður enda hefði seljandi ekki leitt í ljós að skiptin hefðu valdið biluninni. Seljanda var því talið skylt að gera við tölvuna á sinn kostnað, eins og álitsbeiðandi krafðist. Kærunefndin tók fram að með þessari niðurstöðu væri ekki tekin afstaða til þess hvort ábyrgðarskilmálar seljanda væru í samræmi við ákvæði neytendakaupalaga.
Mál nr. 20/2008
CD spilari í bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti nýja bifreið í maí 2006. Henni fylgdi CD spilari. Í febrúar 2008 kvartaði álitsbeiðandi við seljanda út af því að spilarinn væri bilaður. Þá hafði bifreiðinni verið ekið 90.000 kílómetra. Í ljós kom að lítið plaststykki í drifbúnaði (ísetningarsleða) spilarans hafði brotnað. Ekki var hægt að fá nýtt stykki í staðinn og vildi álitsbeiðandi að seljandi legði sér til nýjan spilara. Kærunefndin taldi að um fremur viðkvæman búnað væri að ræða sem þyrfti að nota með varúð og ekki væri séð að gallinn hefði komið fram fyrr en hans varð vart, þ.e. eftir tæplega tveggja ára notkun. Líkur væru á að bilunin stafaði af því hvernig spilarinn hefði verið notaður og yrði álitsbeiðandi að sanna hið gagnstæða sem honum hefði ekki tekist. Var því kröfu hans hafnað.
Mál nr. 19/2008
Bifreið. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti á bílasölu nýlega bifreið, lítið notaða. Samkvæmt auglýsingu átti að vera í bifreiðinni m.a. hiti í sætum, loftkæling og aksturstölva. Þá áttu álfelgur að fylgja með í kaupunum. Álitsbeiðandi reynsluók bifreiðinni. Við gerð kaupsamnings var álitsbeiðanda sagt að álfelgur fylgdu ekki bifreiðinni. Frá kaupunum var gengið engu að síður og kaupverðið greitt að fullu. Álitsbeiðandi gerði skriflegan fyrirvara um að seljandi legði honum til álfelgur eða greiddi honum andvirði þeirra. Síðar kom í ljós að ekki var hiti í sætum, loftkæling eða aksturstölva í bifreiðinni. Álitsbeiðandi fór fram á afslátt af kaupverði. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti ekki rétt á afslætti vegna álfelganna þar sem honum hefði verið ljóst við kaupin að seljandi ætlaði ekki að leggja þær til, en gengið hefði verið frá kaupunum engu að síður. Væri því ekki um galla að ræða á bifreiðinni að þessu leyti og skapaði fyrirvarinn álitsbeiðanda ekki rétt til afsláttar vegna álfelganna. Hins vegar ætti álitsbeiðandi rétt á afslætti af kaupverði vegna þess að annar búnaður, sem auglýstur var, hefði ekki verið í bifreiðinni.
Mál nr.18/2008
Bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti í janúar 2008 fólksbifreið árgerð 2006 og hafði henni við kaupin verið ekið tæplega 17.000 mílur. Áður en kaupin fóru fram hafði bifreiðin verið skoðuð af fagmanni og sögð vera haldin ákveðnum göllum. Álitsbeiðanda var aðeins sagt frá einum þeirra galla við kaupin. Við notkun álitsbeiðanda á bifreiðinni, sem var rúmlega 2000 mílna akstur, og skoðun eftir þann akstur komu þeir gallar í ljós sem á bifreiðinni höfðu verið og aðrir til viðbótar. Álitsbeiðandi krafðist riftunar á kaupunum og féllst kærunefndin á þá kröfu þar sem hún taldi, að fengnu áliti sérfróðs aðila, að gallarnir væru verulegir. Hins vegar taldi kærunefndin að álitsbeiðanda bæri að létta af bifreiðinni því láni sem hann hafi tekið og á henni hvíldi, þegar hann hefði fengið kaupverðið endurgreitt.
Mál nr.16/2008
Tölva. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti fartölvu í marslok 2006. Fljótlega hefði borið á bilun í harða diskinum og um hann verið skipt. Aftur hefði tölvan bilað og enn í þriðja skiptið en þá var skipt um harðan disk að sögn álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi sagði tölvuna aldrei hafa verið almennilega nothæfa. Í öll skiptin kvaðst álitsbeiðandi hafa farið fram á að fá nýja tölvu en ekki fengið. Krafa álitsbeiðanda var sú að seljandi legði henni til nýja tölvu. Kærunefndin skoðaði tölvuna og leyndi sé ekki að hún hafði sætt afar illri meðferð þótt ekki yrði fullyrt að hennar dómi að sú meðferð hefði leitt til bilananna. Taldi kærunefndin tölvuna þannig útleikna að útilokað væri að álitsbeiðandi ætti rétt til þess samkvæmt 51. gr. neytendakaupalaga að skila tölvunni og hafnaði því kröfu hennar um riftun kaupanna.
Mál nr.15/2008
Sjónvarp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp 30. nóvember 2005, sem var að hans sögn lýst af seljanda sem svokallaðri b-vöru, þ.e. að tækið hefði verið keypt en skilað innan 30 daga reynslutíma til seljanda. Eftir að álitsbeiðandi hafði notað sjónvarpið í tvö ár og þrjá mánuði bilaði það. Viðgerðarmaður sem gerði við sjónvarpið benti álitsbeiðanda á að það hefði verið framleitt um mitt ár 2003, en viðgerðarkostnaðurinn sýndist hafa verið greiddur af tryggingu sem álitsbeiðandi hafði keypt. Álitsbeiðandi taldi, að þar sem sér hefði verið sagt að um nýja vöru væri að ræða þótt sjónvarpinu hefði verið skilað innan 30 daga, að um galla væri að ræða sem heimilaði honum að rifta kaupunum. Kærunefndin féllst ekki á að um verulegan galla væri að ræða sem gæti leitt til riftunar en hins vegar ætti álitsbeiðandi rétt á afslætti af kaupverðinu.
Mál nr. 14/2008
Þvottavél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þvottavél sem bilaði eftir þriggja og hálfs árs notkun. Bilunin var í því fólgin að svokallaður kolator í mótor þvottavélarinnar brann. Viðgerð á vélinni var talin svo dýr að hún borgaði sig ekki. Að áliti tveggja fagmanna gat þessi bilun ekki stafað af öðru en of mikið af þvotti hefði verið sett í vélina og mótornum ofgert með þeim hætti. Kærunefndin taldi sig verða að byggja niðurstöðuna á þessu áliti og áleit að þar af leiðandi ætti álitsbeiðandi ekki rétt á að fá tjónið bætt úr hendi seljanda.
Mál nr. 13/2008
Ísskápur. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp sem reyndist haldinn galla sem leiddi til þess að rafmagni sló út í íbúð hans. Álitsbeiðandi reyndi sjálfur að komast að því af hverju útslátturinn stafaði en þegar það tókst ekki kallaði hann til rafvirkja sem fann orsökin. Álitsbeiðandi greiddi rafvirkjanum tveggja tíma vinnu og taldi að seljandi ísskápsins ætti að greiða sér fjárhæð reikningsins. Kærunefndin taldi að um afleitt tjón af gallanum væri að ræða sem seljanda bæri að bæta álitsbeiðanda.
Mál nr. 12/2008
Kaup á bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti bifreið sem hafi verið flutt inn notuð og hafði seljandi notað hana um skeið hér á landi. Þegar álitsbeiðandi keypti bifreiðina hafði henni verið ekið 56.000 kílómetra. Eftir að álitsbeiðandi hafði átt bifreiðina í tæpa tvo mánuði og ekið henni 4.000 kílómetra bilaði hún. Kærunefndin taldi óupplýst að orsakir bilunarinnar hefðu verið til staðar þegar álitsbeiðandi keypti bifreiðina og áleit að hann yrði að bera tjón sitt sjálfur.
Mál nr. 11/2008
Kaup á rúmi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti rúm með dýnu. Henni líkaði ekki alls kostar við rúmið og komst að samkomulagi við seljanda um að hún mætti skila því og fá annað í staðinn. Áður en til þess kom hafði rúmdýnan skemmst og vildi seljandi ekki taka við rúminu í því ásigkomulagi. Kærunefndin féllst á að seljanda væri það ekki skylt.
Mál nr. 10/2008
Sjónvarp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypt sjónvarp. Eftir að hafa notað sjónvarpið í tvö ár og sjö mánuði bilaði það. Var ekki talið svara kostnaði að gera við tækið og var byggt á því að sjónvarpið væri ónýtt. Álitsbeiðandi taldi sig eiga rétt á því að fá nýtt sjónvarp sömu tegundar. Seljandi bauð honum hins vegar 20% afslátt af nýju tæki.
Álitsbeiðandi bar fljótlega fyrir sig gallann. Kærunefndin taldi að ekki væri hægt að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll hvern mætti telja eðlilegan endingartíma sjónvarps, en búast mætti við að sjónvarp eins og álitsbeiðandi keypti entist lengur en raunin varð. Var því talið að seljanda bæri skylda til þess að leggja álitsbeiðanda til nýtt sams konar eða sambærilegt sjónvarpstæki. Álitsbeiðanda bæri hins vegar að greiða seljanda fyrir þau not sem hann hafði haft af sjónvarpstækinu.
Mál nr. 9/2008
Símkort. Neytendakaup.
Álitsbeiðendur keyptu tvö símkort á Keflavíkurflugvelli á leið sinni til Bandaríkjanna. Þær sögðust ekki hafa fengið upplýsingar um að kortin væri ekki hægt að nota í Bandaríkjunum. Álitsbeiðendur kröfðust þess að seljandi greiddi reikninga sem þeim voru gerðir fyrir notkun GSM síma þeirra í Bandaríkjunum þar sem kortin hefðu ekki komið þeim að notum. Seljandi kvaðst hafa upplýst álitsbeiðendur sérstaklega um að ekki væri hægt að nota símkortin í Bandaríkjunum og mótmæltu álitsbeiðendur því ekki þótt tækifæri gæfist til. Kröfum álitsbeiðanda var því hafnað.
Mál nr. 8/2008
Reikningar. Dráttarvextir. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi samdi við arkitektastofu um að teikna breytingar á húsi. Hann krafðist þess að kærunefndin gæfi álit sitt á því hvort arkitektastofunni væri ekki skylt að sundurliða reikninga fyrirtækisins og að hann ætti rétt á að fá dráttarvexti af ógreiddum hluta reikninganna fellda niður vegna þess að stofan hefði ekki orðið við kröfu hans um sundurliðun. Undir meðferð málsins fékk álitsbeiðandi reikningana sundurliðaða með fullnægjandi hætti. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti ekki rétt að lögum til þess að fá dráttarvexti fellda niður á þeim forsendum að reikningarnir hefðu ekki verið sundurliðaðir. Hins vegar bauðst arkitektastofan til þess að fella niður helming dráttarvaxta og var áfallinn innheimtukostnaður lækkaður í samræmi við það
Mál nr. 6/2008
Teikning af viðgerðum á húsi. Þjónustukaup.
Álitsbeiðendur sömdu við fyrirtæki um að skoða hverju sætti að raki var í hluta þaks á húsi þeirra og að koma í veg fyrir hann. Í áliti kærunefndarinnar í málinu nr. M-38.2007 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að álitsbeiðendur ættu ekki rétt á afslætti af reikningi fyrirtækisins fyrir veitta þjónustu. Fram kom í gögnum málsins að í fórum fyrirtækisins væri teikning af nauðsynlegum framkvæmdum sem álitsbeiðendur gætu fengið í hendur og tók kærunefndin mið af því í áliti sínu. Teikningin barst álitsbeiðendum ekki og endurupptók kærunefndin þá málið að ósk þeirra, sem mál nr. 6/2008. Niðurstaða kærunefndarinnar í málinu var sú að afhenti fyrirtækið álitsbeiðendum ekki teikninguna innan tveggja vikna frá því að álitið gekk bæri þeim afsláttur af reikningi fyrirtækisins.
Mál nr. 4/2008
Rúllukragabolur. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti rúllukragabol og í fyrsta skipti sem hún klæddi sig úr honum rakst fingur hennar í gegnum bolinn. Seljandi skoðaði ummerkin og reif stærra gat á bolinn og ónýttist bolurinn álitsbeiðanda að fullu við það. Kærunefndin áleit að af þessum sökum ætti seljandi að endurgreiða álitsbeiðanda kaupverðið
Mál nr. 3/2008
Sófi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti leðursófa sem óumdeilt var að reyndist gallaður. Samkomulag varð um að seljandi legði álitsbeiðanda til nýjan sams konar sófa eða sófa af þeirri gerð sem álitsbeiðandi gæti sætt sig við. Nokkrir mánuðir liðu án þess að úr gallanum tækist að bæta með því að álitsbeiðandi fengi nýjan sófa. Seljandi pantaði að lokum nýjan sams konar sófa sem álitsbeiðandi kvaðst ekki hafa vitað um. Um 9 mánuðir höfðu liðið frá því að álitsbeiðandi kvartaði þar til seljandi tilkynnti henni að hann gæti afhent nýjan sams konar sófa og hún hafði keypt. Álitsbeiðandi hafði þá keypt nýjan sófa og áleit kærunefndin að of langur tími væri liðinn frá því að kvörtun barst og þar til boðnar voru fram fullnægjandi úrbætur á gallanum og úrbótaréttur seljanda því fallinn niður. Kærunefndin féllst á það að álitsbeiðandi ætti rétt að endurgreiðslu kaupverðsins úr hendi seljanda.
Mál nr. 2/2008
Bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti á bílasölu 10 ára gamla jeppabifreið sem hafi verið ekið tæplega 200 þúsund kílómetra. Meðal skráðra upplýsinga um bifreiðina á bílasölunni var að vél hennar og túrbína væru nýupptekin. Þær upplýsingar voru ekki réttar því að einungis efri hluti vélarinnar hafði verið tekinn upp svo og túrbínan. Eftir tæpan mánuð bilaði vélin og lét álitsbeiðandi gera við hana. Krafðist hann þess að seljandi tæki þátt í viðgerðarkostnaðinum. Kærunefndin áleit að þar sem álitsbeiðanda hefðu verið gefnar rangar upplýsingar við kaup bifreiðarinnar ætti hann rétt á afslætti af kaupverðinu.
Mál nr. 1/2008
Smurþjónusta bifreiðar. Þjónustukaup.
Eigandi jeppabifreiðar með díselvél óskaði eftir smurþjónustu hjá verkstæði, sem annaðist þá þjónustu í fjögur skipti. Verkstæðið skipti ekki um eldsneytissíu í bifreiðinni. Frá því að það hafði verið síðast gert og þar til verkstæðið veitti þjónustu í síðasta skiptið var bifreiðinni ekið rúmlega 31.000 kílómetra. Skemmdir urðu á hráolíuverki bifreiðarinnar. Upplýst var talið að vatn hefði komist í olíuverkið vegna þess að ekki hafði verið skipt um eldsneytissíuna, en vatnið fraus og olli það skemmdunum. Kærunefndin taldi að samkvæmt ákvæðum þjónustukaupalaga bæri smurverkstæðinu að bæta álitsbeiðanda það tjón sem hann varð fyrir vegna skemmda á olíuverkinu.
Mál nr. 48/2007
Spegill í baðherbergi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti spegil með ljósum í baðherbergi og voru þau með sérstökum slökkvara. Þegar ljósin höfðu verið tengd heyrðist hátt suð í þeim. Undan þessu kvaðst álitsbeiðanda hafa kvartað við seljanda og viljað skila speglinum. Seljandi hafi hafnað því og sagt að álitsbeiðanda hafi verið tjáð við kaupin að ekki ætti að nota slökkvarann sem ljósunum fylgdi heldur þyrfti að tengja þau við slökkvara í baðherberginu. Við þetta kannaðist álitsbeiðandi ekki, en seljandi fullyrti í andsvörum sínum að álitsbeiðanda og öllum kaupendum sams konar spegla væri gerð grein fyrir þessu. Stóð þannig staðhæfing gegn staðhæfingu. Kærunefndin áleit að seljandi yrði að bera hallann af skorti á sönnun fyrir því að álitsbeiðandi hafi verið látinn vita af því að tengja þyrfti ljósin með sérstökum hætti. Kærunefndin áleit hins vegar að ekki væri um að ræða galla af því tagi sem heimilaði álitsbeiðanda að rifta kaupunum heldur ætti hann rétt á afslætti af kaupverði.
Mál nr. 47/2007
Tölva. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti fartölvu og kom í ljós fljótlega eftir kaupin að hún var gölluð. Var ekki talið svara kostnaði að gera við hana. Krafðist álitsbeiðandi þess að fá sambærilega tölvu í staðinn en seljandi hafði látið henni í té ódýrari tölvu sem ekki var með dvd drifi. Þar sem seljandi hafði ekki látið kaupanda fá sambærilega tölvu taldi kærunefndin að hún ætti rétt til þess eða að fá kaupverðið endurgreitt, gegn skilum á þeirri tölvu sem seljandi hafði lagt álitsbeiðanda til.
Mál nr. 46/2007.
Sjónvarp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp með plasmaskjá. Í notkunarbæklingi sem fylgdi sjónvarpinu var tekið fram að þess yrði að gæta m.a. að textavarp væri ekki haft óhreyft á skjánum í lengri tíma. Það gæti orðið til þess að myndin festist varanlega á skjánum. Í bæklingnum var tekið fram að framleiðandi firrti sig ábyrgð á slíkum skemmdum. Kærunefndin áleit að samkvæmt þessum fyrirvara ætti álitsbeiðandi ekki rétt á að rifta kaupum á sjónvarpinu
Mál nr. 44/2007.
Baðkör. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti baðkar sem hann skilaði og fékk annað í staðinn. Kærunefndin taldi að fyrra baðkarið hefði ekki verið gallað og því ekki forsendur til að rifta þeim kaupum. Baðkarið skemmdist við not álitsbeiðanda og var það selt aftur á hálfvirði. Seljandi krafðist þess að álitsbeiðandi greiddi helming kaupverðsins þar sem hann hefði fengið nýtt baðkar í staðinn. Kærunefndin féllst á að seljandi ætti rétt til þess.
Nýrra baðkarinu fylgdu leiðslur með vírkápu til að tengja það við vatn. Heitavatnsleiðslan fór í sundur eftir skamman tíma og urðu vatnsskemmdir í íbúð álitsbeiðanda. Skilaði álitsbeiðandi baðkarinu og krafðist endurgreiðslu þess. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að heitavatnsleiðslan hefði ekki staðist þær kröfur sem gera mætti til leiðslu af því tagi og hefði því verið gölluð. Áleit kærunefndin að álitsbeiðandi ætti rétt á að rifta kaupunum eins og málum var komið og fá kaupverð baðkarsins endurgreitt.
Mál nr. 43/2007.
Straumbreytir. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti straumbreyti fyrir fartölvu ásamt tilheyrandi leiðslum, en sérstakur leiðarvísir um notkun fylgdi ekki. Álitsbeiðandi tengdi leiðsluna milli tölvu og straumbreytis á rangan hátt sem varð til þess að móðurborð tölvunnar eyðilagðist. Kærunefndin taldi að ljóst ætti að vera af því hvernig straumbreytirinn og leiðslan væru úr garði gerð á hvern hátt ætti að haga tengingunni. Væri það gert með röngum hætti þyrfti að beita til þess töluverðu og óeðlilega miklu afli. Seljanda yrði þannig ekki gefið að sök hvernig fór og yrði álitsbeiðandi að bera tjón sitt sjálfur.
Mál nr. 42/2007
Ísskápur. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp sem varð ónýtur eftir þriggja ára notkun. Kærunefndin taldi að miða yrði við að heimilistæki eins og ísskápurinn ætti að geta enst bilanalaust eða bilanalítið í 5-10 ár, jafnvel lengur. Væri ísskápurinn því enn í ábyrgð seljanda samkvæmt ákvæðum neytendakaupalaga og ætti álitsbeiðandi því rétt til að fá endurgreiðslu kaupverðsins. Þó yrði að taka tillit til þess við ákvörðun fjárhæðar endurgreiðslunnar að álitsbeiðandi hefði haft not af ísskápnum þar til hann varð ónýtur. Álitsbeiðandi gerði kröfu um að fá bætur fyrir missi afnota af skápnum í 38 daga. Kærunefndin féllst ekki á þá kröfu að með vísan til þess að í neytendakaupalögunum væri ekki gert ráð fyrir því að seljandi greiddi slíkar bætur nema um væri að ræða fjárhagslegt tjón sem rakið yrði til sakar seljanda.
Mál nr. 41/2007
Sófi. Neytendakaup.
Álitsbeiðendur keyptu sófa og sögðu að eftir 6 mánaða notkun hefði komið í ljós galli í áklæðinu. Kvörtuðu þau við seljanda sem viðurkenndi að um galla væri að ræða og sögðu álitsbeiðendur hann hafa lofað því að leggja þeim til nýjan sófa. Hefðu þau skilað sófanum í verslunina. Ekki hefðu þau þó fengið nýjan sófa og vildu því fá andvirði sófans endurgreitt. Seljandi bauðst til að greiða hluta andvirðisins og bar m.a. fyrir sig að sófinn hefði verið svo illa farinn af notkun álitsbeiðenda að honum væri ekki unnt að selja sófann sem útlitsgallaða vöru. Kærunefndi taldi gallann verulegan og ættu álitsbeiðendur rétt á því að fá kaupverð sófans endurgreitt. Hvorki væri upplýst af hálfu seljanda að slíka vöru væri hægt að selja á nýjan leik eða hvað gæti þá fengist fyrir hana. Væru ekki forsendur fyrir því að taka tillit til þessa við ákvörðun fjárhæðar endurgreiðslunnar. Hins vegar yrði að taka tillit til þess við ákvörðunina að álitsbeiðendur hefðu haft not af sófanum og eins að seljanda bæri að greiða vexti af endurgreiðslunni.
Mál nr. 40/2007
Tölva. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti fartölvu í mars 2005. Eftir að hafa notað hana í 2 ár og 7 mánuði varð tölvan ónýt, en vottað var af viðgerðarmanni að ekki hefði verið farið illa með hana. Álitsbeiðandi gerði þá kröfu á hendur seljanda að hann greiddi honum kaupverð sambærilegrar tölvu. Því hafnaði seljandi á þeim forsendum að tíminn sem ábyrgð hefði verið tekinn á tölvunni væri 2 ár og því liðinn. Kærunefndin taldi að eðlilegur líftími fartölva gæti verið mismunandi langur. Hins vegar væri fartölvan framleidd af þekktum og grónum framleiðanda og þeir sem keyptu tölvur þessarar tegundar mættu almennt búast við því að þær entust lengur en í tvö ár. Seljanda bæri því að greiða álitsbeiðanda skaðabætur sem voru ákveðnar með tilliti til þess að álitsbeiðandi hefði haft snurðulaus not af tölvunni þar til hún varð ónýt.
Mál nr. 39/2007
Ísskápur. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti ísskáp á raðgreiðslum. Á raðgreiðslusamningnum var tilgreind 5.000 kr. lægri fjárhæð en á reikningi fyrir kaupum ísskápsins. Seljandi komst að því eftir æði langan tíma og vildi fá mismuninn greiddan. Álitsbeiðandi vildi ekki greiða og taldi að fyrirtækið yrði að bera skaðann af því að hafa ekki tilgreint rétta fjárhæð á raðgreiðslusamningnum. Kærunefndin taldi að álitsbeiðandi hefði ekki greitt það verð sem um hefði verið samið og fram kæmi á reikningnum og bæri honum því að greiða seljanda kr. 5.000.
Mál nr. 38/2007
Skoðun á raka í húsi. Þjónustukaup.
Álitsbeiðendur sömdu við fyrirtæki um að skoða hverju sætti að raki var í hluta þaks í húsi þeirra og að koma í veg fyrir hann. Skoðunin tók töluverðan tíma og að henni lokinni fengu álitsbeiðendur fyrst reikning fá verkfræðingi sem komið hafði að skoðuninni á vegum fyrirtækisins og síðan frá fyrirtækinu sem þau höfðu samið við. Álitsbeiðendur greiddu reikning verkfræðingsins en fengu ekki niðurstöður skoðunarinnar og tillögur til úrbóta í hendur fyrr en þau greiddu reikning fyrirtækisins, sem þau gerðu með fyrirvara um réttmæti hans. Í framhaldi af því hófust samningsumleitanir á milli álitsbeiðanda og verkfræðingsins og fyrirtækisins um framkvæmd úrbótanna og verð þeirrar vinnu sem ekki tókust. Álitsbeiðendur gerðu í framhaldi af því kröfu um að þau fengu reikning fyrirtækisins endurgreiddan, en þau töldu að skoðunin á orsökum rakans og skýrsla um hana væri þeim gagnslaus. Kærunefndin féllst ekki á það og taldi sig ekki hafa forsendur til þess að álíta að lækka ætti reikning fyrirtækisins hvað þá að fyrirtækið ætti ekkert að fá greitt fyrir vinnu sína.
Mál nr. 34/2007
Sjónvarp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti notað sjónvarp sem hún taldi gallað á þann hátt að truflanir yrðu á skjánum. Gerði hún þá kröfu til verslunarinnar, þar sem sjónvarpið var upphaflega keypt, að sér yrði lagt til nýtt sjónvarp sömu gerðar. Kærunefndin lét prófa sjónvarpið á tveimur viðgerðarverkstæðum og komu engar truflanir fram í því. Talið var líklegt að tengingar við sjónvarpið yllu truflununum, en verslunin hafði ekki lagt þær til. Kröfum álitsbeiðanda var því hafnað.
Mál nr. 37/2007
Eldhúsinnrétting. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti eldhúsinnréttingu sem reyndist gölluð. Vildi hann rifta kaupunum. Álitsbeiðandi kvað seljanda hafa fallist á að samkvæmt ábyrgðarskilmálum ætti hann að bæta úr göllunum og lofað að gera það. Við loforðið hefði hann ekki staðið þrátt fyrir að þess hefði ítrekað verið farið á leit við hann. Seljandi nýtti sér ekki andmælarétt. Kærunefndin taldi að úr göllunum væri hægt að bæta og að þeir væru ekki slíkir að álitsbeiðanda væri heimil riftun. Þar sem seljandi hafði ekki staðið við úrbótaskyldu sína taldi kærunefndin að álitsbeiðandi ætti rétt á að láta laga þá hluta innréttingarinnar sem væru gallaðir eða fá nýja í þeirra stað á kostnað seljanda.
DVD bíltæki. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti DVD bíltæki sem hann taldi að hefði verið gallað frá upphafi og vildi rifta kaupunum. Skýringar hans á því hvernig gallinn lýsti sér voru óljósar. Seljandi sagði að í tvö skipti sem álitsbeiðandi hefði komið með tækin til sín hefði ekki annað verið að þeim en hlaða hefði þurft þráðlausu höfuðtólin. Í þriðja skiptið sem álitsbeiðandi hefði komið, og þá krafist endurgreiðslu tækjanna, hefði hann m.a. boðið honum ný tæki. Það hefði álitsbeiðandi ekki þegið og sagst vera búinn að kaupa önnur tæki. Þessu andmælti álitsbeiðandi ekki þótt tækifæri gæfist til. Kærunefndin taldi að seljandi hefði boðið álitsbeiðanda fullnægjandi úrbætur og hefði hann því fyrirgert rétti sínum til riftunar hefði sá réttur verið fyrir hendi á annað borð.
Mál nr. 35/2007
Eldhúsinnrétting. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti eldhúsinnréttingu með 10 ára ábyrgð. Eftir fjögurra ára notkun varð málning á innréttingunni mött á köflum auk þess sem hún flagnaði sums staðar af á köntum. Álitsbeiðandi vildi rifta kaupunum og fá nýja innréttingu. Seljandi bauð fram ákveðnar lagfæringar á innréttingunni en vildi ekki skipta um alla framhlið hennar. Kærunefndin taldi að gallar á innréttingunni væru ekki slíkir að það heimilaði álitsbeiðanda riftun kaupanna. Kærunefndin taldi hins vegar að til viðbótar því sem seljandi bauðst til að bæta ætti hann að greiða að hálfu á móti álitsbeiðanda þann kostnað sem leiddi af því að skipta út allri framhlið innréttingarinnar.
Mál nr. 33/2007
Ískápur. Neytendakaup
Álitsbeiðandi keypti ísskáp í júlí 2004 og fékk 35% afslátt af kaupverði. Eftir u.þ.b. þrjú ár bilaði vatnskælivél skápsins og var gert við hana. Viðgerðin kostaði kr. 30.000. Álitsbeiðandi vildi rifta kaupunum og fá kaupverðið endurgreitt. Seljandi taldi að lög nr. 48/2003 um neytendakaup ættu ekki við um kaupin en því hafnaði kærunefndin. Seljandi féllst þá á það að honum bæri að greiða viðgerðarkostnaðinn. Kærunefndin hafnaði því að álitsbeiðandi ætti rétt á að rifta kaupunum en taldi að seljandi ætti að greiða þann kostnað sem leitt hefði af viðgerðinni.
Gólfefni. Neytendakaup. Frávísun.
Álitsbeiðandi keypti gólfolíu og gólflakk hjá verslun til þess að bera á parket sem hafði verið slípað. Í ljós kom að lakkið virtist hlaupa og loða illa við parketið auk þess sem það harðnaði ekki eðlilega. Lakkið var hreinsað af gólfinu og á það borin sömu efni á nýjan leik með betri árangri en ekki fullnægjandi. Í ljós kom að gólfefnin hentuðu ekki á þá tegund parkets sem á gólfinu var. Álitsbeiðandi gerði skaðabótakröfu á hendur versluninni að fjárhæð kr. 2.500.000. Kærunefndin taldi að skaðabótaskylda og fjárhæð bóta væri undir því komin hver ætti sök á því hvernig fór og eins hvort álitsbeiðandi hefði reynt að takmarka tjón sitt eftir föngum. Um þessi atriði stóð staðhæfing gegn staðhæfingu. Kærunefndin taldi upplýsingar um málsatvik vera takmarkaðar og ekki á færi nefndarinnar að afla nægjanlegra upplýsinga til þess að henni væri unnt að taka efnislega afstöðu til ágreiningsins. Kærunefndin vísaði því álitsbeiðninni frá með heimild í 7. gr. reglugerðar nr. 766/2006 um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.
Viðgerð á bifreið. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi samdi við verkstæði um viðgerð á bifreið sem lent hafði í umferðaróhappi og skemmst mikið. Áætlun var gerð um kostnað við vinnu á verkstæðinu en ekki um hve langan tíma viðgerðin tæki, en það urðu 9 mánuðir. Álitsbeiðandi taldi galla vera á viðgerðinni sem hann vildi fá bætur fyrir auk bóta fyrir tjón vegna afnotamissis þar sem viðgerðin hefði tekið óeðlilega langan tíma þrátt fyrir eftirrekstur. Kærunefndin taldi að meiri skemmdir hefðu orðið á bifreiðinni en viðgerðin náði til og hefði það komið í veg fyrir að hún hefði verið fullnægjandi á ákveðnum stöðum. Engu að síður hefðu ákveðnir þættir viðgerðarinnar þó átt að vera betri. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti rétt á bótum frá verkstæðinu til að kosta lagfæringar á viðgerðinni á ákveðnum stöðum auk nokkurra bóta fyrir afnotamissi.
Viðgerð á húsbíl. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi óskaði eftir viðgerð á húsbíl sem gekk aðeins í lausagangi. Langan tíma tók að finna hvað að var sem reyndist auðvelt að gera við þegar til kom. Verkstæðið gaf álitsbeiðanda 40% afslátt af vinnu og varahlutum og taldi kærunefndin ekki efni til þess að ákveða álitsbeiðanda frekari afslátt. Hins vegar taldi kærunefndin að ástæðulaust hefði verið að láta yfirfara eldsneytisloka bifreiðarinnar með þeim hætti sem gert var. Sú vinna fór fram á öðru verkstæði sem álitsbeiðandi greiddi sérstaklega fyrir. Kærunefndin taldi að verkstæðinu sem var með húsbílinn til viðgerðar bæri að greiða álitsbeiðanda sömu fjárhæð og hann hafði greitt fyrir að yfirferðina á eldsneytislokunum.
Sjónvarp. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sjónvarp sem reyndist gallað og viðgerð á því tókst ekki. Seljandi gat ekki útvegað álitsbeiðanda sams konar sjónvarp eins og hann gerði kröfu til, en bauð dýrari sjónvörp í staðinn með afslætti af verðmismun eða DVD tæki í skaðabætur. Kærunefndin áleit að álitsbeiðandi ætti rétt á því að rifta kaupunum og að fá endurgreidda ákveðna fjárhæð með tilliti til nota af tækinu og skyldu seljanda til að greiða vexti.
Þvottavél. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti þvottavél. Hann kvartaði undan því að þvottavélin rifi þvottinn og einnig að í hann kæmu gráir blettir. Þá hefði þvottavélin lekið og skemmt innréttingu. Vildi álitsbeiðandi rifta kaupunum og fá greiddar skaðabætur. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að þær ástæður sem álitsbeiðandi taldi að heimiluðu honum að rifta kaupunum og að fá greiddar skaðabætur yrðu ekki raktar til þess sem telja mætti galla á þvottavélinni eða það hefði verið leitt í ljós. Var því kröfum álitsbeiðanda hafnað.
Bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti viðgerða fólksbifreið sem hafði verið ekið á ljósastaur. Af myndum að dæma, sem kærunefndin fékk í hendur, voru skemmdir á bifreiðinni verulegar og þrír loftpúðar af fjórum sprungu út. Gert var við bifreiðina en ekki á vottuðu réttingaverkstæði. Í afsal var skráð að bifreiðin hefði lent í óhappi og loftpúða vantaði. Eftir nokkurn akstur bræddi vél bifreiðarinnar úr sér og var það vegna þess að olía hafði lekið af vélinni. Var miðað við að það hefði ekki sést á olíumæli. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að lekinn stafaði af þeim skemmdum sem bifreiðin varð fyrir og því hefði hún verið haldin galla við kaupin sem álitsbeiðandi hefði ekki mátt gera sér grein fyrir enda þótt hann vissi að bifreiðin hefði lent í óhappi. Vanefndir seljanda voru þó ekki taldar þess eðlis að álitsbeiðandi ætti rétt á því að rifta kaupunum eins og þeim var háttað heldur ætti hann rétt á afslætti af kaupverði.
Mál nr. 25/2007
Hleðslutæki tölvu. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti fartölvu. Hleðslutæki, þ.e. tæki sem flytur rafmagn til tölvunnar, breytir spennu þess og hleður batterí tölvunnar, reyndist gallað og fékk álitsbeiðandi nýtt hleðslutæki. Álitsbeiðandi kvað síðara hleðslutækið hafa bilað eftir ársnotkun en seljandi hefði ekki viljað láta sig fá nýtt í staðinn þar sem hann teldi að bilunin stafaði af rangri notkun tækisins. Rafmagnsleiðslan og hleðslutækið sjálft er ein heild og því ekki hægt að skipta um annað hvort.
Við skoðun á tækinu kom í ljós að rafmagnsleiðslan frá því til tölvunnar var slitin og einangrun hennar brotin og í sundur á einum stað þannig að sást í rafmagnsvírana. Kærunefndin taldi að ástæða þessa væri sú að leiðslunni hefði verið vafið svo þétt um tækið að hún hefði skemmst við það. Bilunin væri því notkuninni að kenna og bæri seljandi ekki ábyrgð á því.
Mál nr. 24/2007
Viðgerð á tölvu. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi lét tölvu sína í viðgerð, en hún var um þriggja ára gömul. Móðurborð tölvunnar eyðilagðist af ástæðum sem raktar urðu til viðgerðarinnar. Tölvan fór aftur í viðgerð. Viðgerðaraðili setti ekki sams konar móðurborð í tölvuna og í henni var og hefði þurft að breyta tengingum við móðurborðið sem í tölvuna var sett sem ekki var gert. Tókst viðgerðin því ekki. Álitsbeiðandi kom með tölvuna í þriðja skiptið og vildi að í hana yrði sett móðurborð sömu tegundar og var í henni upphaflega. Viðgerðaraðili vildi ljúka viðgerðinni og skila álitsbeiðanda tölvunni í fullkomnu lagi, en féllst ekki á að kaupa nýtt móðurborð sömu tegundar og í henni var, sem kostaði kr. 20.000 hér á landi. Taldi hann það valda óhæfilega miklum kostnaði við viðgerðina og bar fyrir sig 1. mgr. 11. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Viðgerðaraðili upplýsti að sams konar móðurborð væri hægt að kaupa í Evrópu fyrir kr. 2.500-3.000. Álitsbeiðandi tók tölvuna úr viðgerð áður en henni var lokið og bað í framhaldi af því um álit kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa.
Kærunefndin taldi að viðgerðaraðilinn ætti rétt að því að ljúka viðgerðinni á tölvunni og bæri honum að nota við viðgerðina móðurborð sömu tegundar og í tölvunni hefði verið. Hann ætti rétt á því að útvega slíkt móðurborð frá Evrópu og spara sér þannig kostnað. Álitsbeiðandi yrði að una því þótt það tefði viðgerðina eitthvað. Að öðrum kosti ætti viðgerðaraðili að ljúka viðgerðinni með því að kaupa móðurborð hérlendis á kr. 20.000 sem yrði, eins og atvikum málsins var háttað, ekki talinn hlutfallslega of mikill kostnaður við viðgerðina.
Sófi. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti sófa og kom galli fram í áklæði hans. Var það óumdeilt. Álitsbeiðandi óskaði eftir því að fá nýjan sams konar sófa, nýtt áklæði eða kaupverð sófans endurgreitt. Seljandi féllst á að útvega nýjan sófa og bað álitsbeiðanda að velja áklæði á hann. Það dró álitsbeiðandi í nokkra mánuði og þegar til kom var erlendur framleiðandi sófans gjaldþrota og því ómögulegt að fyrir seljanda að útvega nýjan sams konar sófa. Ekki var talið nægilega upplýst hvað kosta myndi að fá nýtt áklæði á sófann og setja það á og því treysti kærunefndin sér ekki til þess að taka afstöðu til þess hvort kaupandi ætti rétt á þeim úrbótum. Kærunefndin taldi hins vegar að kaupandi ætti rétt að rifta kaupunum og fá endurgreiðslu. Fjárhæð endurgreiðslunnar var ákveðin með tilliti til þess að álitsbeiðandi hafði haft not af sófanum ógölluðum í nokkra mánuði og einnig eftir það, svo og með tilliti til skyldu seljanda til að greiða vexti af endurgreiðslunni.
Mál nr. 21/2007
Bifreið. Lausafjárkaup.
Álitsbeiðandi keypti 6 ára gamlan jeppa sem ekið hafði verið 77.000 kílómetra. Skömmu eftir kaupin kvaðst hann hafa þurft að bæta vatni á kælikerfið og aftur á nýjan leik í framhaldi af því. Þá hefði smurþrýstingur í vél verið óeðlilega lágur. Við skoðun og viðgerð hefði komið í ljós að „hedd“ vélarinnar hafi verið sprungið. Þegar vélin hafi verið tekin úr bifreiðinni hafi komið í ljós að kambáslegur voru mjög slitnar og hefði það valdið lágum olíuþrýstingi í vélinni. Var gert við hvorutveggja og krafðist álitsbeiðandi að seljandinn greiddi þann viðgerðarkostnað.
Kærunefndin taldi að sterkar líkur væru á því að „heddið“ hefði verið sprungið þegar kaupin fóru fram og kostnað við þá viðgerð ætti seljandinn að greiða. Við kaupin hefði átt að sjást hver olíuþrýstingur á vél var en hefði hann lækkað eftir að kaupin fóru fram væri ekki við seljanda að sakast. Rekja mætti ástæðuna til slits á ákveðnum vélarhluta og þótt það slit kynni að vera töluvert miðað við aldur og akstur bifreiðarinnar væri ekki hægt að líta á það sem galla í skilningi 19. gr. lausafjárkaupalaga. Áleit kærunefndin að seljanda væri ekki skylt að greiða kostnað við þennan hluta viðgerðarinnar.
Mótorhjól. Neytendakaup.
Álitsbeiðandi keypti mótorhjól af bílabúð sem hann taldi vera gallað. Hjólið hafi staðið í versluninni og var um þriggja ára gamalt en ónotað. Eftir um 17 klst. akstur bilaði vél hjólsins, sem lýsti sér í því að festing á knastás brotnaði og vélarolían rann að nokkru leyti af vélinni í gírkassa hjólsins. Vélin bræddi þó ekki úr sér. Ósannað þótti að þessi bilun stafaði af því að álitsbeiðandi hefði ekki gætt þess að setja olíu á vélina. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að um ekki óverulegan galla væri að ræða á mótorhjólinu. Álitsbeiðandi ætti því rétt á að rifta kaupunum og fá kaupverðið endurgreitt.
Farsími. Þjónustukaup.
Álitsbeiðandi óskaði eftir viðgerð á farsíma. Honum var fengin í hendur verkbeiðni og í formi beiðninnar var setning þar sem sagði að viðgerðaraðili tæki ekki ábyrgð á gögnum sem í símanum væru. Álitsbeiðandi kvaðst hafa beðið um að gögnin yrðu pössuð sem skilja varð þannig að þess yrðu gætt að þau glötuðust ekki þegar gert yrði við símann. Var þessi ósk sérstaklega skráð í verkbeiðnina. Hins vegar fór svo að gögnin glötuðust og var niðurstaða kærunefndarinnar sú að álitsbeiðandi ætti rétt á bótum fyrir þau óþægindi og fyrirhöfn sem af því leiddi fyrir hann þar sem hann hafði sérstaklega beðið um að gagnanna yrði gætt.
Mál nr. 15/2007
Tölva. Neytendakaup/þjónustukaup.
Álitsbeiðandi kvaðst hafa keypt tölvu af fyrirtæki hér í borg. Sú tölva reyndist gölluð og sagðist álitsbeiðandi hafa fengið aðra tölvu sömu tegundar hjá fyrirtækinu. Síðari tölvan bilaði og lýsti bilunin sér í galla í móðurborði. Krafðist álitsbeiðandi þess að fá nýja tölvu í staðinn eða kaupverðið endurgreitt. Seljandinn taldi sér ekki skylt að verða við þessum kröfum þar sem álitsbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að tölvan hefði verið keypt hjá fyrirtækinu en ekkert fyndist um kaupin í tölvukerfi þess. Tölvur þessarar tegundar væru og til sölu hjá öðrum verslunum. Að þessum mótmælum fengnum bað kærunefndin álitsbeiðanda um að leggja fram gögn um kaup sín á tölvunum sem hann ekki gerði. Taldi kærunefndin því ekki forsendur til þess að verða ætti við kröfum álitsbeiðanda
Mál nr. 14/2007
Myndavél. Neytendakaup.
Kaupandi keypti um mitt ár 2005 myndavél af gerðinni Konica Minolta Dimage Z20 fyrir tæpar kr. 25.000. Á myndavélina var hægt að taka vídeómyndir. Kaupandi sagði að auglýst hefði verið að vídeómyndunum ætti að fylgja hljóð. Seljandi kannaðist ekki við það og sagði að myndavélin hefði ekki verið auglýst í blöðum. Í bæklingi sem myndavélinni hefði fylgt kæmi fram að hljóð fylgdi ekki vídeómyndunum. Kaupandi skilaði myndavélinni og fékk aðra sömu tegundar í staðinn en í þeirri myndavél var hljóð með vídeómyndunum. Kaupandinn var óánægður með þessa myndavél, myndir sem á hana væru teknar væru lélegar. Myndavélin væri gölluð og sendi kaupandi seljanda hana til skoðunar. Seljandi kvaðst hafa hreinsað linsu myndavélarinnar sem hefði verið óhrein og myndavélin stillt á minnstu myndgæði. Auk þess hefði hann sett í vélina 512 MB kort í staðinn fyrir 16 MB kort sem í henni hefði verið. Að svo búnu sendi seljandinn kaupanda vélina til baka. Kaupandinn var áfram óánægður með gæði myndanna, taldi myndavélina gallaða, vildi skila henni og fá kaupverðið endurgreitt sem seljandi samþykkti ekki.
Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að kaupandi hefði ekki leitt í ljós að sérstakur galli væri á myndavélinni í skilningi laga nr. 48/2003 um neytendakaup og því yrði að hafna kröfum kaupandans.
Ísskápur. Neytendakaup.
Kaupandi keypti notaðan ísskáp tæplega 2½ árs gamlan. Seljandi var sú verslun sem selt hafði skápinn nýjan. Eftir mánaðar notkun eða svo bilaði ísmolavél í skápnum. Viðgerðarmaður taldi nauðsynlegt að setja nýja ísmolavél í skápinn í stað þeirrar sem biluð var og kostaði það rúmlega kr. 33.000. Kaupandi krafði seljanda um greiðslu þessarar fjárhæðar sem hann neitaði ekki að greiða en óskaði eftir því að fá tækifæri til að kanna af hverju bilunin gæti stafað og hvort honum bæri skylda til þess að greiða. Seljandi kvaðst hafa lofað kaupanda því að hann þyrfti ekki að bera kostnað sem kynni að leiða af því að greiðsla drægist. Kaupandi greiddi engu að síður reikning fyrir kostnaðinum og óskaði álits kærunefndarinnar á því hvort hann ætti ekki rétt á að fá kostnaðinn greiddan úr hendi seljanda. Í andsvörum til kærunefndarinnar kvaðst seljandi enn reiðubúinn til að greiða kostnaðinn en óskaði engu að síður fyrir sitt leyti eftir því að nefndin gæfi álit um það hvort honum bæri skylda til þess.
Kærunefndin taldi að bilunina yrði að telja galla í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup, sbr. 15. gr. sömu laga og að kaupandi ætti rétt á kvörtunarfresti samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna, en sá frestur er að hámarki 5 ár. Af þessum ástæðum væri seljanda skylt að greiða kostnaðinn við skipti á ísmolavélinni.
Uppþvottavél. Neytendakaup.
Kaupendur uppþvottavélar leituðu álits á því hvort seljandi hennar gæti undanskilið sig ábyrgð á galla sem kom fram í vélinni rúmum tveimur árum eftir kaupin. Í leiðbeiningum sem vélinni fylgdu var tekið fram að ábyrgðartími væri 2 ár en seljandi tæki 3 ára ábyrgð á öllum þvottavélum. Talið var að kaupendur ættu rétt á 5 ára kvörtunarfresti samkvæmt ákvæðum laga um neytendakaup, þegar um tæki af þessu tagi væri að ræða, enda þótt seljandi hefði tekið fram að ábyrgðartími væri 2 ár.
Kaupendur töldu að villandi væri að taka fram í leiðbeiningunum að seljandi tæki 3 ára ábyrgð á þvottavélum því að halda mætti að sá ábyrgðartími ætti við uppþvottavélar. Leituðu þeir eftir áliti kærunefndar á þeirri skoðun sinni. Talið var að álitaefni af þessu tagi félli undir lög nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og þar af leiðandi ekki undir kærunefndina.
Fartölva. Neytendakaup.
Kaupandi taldi að galli væri á tölvunni sem lýsti sér í því að hávaði væri í viftu hennar. Hann fór með tölvuna til seljanda þegar rúmt ár var liðið frá kaupunum. Viðgerðarmenn seljanda sögðust þá hafa komið auga á að í tölvuna vantaði skrúfur og hún hefði ekki verið rétt sett saman heldur þvinguð. Talið var að kaupandi hefði ekki sannað að tölvan hefði verið seld honum í því ásigkomulagi. Óljóst var talið hvort hávaði í viftu stafaði af ryki eða samsetningu tölvunnar. Þá var og slitinn loftnetsvír í tölvunni sem leiddi til þess að netkort virkaði ekki sem skyldi. Seljandi lagfærði tölvuna kaupanda að kostnaðarlausu. Í þessu tilviki var sönnunarbyrðin lögð á kaupanda um að gallar, sem hann taldi að væru á tölvunni, væru seljanda um að kenna og talið að honum hefði ekki tekist sú sönnun. Var því hafnað að kaupandi ætti rétt á að fá nýja tölvu eða kaupverð tölvunnar endurgreitt.
Þegar tölvan var í viðgerð hjá seljanda kom sprunga í rammann um skjá tölvunnar. Seljandi hafði boðist til að setja nýjan ramma um skjáinn og var talið að með því yrði kaupanda bættur skaðinn.
Hjólhýsi. Neytendakaup.
Kaupandi keypti sér hjólhýsi. Hann hélt því fram að seljanda hefði verið kunnugt við kaupin að hjólhýsið yrði notað á malarvegum. Seljandi kvaðst hafa gert kaupanda grein fyrir því að hjólhýsið væri ekki ætlað til nota utan vega með bundið slitlag fremur en önnur hjólhýsi. Kaupandinn ók upp á hálendið með hjólhýsið og barst verulegt ryk inn í það. Talið var að miðað við akstur og aðstæður á Íslandi yrðu seljendur hjólhýsa að gera ráð fyrir því að þau væru notuð utan vega með bundið slitlag. Þyldu þau ekki slíka notkun bæri seljanda að gera kaupanda rækilega grein fyrir því sem seljandi var ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hefði gert í þessu tilviki. Kaupandinn var því talinn eiga rétt á því að skila hjólhýsinu og fá kaupverðið endurgreitt með vöxtum.
Mál nr. 9/2007
Fasteignakaup. Frávísun.
Kærunefndin áleit að það heyrði ekki undir valdsvið sitt að gefa álit um ágreininginn þar sem hann væri sprottin af kaupum á fasteign og félli því undir lög nr. 39/1922 eftir því sem við gæti átt, sbr. nú lög nr. 40/2002.
Tjón á bifreið á bílastæði. Þjónustukaup.
Kaupandi geymdi bifreið sína á svokölluðu langtímastæði á Keflavíkurflugvelli gegn gjaldi. Ekið var á bifreiðina á stæðinu en ekki vitað hver það gerði. Á lítt áberandi skilti við innkeyrsluna á bílastæðið stóð m.a. að rekstraraðili bæri ekki ábyrgð á tjóni sem kynni að verða á bifreið á stæðinu. Á sama skilti stóð einnig að stæðið væri vaktað með myndavélum en það var ekki rétt að því er svæðið allt varðaði. Kaupandi gat því ekki fengið myndir af því með hvaða hætti skemmdir á bifreið hans urðu. Rekstraraðili var talinn hafa undanskilið sig ábyrgð á tjóninu samkvæmt því sem á skiltinu stóð um ábyrgð hans. Hins vegar var talið að upplýsingar á sama skilti um að stæðið væri vaktað með myndavélum væru villandi, og því væri um að ræða vanrækslu rekstraraðilans, sem leiddi til þess að hann bæri ábyrgð á tjóni kaupanda.
Mál nr. 7/2007
Kaup á tveimur rafmagnsnuddpottum. Neytendakaup
Kaupandi pantaði tvo rafmagnsnuddpotta og greiddi helming kaupverðsins þegar pöntunin var gerð. Nuddpottana fékk hann ekki afhenta á umsömdum tíma eða síðar. Kærunefndin áleit að kaupandi ætti rétt á að rifta kaupunum og fá greiðslu sína endurgreidda með vöxtum í samræmi við ákvæði 50. gr. laga nr. 48/2003.
Mál nr. 6/2007
Kaup á gleraugum. Neytendakaup.
Kaupandi kvaðst hafa frétt að gleraugnaverslun byði upp á kaup á gleraugum, tvenn fyrir verð eins. Kaupandinn þurfti á margskiptum gleraugum að halda og fékk þau. Komu þau gleraugu honum að tilætluðum notum. Seljandi kvaðst einungis hafa boðið upp á gleraugu svo og gler í sólgleraugu með fjarsýnisstyrkleika þess sem keypti, en áberandi auglýsing hefði hangið uppi í versluninni þar sem gerð hefði verið grein fyrir þessu. Því hefði þetta tilboð ekki verið „tveir fyrir einn“, þ.e. tveir hlutir á verði eins. Kaupandinn kvaðst hafa mátt búast við því að sólgleraugun yrðu einnig með margskiptum glerjum en seljandinn hefði ekki gert sér grein fyrir að svo væri ekki. Kærunefndin áleit að sólgleraugun svöruðu þeirri lýsingu sem var að finna á auglýsingu seljanda og hefði hann mátt búast við því að kaupandinn hefði við kaupin gert sér grein fyrir því. Þóttu því ekki forsendur fyrir því að gefa seljanda vanrækslu að sök við kaupin og því talið að kaupandi ætti ekki kröfur á hendur seljanda.
Mál nr. 4/2007
Kaup á kjól. Neytendakaup.
Kaupandi taldi kjól vera gallaðan af þeim ástæðum að glimmer hefði við notkun, í fyrsta og eina skiptið, hrunið af honum og skilið eftir sig ummerki hvert sem farið var. Kærunefndin fékk kjólinn til skoðunar og komst að þeirri niðurstöðu að telja yrði kjólinn gallaðan. Nefndin féllst á það að kaupandi ætti rétt til að skila kjólnum og fá hann endurgreiddan.
Mál nr. 3/2007
Flísalím. Neytendakaup.
Kaupandi keypti flísar á baðherbergi og flísalím. Flísarnar voru límdar á í áföngum og að sögn kaupanda fóru þær fyrstu að detta af í þann mund að síðustu flísarnar voru límdar. Kaupandi naut aðstoðar iðnaðarmanns við flísalögnina sem ekki var múrari. Kaupandi taldi að límið hefði verið gallað en leiddi ekki aðrar líkur að því en þær að flísarnar hefðu ekki tollað á veggnum. Kærunefndin leitaði álits fagmanns í flísalögnum sem sagði ýmsar aðrar ástæður geta legið til þess að svona fór en að límið hefði verið gallað. Flísalögn væri vandasöm vinna. Kærunefndin taldi ekki í ljós leitt að límið hefði verið gallað og hafnaði því að kaupandi ætti rétt til bóta.
Mál nr. 2/2007
Hægindastóll. Neytendakaup.
Boltar sem voru hluti af liðamótum stólsins gáfu sig í þrígang og taldi kærunefndin að um galla væri að ræða. Seljandi reyndi viðgerðir tvisvar sem ekki reyndust haldbærar og synjaði því að gera við stólinn í þriðja sinn nema gegn greiðslu. Kaupandi krafðist þess að fá nýjan stól og áleit kærunefndin að hann ætti rétt á því. Þá var kaupandi talinn eiga rétt til að fá greiddar bætur fyrir kostnað sem hann þurfti að bera vegna tilrauna seljanda til viðgerða. Ekki var tekin afstaða til kröfu kaupanda um bætur vegna afnotamissis af stólnum þar sem hún þótti ekki nægilega skýrt fram sett.
Mál nr. 15/2006
Kaup á rafmagnsnuddpotti. Neytendakaup.
Kaupandi keypti rafmagnsnuddpott en í ljós kom að hann var gallaður. Að lokum tókst að lagfæra gallann og féll kaupandinn þá frá riftunar- og endurgreiðslukröfu. Hann taldi sig hins vegar hafa orðið fyrir tjóni sem tekja mætti til gallans, þ.e. vegna aksturs þegar viðgerðir voru reyndar, vinnutaps, aukinnar rafmagnseyðslu pottsins vegna gallans og eins hefði hann ekki haft not af honum um nokkurt skeið. Kærunefndin áleit að kaupandinn ætti rétt á kr. 100.000 í bætur sem hún mat að álitum.
Mál nr. 14/2006
Nuddpottur. Neytendakaup.
Kaupandi taldi vera þann galla á nuddpotti að hann hefði eytt of miklu rafmagni og krafði seljanda bóta fyrir. Viðgerðamenn á vegum seljanda athuguðu pottinn tvívegis og stilltu. Rafmagnsnotkun pottsins komst í eðlilegt horf eftir nokkurn tíma. Ekki kom fram í gögnum málsins að sérstakur galli hefði verið á pottinum sem gera þurfti við, en ljóst var að kaupandi átti í vandræðum með stillingar á honum. Bótakröfu kaupanda var hafnað á þeim forsendum að ekki hefði verið leitt í ljós að potturinn hefði verið gallaður.
Mál nr. 13/2006
Eldhúsinnrétting. Neytendakaup.
Seljandi afhenti ekki tvo hluta af hurð sem átti að vera fyrir framan uppþvottavél í eldhúsinnréttingu. Kaupandi talinn eiga rétt á skaðabótum sem svaraði verði sambærilegrar uppþvottavélar. Seljandinn bar fyrir sig ómöguleika á afhendingu. Ekki var talið í ljós leitt að ómöguleikinn hefði verið til staðar fyrst eftir kaupin og því ættu ákvæði 2. og 3. mgr. 24. gr. laga nr. 48/2003 ekki við.
Mál nr. 12/2006
Ísskápur. Neytendakaup.
Ísskápur var gallaður. Kaupandinn talinn eiga rétt á því að fá nýjan ísskáp í staðinn eða að rifta kaupunum og fá kaupverðið endurgreitt. Kysi kaupandi síðari kostinn ætti að fara um endurgreiðslu skv. 50. gr. laga nr. 48/2003, þ.e. að taka tillit til nota kaupanda af skápnum, þótt gallaður væri, og skyldu seljanda til að greiða vexti af þeim hluta kaupverðsins sem honum bar að endurgreiða.
Mál nr. 11/2006
Leðursófasett. Neytendakaup.
Galli var talinn vera í leðri sófasetts og kom hann í ljós rúmum tveimur árum eftir að sófinn var keyptur. Talið var að kaupandi ætti rétt á kvörtunarfresti skv. 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003, þ.e. 5 ára fresti. Talið var að kaupandi ætti rétt á því að rifta kaupunum og að fá kaupverð sófans endurgreitt. Við ákvörðun fjárhæðar endurgreiðslu ætti að taka tillit til þess að kaupandi hefði haft not af sófanum. Kaupandi ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hefði beðið sérstakt tjón vegna gallans sem leiddi til skaðabótaskyldu seljanda. Hins vegar ætti hann rétt á afslætti af kaupverðinu kysi hann ekki að rifta kaupunum.
Mál nr. 10/2006
Matarstell. Neytendakaup.
Verðandi brúðhjón skráðu sig á svonefndan „brúðkaupslista“ í því skyni að safna einstökum hlutum í matarstell. Skráningin þjónaði þeim tilgangi að brúðkaupsgestum gæfist kostur á að kaupa hluti í stellið eða gjafabréf sem brúðhjónin gætu notað sjálf til kaupa. Í 8 mánuði, þ.e. frá brúðkaupinu þar til beiðni um álit barst, höfðu hjónin ekki getað keypt neitt í stellið, ýmist vegna þess að hlutir fengust ekki eða verslunin var lokuð svo vikum skipti. Hjónin voru talin eiga rétt að því að rifta kaupunum og að fá endurgreidda ónotaða hluti í stellinu svo og gjafabréf sem þau höfðu fengið.
Mál nr. 9/2006
Bílskúrshurð o.fl. Þjónustukaup.
Fyrirtæki tók að sér að skipta um hurð o.fl. og gerði kostnaðaráætlun um verkið. Reikningur sem verksalinn gerði fyrir verkið var mun hærri en fjárhæð kostnaðaráætlunarinnar og neitaði verkkaupi að greiða. Talið var verksali hefði átt, skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 42/2000, að gera verkkaupa viðvart þegar honum varð ljóst að verkið yrði dýrara en ráð var fyrir gert. Það gerði hann ekki. Verksali gat ekki tilgreint sérstakar ástæður fyrir því að verkið reyndist dýrara. Hann átti því ekki rétt á hærri greiðslu samkvæmt 30. gr. laganna en fallist var á viðbótargreiðslu skv. 29. gr.
Mál nr. 8/2006
Barnavagn. Neytendakaup.
Kaupandi vildi skila seljanda barnavagni, sem hann hafði keypt og taldi gallaðan, og fá kaupverðið endurgreitt. Eftir að kærunefnd hafði kynnt seljanda kröfur kaupanda féllst seljandinn á þær og endurgreiddi kaupverðið.
Mál nr. 7/2006
Baðker. Neytendakaup.
Kaupandi keypti baðker sem var með ljósi í botninum. Það var sett niður í hús 10. september 2005. Tæpum hálfum mánuði seinna varð kaupandi var við leka sem reyndist stafa frá ljósinu. Of stór pera var í því og plastkúpull sem skrúfaður var í botn baðkersins yfir ljósinu hafði skemmst vegna hitans sem frá perunni komi. Seljandi lagði til nýja peru og kúpul. Ekki var talið leitt í ljós að niðurfall baðkersins hefði verið illa tengt í upphafi, og lekinn stafaði af því, en tengingar gátu hafa færst úr skorðum þegar lekinn frá ljósinu var athugaður. Lekinn skemmdi parket, vegg og loftplötur. Niðurstaðan varð sú að skemmdirnar stöfuðu frá leka með ljósinu og því bæri seljanda að bæta kaupanda það tjón sem hann varð fyrir af þeim sökum.
Mál nr. 5/2006
Sófasett. Neytendakaup.
Galli var í áklæði tveggja stóla í sófasettinu. Kaupendur óskuðu eftir því að fá nýtt áklæði á stólana og sófann þar sem þau töldu að litamunur gæti orðið á nýju áklæði á stólunum og áklæðinu á sófanum. Talið var að kaupendur ættu rétt á að fá nýtt áklæði á stólana. Einnig á sófann kæmi í ljós að litamunur yrði slíkur að telja mætti sófann skera sig úr frá stólunum.
Mál nr. 4/2006
Tölva. Um kaupin á tölvunni fór samkvæmt lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup þar sem lög nr. 48/2003 um neytendakaup tóku gildi eftir að kaupin áttu sér stað.
Sama bilun gerði vart við sig í tölvunni í þrjú skipti og ekki ljóst hverju var um að kenna. Tölvan var orðin 4 ára þegar kaupandi kvartaði síðast um bilun. Seljanda talið skylt að gera við bilunina. Þar sem tölvan var komin til ára sinna var talið var að kaupandi gæti ekki krafist þess að fá nýja tölvu. Gerði seljandi ekki við tölvuna var talið að kaupandi ætti rétt á skaðabótum sem svöruðu viðgerðarkostnaði eða afslætti af kaupverði tölvunnar.
Mál nr. 3/2006
Bifreið. Lausafjárkaup.
Seljandi talinn eiga rétt til þess að bæta úr galla, sem var á bifreið kaupanda, eins og hann bauðst til þess að gera. Þekktist kaupandi ekki það boð var talið að hugsanlegur réttur hans til vanefndaúrræða félli niður.
Mál nr. 2/2006
Hurð í eldhúsinnréttingu. Neytendakaup.
Kaupandi fékk afhenta hurð í eldhúsinnréttingu, sem hann keypti, í stað annarrar sem hann taldi gallaða. Nýja hurðin var pökkuð í gegnsætt plast. Talið var að þeir gallar sem kaupandi taldi einnig vera á nýju hurðinni hefðu þegar átt að sjást við skoðun. Kaupandi kvartaði undan gallanum sex mánuðum eftir afhendingu hurðarinnar. Þótti sú kvörtun of seint fram komin og því ætti kaupandi ekki rétt á að fá nýja hurð.
Mál nr. 1/2006
Leðursófasett. Neytendakaup.
Leður á sófanum talið gallað. Kaupendur ekki taldir eiga rétt til úrbóta, sem hefðu orðið mjög dýrar miðað við kaupverð sófans. Hins vegar var talið að þeir ættu rétt á því að fá nýjan sófa eða rifta kaupunum og fá kaupverðið endurgreitt. Kysu kaupendur ekki að rifta kaupunum ættu þeir rétt á afslætti af kaupverði.